Duushúsin formlega friðlýst
Minjastofnun Íslands hefur staðfest að eftirfarandi hús í Keflavík eru nú friðlýst: Fischerhús Hafnargötu 2, Gamla búð á Duusgötu, og Bryggjuhúsið og Bíósalurinn sem eru í Duushúsalengjunni. Þetta er mikið fagnaðarefni og viðurkenning til bæjaryfirvalda fyrir að hafa látið sig varða þessi gömlu hús. Þau prýða nú lista Minjastofnunar um friðlýst hús en aðeins örfá mannvirki eru friðlýst á Reykjanesi. Á lista Minjastofnunar má m.a. finna Alþingishúsið, Edinborgarhúsið á Ísafirði, Bæjarbíó í Hafnarfirði, Gljúfrastein og Róaldsbrakkann á Siglufirði í öðrum landshlutum.
Í lögum um menningarminjar nr 80/2012 er kveðið á um að öll hús og mannvirki sem eru eldri en 100 ára skulu vera friðuð. Minjastofnun áætlar að um 2500 hús og mannvirki sé að ræða. Vissulega eru þar misjöfn hús en sum hús eru tekin út úr þessum sjálfsagða lista100 ára lista og tekin sérstaklega til friðlýsingar, bæði sökum sögu sinnar og byggingarstíls en einnig vegna umhyggju eigenda húsanna fyrir þeim. Þessi hús hljóta þá sérstaka friðlýsingu og mikill heiður fyrir Reykjanesbæ að eiga fjögur hús í þeim flokki. Reykjanesbær hefur unnið jafnt og þétt að viðgerð Duushúsanna og lauk þeirri vinnu árið 2014. Nú er unnið að viðgerð Fischerhúss og Gömlu búðar eins og sjá má. Þessi vinna hefur ávallt verið unnin í samvinnu við Minjastofnun sem hefur styrkt framkvæmdirnar.
Það er mikil bæjarprýði af þessum húsum og virði þeirra á bara eftir að aukast eftir því sem tímarnir líða.