Nemendakynningar ,,Reykjanesbær - Verndarsvæði í byggð?"
Sýningin „Reykjanesbær – Verndarsvæði í byggð?“ stendur nú sem hæst í Duus Safnahúsum en þar er m.a. kallað eftir tillögum frá íbúum varðandi framtíðarásýnd gamla bæjarins í Keflavík og annarra bæjarhluta. Í byrjun janúar var sex grunnskólabekkjum úr Keflavíkurskólunum boðið í heimsókn á sýninguna þar sem þeir fengu sérstaka leiðsögn og í framhaldi var óskað eftir að þeir veltu fyrir sér Keflavíkurtúninu og hvernig þeir sæju fyrir sér að það liti út í framtíðinni. Var þetta hugsað sem liður í því að vekja athygli barnanna á sínu nærumhverfi og fá þá til að velta því fyrir sér og að átta sig á þeim möguleika að þau geti raunverulega haft áhrif á það.
Í morgun skiluðu krakkarnir, sem voru úr 6., 7. og 8. bekk, af sér tillögum um svæðið á sameiginlegum fundi í Bíósal Duus Safnahúsa og voru þær virkilega athyglisverðar. Það sem kom skemmtilega á óvart var hve mikill samhljómur var í þeim. Öllum var umhugað um að vernda söguna og gera henni hátt undir höfði en um leið að horfa til framtíðar og gera svæðið þannig úr garði að það nýttist bæjarbúum og gestum. Margir vildu grafa upp gamla bæinn og setja upp sýningar tengdum sögu svæðisins. Þá vildu krakkarnir opna kaffihús eða veitingastað með íslenskum veitingum svo sem pönnukökum, kleinum, hangikjöti og fleira góðgæti. Flest vildu þau loks gera svæðið að aðlaðandi útivistarsvæði með gróðri og leiktækjum og voru þá m.a. nefnd til sögunnar leiktæki úr náttúrlegum efnivið svo sem viði. Krakkarnir skiluðu af sér veggspjöldum þar sem þau höfðu teiknað sínar tillögur á og hanga þau nú uppi á sýningunni og eins voru gerð 2 líkön af svæðinu eins og það gæti litið út.
Á næstu vikum mun síðan sérstakur verkefnishópur vinna að því útbúa tillögu um að þetta svæði verði formlega gert að verndarsvæði í byggð. Tillögurnar munu m.a. byggjast á því sem fólk hefur sett fram á sýningunni og munu tillögur nemendanna bætast við þær.
Við hvetjum bæjarbúa alla til að líta við á sýningunni og leggja sitt af mörkum og þá verður opið fyrir almennar skólaheimsóknir allan febrúar.