á og í ;
á og í ;
Sýningin opnar þann 20. febrúar og stendur til 21. mars 2021.
Sýningin á og í ; samanstendur af nýjum verkum listamannanna, Bjarkar Guðnadóttur, Helgu Páleyjar Friðþjófsdóttur og Yelenu Arakelow, sem sérstaklega eru búin til fyrir sali Listasafns Reykjanesbæjar. Sýningin er unnin í samstarfi við Dansverkstæðið, sem valdi Yelenu Arakelow, sjálfstætt starfandi danshöfund og dansara sem starfar á mörkum myndlistar og danslistarinnar, til liðs við nýja sýningu Listasafns Reykjanesbæjar.
á og í ; er sýning séð út frá sjónarhorni mannslíkamans í gegnum fjölbreytta miðla. Myndverkin eru ólík en hverfast þó öll um þann skala sem líkaminn tekst á við daglega og skynjun manneskjunnar í manngerðu umhverfi. Nálgun listamannanna á viðfangsefnið færir áhorfandanum fjölbreytt sjónarhorn á umfjöllunarefnið, sem að þessu sinni er hugveran og þeir kraftar sem eru áþreifanlega mótandi fyrir manneskjuna í umhverfi hennar.
Björk Guðnadóttir (f. 1969) leitar víða fanga í listsköpun sinni og til þess notar hún ýmiskonar efnivið eins og léreft, ullargarn, plast, gifs og vax.
Björk hefur haldið einkasýningar og verið valin til þess að taka þátt í mörgum samsýningum, bæði hér á landi og erlendis. Hún hefur hlotið fjölmarga styrki og verk eftir hana eru í eigu listasafna og safnara. Björk er meðlimur í myndhöggvarafélaginu í Reykjavík og Nýlistasafninu.
Björk lauk MFA-gráðu frá Listaháskólanum í Umeå, Svíþjóð (Konsthögskolan Umeå universitet) árið 1999, stundaði nám við Listaakademíunni í Osló (Kunstakademiet i Oslo) 1994–1995 og var auk þess skiptinemi við Myndlista- og handíðaskólann 1995–1996. Hún nam einnig myndlist við fornámsdeild Atelier Hourdé Paris, 1993–1994 og klæðskurð við École Superieure de la Mode Paris (ESMOD) 1991–1993. Björk býr og starfar í Reykjavík.
Helga Páley Friðþjófsdóttir (f. 1987) hefur í verkum sínum notað teikningu, meðal annars til þess að kanna mörk miðilsins, bæði á pappír og í skúlptúr.
Helga Páley hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum, bæði hér á landi og erlendis. Hún var meðlimur í listamannarekna galleríinu Kunstschlager í Reykjavík, 2014–2016. Hún hefur enn fremur tekið þátt í ýmsum verkefnum, eins og Frystiklefanum í Rifi og var liststjórnandi fjölþjóðlegu listahátíðarinnar Ærings.
Helga Páley útskrifaðist með diplóma úr Motion Creative í Hyper Island, Stokkhólmi, árið 2018 og lauk námi við myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2011. Samhliða myndlistinni hefur hún einnig unnið sem teiknari, bæði við myndskreytingar og hreyfimyndagerð (e. illustrator og animator). Helga býr og starfar í Reykjavík.
Yelena Arakelow (f. 1993) er danslistamaður, í verkum sínum skoðar hún eðli hreyfinga og birtingarmynd þeirra í dansinum. Yelena hefur á ferli sínum unnið í þverfaglegu (e. multidisciplinary) samstarfi og sýnt víða, bæði hér á landi og erlendis. Yelena frumsýndi verk sitt „work (it) out“ í Tanzhaus Zürich árið 2020, sama ár kom hún fram í sýningu Andreas Brunner „Ekki brotlent enn“ í Listasafni Reykjavíkur og í samstarfi við Klāvs Liepiņš vann hún dansverkið „mati kreppapīra krāsā // hair in the colour of crepe paper“ í Vidas Deja International Dance Festival í Lettlandi. Yelena hefur hafið nýtt samstarf við Sólbjörtu Veru Ómarsdóttur fyrir sýninguna „á og í ;“ en Sólbjört hannar og býr til búninga verksins.
Yelena útskrifaðist með BA-gráðu í samtímadansi frá Listaháskóla Íslands árið 2018, lauk fornámi við Copenhagen Contemporary Dance School árið 2015 og útskrifaðist frá myndlistardeild Atelierschule Zürich árið 2013. Í sjö ár þjálfaði hún við Kinder Zirkus Robinson, barna og ungmenna sirkús sem ferðast innan Sviss.
Dansverkstæðið - vinnustofur danshöfunda, var stofnað árið 2010 af hópi danshöfunda sem vildi bæta vinnuaðstöðu danslistafólks. Dansverkstæðið skipuleggur reglulega þjálfunartíma og námskeið fyrir dansara og annað sviðslistafólk. Með aðild að ýmsum alþjóðlegum verkefnum tekur Dansverkstæðið þátt í uppbyggingu danslistarinnar og stuðlar að auknum tækifærum fyrir danslistafólk.
Reykjavík Dance Festival, Félag íslenskra listdansara og önnur félög og hagsmunasamtök danslistamanna hafa aðsetur í Dansverkstæðinu. Þannig er Dansverkstæðið sameiginlegur vettvangur þessara aðila og heimili dansins.
Listasafn Reykjanesbæjar, þakkar Tinnu Grétarsdóttur framkvæmdastjóra Dansverkstæðisins, fyrir sérlega ánægjulegt samstarf.
Yelena Arakelow, verður með lifandi gjörning klukkan 15:30 við opnun á og í ; hún mun einnig koma fram allar helgar meðan sýningin er uppi.
Helga Þórsdóttir safnstjóri Listasafns Reykjanesbæjar er sýningastjóri á og í ;.