SUMARSÝNINGUM LÝKUR

Í sumar hafa þrjár áhugaverðar sýningar prýtt sali Listasafns Reykjanesbæjar en þeim lýkur sunnudaginn 18. ágúst. Í aðalsýningarsal safnsins er sýning á verkum Erlu S. Haraldsdóttur sem ber titilinn Fjölskyldumynstur. Erla hefur verið búsett erlendis frá barnæsku, fyrst í Svíþjóð og síðar í Berlín. Á sýningunni sýnir hún ný málverk og lithographíur byggðar á fjölskyldusögu og endurminningum. Hún finnur tengingar við myndefnið í abstrakt mynstrum Ndbele ættbálksins sem hún kynnti sér í vinnustofudvöl í Suður Afríku.

Auk hefðbundinna málverka Erlu S. eru á sýningunni mynstur unnin beint á veggina. Myndirnar sem Erla S. sýnir eru meðal annars tilkomnar vegna áhuga hennar á að kynnast uppruna sínum; formæðrum og ættkonum. Samtímis því að Erla S.  kynnir sér menningararf kvenna í annarri heimsálfu, minnir listakonan á að í dag lifum við í heimsþorpi þar sem ólíkir menningarheimar þurfa að vinna saman í sátt og samlyndi.

Í Stofunni gefur að líta afrakstur vinnustofu þar sem fimm listamönnum var boðið að taka þátt í verkefni þar sem þeir unnu með upplifanir sínar af Suðurnesjunum. Áhersla var lögð á tvívíða miðla og verk á pappír. Listamennirnir eru Anna Hallin, Leifur Ýmir Eyjólfsson, Helgi Þorgils, Olga Bergmann og Rósa Sigrún Jónsdóttir. Þeim gafst kostur á að hafa vinnuaðstöðu í gamla samkomuhúsinu í Höfnum. Þau gengu mörg hver um landið í kring um Hafnir og söfnuðu litaprufum og sjónarhornum sem síðan runnu inn í verkin þeirra. Lágróður og vegghleðslur fundu sína leið í saumspori, ströndin og höfnin mótuðust á blaði, hólar og hæðir voru rispuð á koparplötur, hugleiðingar um náttúrufyrirbæri eins og flekaskilin og jafnvel flugumferðin varð að innblæstri. Ný sýn opnaðist á kunnugleg fyrirbæri sem listamennirnir gerðu að sínum með því að tvinna þau inn í verk sín.

Í Bíósal eru sýnd verk úr safneign eftir Benedikt Gunnarsson listmálara en fjölskylda Benedikts gaf safninu nokkur málverk í vor ásamt skissum af steindum gluggum sem Benedikt vann fyrir Keflavíkurkirkju árið 1977.  Þegar kirkjan var færð til upprunalegs horfs árið 2012 voru gluggarnir teknir niður og settir í geymslu en nú má sjá 6 þessara glugga á sýningunni í Bíósal.