Ljósanætursýningunum fjórum lýkur um helgina
Ljósmyndasýningin Eitt ár á Suðurnesjum er afrakstur samkeppni sem Listasafn Reykjanesbæjar stóð fyrir. Öllum Suðurnesjamönnum var boðið að senda inn myndir sem lýstu daglegu lífi og náttúru á Suðurnesjum á einu ári og alls bárust 350 myndir. Sex ljósmyndir sigruðu og fóru í hópinn „Bestu myndirnar“ og þær áttu ljósmyndararnir Guðmundur Magnússon, Ólafur Harðarson, Jón Óskar Hauksson, Haukur Hilmarsson og Hilmar Bragi Bárðarson en 30 aðrar myndir fengu sérstaka viðurkenningu sem góðar ljósmyndir. Allar þessar myndir og fjöldi annarra eru á sýningunni sem lýkur sunnudaginn 4.nóvember.
Vinsælasta myndin kosin
Safngestir kusu vinsælustu ljósmyndina á sýningunni Eitt ár á Suðurnesjum og tóku 607 manns þátt í kosningunni. Og nú er um að gera að sjá þessar myndir og skella sér á sýninguna áður en henni lýkur.
Úrslitin voru þessi:
1. sæti Stóri Hólmur, ljósmyndari Jón Óskar Hauksson
2. sæti Vitinn í storminum, ljósmyndari Sigurþór Sumarliðason
3. sæti Skessuhellir í klakaböndum, ljósmyndari Hilmar Bragi Bárðarson
Sýningin Eitt ár í Færeyjum er önnur ljósmyndasýning sem lýkur þessa helgi en hún er líka afrakstur samkeppni. Norræna húsið í Þórshöfn bauð öllum Færeyingum að senda inn myndir sem lýstu daglegu lífi og náttúru í Færeyjum á einu ári og nú má sjá vinningsmyndirnar 12 útprentaðar í Bíósal Duus Safnahúsa ásamt öðrum innsendum myndum á skjám.
Sýningin Endalaust er samstarfsverkefni Listasafns Reykjanesbæjar og Handverks og hönnunar og inniheldur verk úr endurunnum efnivið. Um er að ræða fjölbreytt og ólík viðfangsefni og koma 20 hönnuðir að sýningunni sem lýkur nú um helgina.
Sýningunni...Svo miklar drossíur lýkur líka á sunnudaginn. Silver Cross barnavagnar hafa verið vinsælir á Íslandi í langan tíma og er sýningin samstarfsverkefni Byggðasafns Reykjanesbæjar og Thelmu Björgvinsdóttur, sem hefur kynnt sér sögu vagnanna hér á landi. Á sýningunni er fjöldi glæsilegra vagna frá ýmsum tímum, auk fjölda ljósmynda af vögnum í notkun.
Duus Safnahús eru opin alla daga frá 12.00-17.00. Ókeypis aðgangur þessa helgi.
Ljósmynd: Stóri Hólmur, Jón Óskar Hauksson