Duus Safnahús fengu Hvatningarverðlaun ferðaþjónustunnar á Suðurnesjum
Duus Safnahús hlutu Hvatningarverðlaun ferðaþjónustunnar á Reykjanesi 2018 fyrir nýsköpun og þróunarstarf í ferðaþjónustu á Reykjanesi.
Eggert Sólberg Jónsson verkefnastjóri Reykjanes Geopark og Þuríður Aradóttir Braun forstöðumaður Markaðsstofu Reykjaness afhentu Valgerði Guðmundsdóttur menningarfulltrúa og Kjartani Má Kjartanssyni bæjarstjóra verðlaunin í morgun.
Saga Duus Safnahúsa nær aftur á 19. öld þegar þar var blómleg verslun og fiskvinnsluhús Peter Duus. Duus Safnahús eru lista- og menningarmiðstöð Reykjanesbæjar og hýsa aðal sýningarsali Listasafns og Byggðasafns Reykjanesbæjar. Bæði söfnin hafa hlotið viðurkenningu Safnaráðs. Þar er einnig upplýsingamiðstöð ferðamanna, Gestastofa Reykjaness jarðvangs (Geopark), Bátafloti Gríms Karlssonar og fleiri sýningar.
Eggert fór yfir sögu Duus Safnahúsa í stuttu máli á verðlaunaafhendingunni í morgun:
Við getum sagt að menningararfur skilgreini uppruna okkar og tilveru. Við getum líka haldið því fram að miðlun menningarfsins sé mikilvægur hluti upplifunar gesta svæðisins. Á sama tíma og við þurfum að gæta að menningararfinum þurfum við að huga að samtímamenningunni sem með tímanum verður hluti af menningararfinum.
Duushúsalengjan í Reykjanesbæ samanstendur af röð merkilegra bygginga frá ýmsum tímum. Elsta húsið, Bryggjuhúsið, var byggt árið 1877 og það yngsta, aðalinngangurinn, var byggður á síðasta ári, þ.e. 140 árum síðar.
Í Duushúsum hefur í gegnum tíðina verið fjölbreytt starfsemi, m.a. pakkhús eða lagerhús, bíósalur, einn sá elsti á landinu, fiskverkun og kaffihús. Í dag er húsnæðið sem var um tíma illa farið aftur orðið stolt íbúa á svæðinu þar sem þessu gömlu fiskihúsum hefur verið breytt í glæsilegt menningarhús. Það má því segja að þau séu komin aftur í atvinnuskapandi rekstur og eru stolt íbúa á svæðinu.
Í dag eru þar átta sýningarsalir safnanna í Reykjanesbæ með breytilegum sýningum þar sem myndlist, sögu og náttúru er gerð skil á fjölbreytilegan máta. Duus Safnahús skipa því orðið stórt hlutverk í þjónustu við ferðamenn á Suðurnesjum sem ákjósanlegur staður til að koma við á og kynna sér íslenska menningu og náttúru. Stöðugur rekstur með föstum opnunartíma gerir það að verkum að ferðaþjónustufyrirtæki geta gert langtíma bókanir og hægt er að ganga að faglegri og öruggri þjónustu vísri.
Stjórnir Reykjanes UNESCO Global Geopark og Markaðsstofu Reykjaness hafa ákveðið að veita Duus Safnahúsum Hvatningarverðlaun ferðaþjónustunnar á Suðurnesjum árið 2018 með hvatningu til Reykjanesbæjar og annarra sveitarfélaga á Suðurnesjum að halda áfram á sömu braut, þ.e. að gæta að menningararifnum og huga að samtímamenningu á sama tíma.