Viðburðarík helgi í Duus Safnahúsum

Síðastliðin helgi í Duus Safnahúsum var afar skemmtileg og viðburðarík. Á laugardeginum voru opnaðar tvær nýjar sýningar og menningarverðlaun Reykjanesbæjar afhent og á sunnudeginum var listamannaleiðsögn og opið málþing.

 Listasafn Reykjanesbæjar opnaði sýninguna Við girðinguna en þar er á ferðinni einkasýning Úlfs Karlssonar sem fæddur  árið 1988 og er með eftirtektarverðustu listmálurum sinnar kynslóðar. Verk hans eru litríkar og átakamiklar hugleiðingar um mannlífið í abstrakt-expressjónískum anda. Á sunnudaginn var listamaðurinn sjálfur og sýningarstjórinn Aðalsteinn Ingólfsson  með afar fróðlega og áhugaverða leiðsögn um sýninguna. 

Byggðasafn Reykjanesbæjar opnaði sýninguna Verndarsvæði í byggð. Á sýningunni er varpað fram hugmyndum um hvort  ástæða sé  til að vernda ákveðin svæði í Reykjanesbæ, t.d. gamla bæinn, vegna menningarsögulegs mikilvægis og gefst íbúum kostur á að láta rödd sína heyrast og koma með tillögur um framtíðarásýnd gamla bæjarins og annarra svæða. Opið málþing var haldið á sunnudeginum þar sem stórskemmtileg erindi voru flutt um efnið. 

Á laugardeginum var Súlan, menningarverðlaun Reykjanesbæjar afhent.  Að þessu sinni hlaut menningarhópurinn „Með blik í auga“ verðlaunin fyrir framlag sitt til tónlistarlífs í Reykjanesbæ en frumkvöðlar og stýrimenn hópsins eru þeir Arnór B. Vilbergsson, Guðbrandur Einarsson og Kristján Jóhannsson.

 Þetta var því ánægjuleg helgi með frábærum gestum en sýningarnar standa áfram, Við girðinguna, sýning Úlfs Karlssonar stendur til 14. janúar 2017 og Verndarsvæði í byggð til 15. apríl 2018. Opið er hjá okkur frá 12-17 alla daga og allir hjartanlega velkomnir.

 

Mynd til vinstri: Úlfur Karlsson, frá listamannaleiðsögn. Mynd til hægri: Karl Steinar Guðnason, frá málþingi um Verndarsvæði í byggð.