Fólkið í Kaupstaðnum

Ljósmyndasýning Byggðasafns Reykjanesbæjar

Á sýningunni gefur að líta sýnishorn af ljósmyndum í eigu Byggðasafns Reykjanesbæjar með sérstakri áherslu á ljósmyndir Heimis Stígssonar og Jóns Tómassonar. Þema sýningarinnar er fólk og mannlíf í kaupstaðnum Keflavík og nágrannabænum Njarðvík á árunum 1944 til 1994.

 

Sýningin er jafnframt tileinkuð nýjum ljósmyndavef Byggðasafnsins; reykjanesmyndir.is , þar sem skoða má þúsundir mynda úr sögu bæjarins, senda inn athugasemdir og upplýsingar og panta myndir, ef svo ber undir.

 

Heimir Stígsson, ljósmyndari (1933-2009)

Árið 1961 stofnaði Heimir Stígsson Ljósmyndastofu Suðurnesja sem hann starfrækti í rúmlega 40 ár. Á upphafsárum hennar var óvíst hvort hægt væri að reka hér stofu og hafa af því fulla atvinnu. Heimir var þá í fullu starfi sem slökkviliðsmaður á Keflavíkurflugvelli og hélt vinnu sinni meðfram rekstri stofunnar í nokkur ár. Eftir fimm ára rekstur gat hann helgað sig ljósmynduninni og lengi vel var stofan sú eina sem rekin var á Suðurnesjum.

Undir síðustu aldamót fór Heimir að draga saman seglin. Þá seldi hann Reykjanesbæ allt filmusafnið sitt, sem telur yfir 40 þúsund tökur. Í hverri töku getur verið frá einni mynd og allt upp í yfir hundrað myndir. Heimir tók venjulega þrjár myndir í passamyndatöku, um tuttugu þegar teknar eru myndir á stofunni og vel yfir hundrað þegar teknar voru myndir við skólaslit og fermingar í kirkjum. Þannig að myndafjöldinn í safninu hans gæti farið eitthvað yfir 300 þúsund. Heimir skipti tökunum upp í 4 meginflokka, svarthvítar myndir sem eru 9113 tökur, litmyndir 9357 tökur, eftirtökur 3045 tökur og passamyndirnar eru 25.398 tökur, auk ýmissa smærri heilda í safninu. Í þessu mikla safni má gera ráð fyrir að hægt sé að finna andlit flestra þeirra sem bjuggu á Suðurnesjum á ofanveðri tuttugustu öld. Þetta er því einstak safn fyrir landshlutann allan. Myndasafn Heimis er fjölbreytt, þar er bæði að finna venjulegar stofumyndir en einnig almennar bæjarlífsmyndir, fréttamyndir og atviksmyndir sem Heimir tók reglulega á ferlinum.

Heimir menntaði sig í ljósmyndafræðum og lauk fyrsta prófi hjá Halldóri Einarssyni ljósmyndara árið 1964. Hann bætti síðan við menntun sína með því að sækja námskeið og fara í kynnisferðir m.a. til Bandaríkjanna, Þýskalands, Danmerkur og Englands. Heimir vann ötullega að viðgangi fagsins, hann sat í stjórn Ljósmyndarafélags Íslands þar af í 4 ár sem formaður, þá kenndi hann, tók nema og var prófdómari.

Heimir var góður íþróttamaður, var markmaður fótboltanum hjá Keflavík og síðar varð hann mikill áhugamaður um golf. Hann hafði líka alltaf sterkar taugar til mannúðarmála var einn þeirra sem stofnuðu björgunarsveitina Stakk í Keflavík, þá var hann meðlimur í Rotary og í Frímúrarareglunni í Keflavík. Heimir sat í safnanefnd Byggðasafns Suðurnesja og lagði menningarmálum mikið lið með öflun og útvegun mynda, til dæmis prýða myndir eftir hann margar greinar sem ritaðar hafa verið í Faxa og einnig tók hann margar eftirtökur af gömlum myndum.

 

Ljósmyndarinn Jón Tómasson (1914-1996)

 Ljósmyndirnar á stöplunum á sýningunni eru allar eftir Jón Tómasson. Jón hafði brennandi áhuga á ljósmyndun, bæði í listrænum tilgangi og til að skrásetja söguna, og hafði metnað til þess að sameina þetta tvennt. Á árunum 1940 til 1960 tók Jón mikið af ljósmyndum sem gefa áhugaverða innsýn í mannlíf Keflavíkur og nágrannabyggða á þessum árum. Jón gaf Byggðasafni Reykjanesbæjar hluta af merku ljósmyndasafni sínu, eða hátt í átta þúsund ljósmyndir. Á þessari sýningu er fókus ljósmyndarans á fólkið í bænum, en safnið á jafnframt fjölda ljósmynda eftir Jón sem eru einstakar heimildir um atvinnulífið og samfélagið í heild á þessum árum.

 Jón var fæddur 26. ágúst 1914 á Járngerðarstöðum í Grindavík en bjó lengst af í Keflavík. Hann var stöðvarstjóri Pósts og síma frá 1940 til 1977. Þá stofnaði hann Umboðsskrifstofu Jóns Tómassonar í Keflavík, en seldi hana 1987 og flutti til Reykjavíkur. Auk þess stóð að hann stofnun fleiri fyrirtækja í Keflavík með ættingjum og vinum.

 Jón sat í hreppsnefnd Keflavíkur og í fyrstu bæjarstjórn Keflavíkur 1946 yil 1954 og starfaði í ýmsum nefndum. Hann var afar virkur í hvers kyns félagsstarfi og var ritstjóri Faxa, málgagns Málfundafélagsins Faxa, um árabil og eftir hann liggur fjöldi greina sem sýna glöggt hversu framsýnn hann var í hugsun. Má þar m.a. nefna grein um nauðsyn hótelreksturs í Keflavík 1943 og aftur 1945; útflutning á ferskum fiski í flugvélum 1946; sameiningu Keflavíkur, Njarðvíkur og Keflavíkurflugvallar 1952; beislun jarðhita til húsahitunar og margt fleira.

 Þann 1. janúar 1990 veitti forseti Íslands honum Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir embættis- og félagsstörf.