Skemmtilegar haustsýningar opnaðar í Duus Safnahúsum

Skemmtilegar haustsýningar opnaðar í Duus Safnahúsum

Það er alltaf spennandi að sjá hvað Listasafn Reykjanesbæjar og Byggðasafn Reykjanesbæjar draga upp úr höttum sínum á haustsýningum safnanna sem venjulega eru opnaðar á Ljósanótt. Söfnin halda sínu striki og bjóða til opnunar á fimmtudag kl. 18:00 og eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Vel verður tekið á móti gestum með ljúfum tónum og veitingum og sýningum fylgt úr hlaði með stuttum ávörpum.

Myndlistargjöf og samtímalist hjá Listasafninu

Listasafn Reykjanesbæjar opnar tvær sýningar að þessu sinni. Á sýningunni Formheimur Bjargar Þorsteinsdóttur gefur að líta akrýlmálverk, olíukrítarteikningar og grafíkverk af fimm áratuga löngum myndlistarferli Bjargar (1940-2019). Aðdragandi sýningarinnar er höfðingleg gjöf til Listasafnsins frá erfingjum Bjargar, 105 myndverk sem safnið fékk afhent í maí árið 2020. Íbúar eru því hvattir til að líta við og sjá þessi fallegu verk sem nú eru í eigu bæjarins.

Seinni sýningin sem Listasafnið opnar er í samvinnu við MULTIS sem er verkefni á vegum Helgu Óskarsdóttur, Ásdísar Spanó og Kristínar Jónu Þorsteinsdóttur. MULTIS sérhæfir sig í kynningu, útgáfu og sölu á fjölfeldum íslenskra samtímalistamanna og er markmið þeirra að gera list aðgengilega almenningi og bjóða upp á myndlist eftir listafólk í fremstu röð íslenskrar samtímalistar. Hér er mjög áhugaverð nálgun á ferðinni sem enginn ætti að láta framhjá sér fara en á sýningunni FJÖLFELDI - HLUTFELDI - MARGFELDI er sjónum beint að verkum tuttugu og níu samtímalistamanna sem hafa til lengri eða skemmri tíma unnið að gerð fjölfelda (Multiple).

Ert þú til sýnis? Ljósmyndasýning Víkurfrétta og Byggðasafnsins

Í Bíósal opnar sýning þar sem fólk á Suðurnesjum er í sviðsljósinu en sýningin er samvinnuverkefni Byggðsafns Reykjanesbæjar og Víkurfrétta. Á sýningunni gefur að líta nærri 400 myndir, prentaðar og rafrænar, þar sem fólk er í fyrirrúmi. Myndirnar tóku ljósmyndarar blaðsins á árunum 1983 til 1993. Hér er því um að ræða nokkurs konar örsýningu með myndum frá fyrstu árum Víkurfrétta en blaðið kom fyrst út 14. ágúst 1980 og þá hálfsmánaðarlega en vikulega frá 1983 og geymir ógrynni heimilda.

Duus Safnahús eru opin alla daga frá kl. 12-17 og verður ókeypis aðgangur fram á sunnudag í tilefni opnunarinnar og þess að Ljósanótt hefði verið haldin þessa helgi.