„Ég ætla að muna eftir ykkur á jólunum“ Jólaföndur og jólatrésskemmtun í Bryggjuhúsi Duus Safnahúsa
Þetta voru orð frú Ásu Olavsen þegar hún kvaddi börnin í Keflavík sem hún hafði boðið til veislu heim til sín, í fínasta hús bæjarins, einn fagran sumardag. Frú Ása var eiginkona Ólafs Olavsens forstjóra og meðeiganda Duusverslunar í kringum aldamótin 1900.
Og frú Ása stóð við sitt. Frá þessum tíma stóð Duusverslunin fyrir glæsilegum jólatrésskemmtunum í Bryggjuhúsinu um 20 ára skeið. Þarna komu saman öll börn bæjarins og úr nágrannabyggðum, allt upp undir 300 börn og sáu þá mörg þeirra jólatré í fyrsta sinn. Skemmtunin hófst seinnipartinn og stóð fram undir miðnætti. Dansað var í kringum jólatréð, söngvar sungnir og veitingar reiddar fram. Um miðnættið tók fullorðna fólkið við og skemmti sér fram eftir nóttu. Ljóst er að þessar skemmtanir hafa verið mikil upplyfting á þessum tímum þegar Keflavík var bara lítið fátækt þorp og fátt um að vera. Kannski hafa þær haft svipað gildi og Ljósanótt fyrir okkur í dag.
Nú er hugmyndin að líta til baka og rifja upp þennan 100 ára gamla, mikilvæga viðburð með eftirfarandi hætti.
Laugardaginn 3. desember frá kl. 13 – 15 er boðið upp á jólaföndur í Bryggjuhúsinu og þá verður salurinn skreyttur hátt og lágt með jólaskrauti í anda þessa gamla tíma og er börnum og fjölskyldum þeirra boðið að koma og búa til kramarhús, jólahjörtu og músastiga til að skreyta salinn og einnig til að taka með sér heim.
Sunnudaginn 11. desember kl. 15 - 16 verður haldin jólatrésskemmtun í Bryggjuhúsinu í anda gömlu skemmtananna. Dansað verður í kringum jólatréð ásamt tveimur jólasveinum af gamla skólanum sem eru óttalegir prakkarar eins og allir vita. Við hvetjum fjölskyldur til að koma saman og njóta þess að líta til baka á gamlar hefðir og upplifa einfaldleika jólanna og hinn sanna jólaanda.
Allir eru hjartanlega velkomnir á meðan húsrúm leyfir og aðgangur er ókeypis.