Nánar um sýninguna Fornleifar úr Vogi í Höfnum

Vogur í Höfnum - staður eða stöð?
Þegar skálarúst fannst í Höfnum, sem er lítið þorp á Reykjanesskaganum, var talið að um hefðbundinn landnámsskála væri að ræða. Jafnvel að um bústað Herjólfs Bárðarsonar, landnámsmanns í Höfnum sem var langafi Bjarna Herjólfssonar siglingakappa. En talið er að Bjarni hafi ásamt áhöfn sinni verið fyrstir Evrópubúa að sjá meginland Norður Ameríku. 
Þegar fornleifarannsóknir hófust árið 2009 kom í ljós að þótt skálinn væri af venjulegri gerð þá vantaði öll útihús sem ávallt fylgja slíkum húsum. 
Getur verið að skálinn hafi ekki verið hefðbundið bændabýli frá elstu tíð? Er hér um útstöð landkönnuða og ævintýramanna að ræða eins og byggingar norrænna manna á Nýfundnalandi? Skálinn hefur þá verið notaður í stuttan tíma á ári sem miðstöð til að nýta auðlindir og kanna landið. Ísland var einn áfangastaður á leiðinni enn lengra vestur, til Grænlands og meginlands Norður-Ameríku.

Fornleifarannsóknin í Vogi Höfnum

Árið 2002 var gerður samningur við Fornleifafræðistofuna sem dr. Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur stýrir um að skrá fornleifar í landi Reykjanesbæjar. Við skoðun á loftmynd af svæðinu fyrir aftan Kirkjuvogskirkju kom í ljós skálalöguð rúst. Tvær prufuholur voru gerðar og kom þá í ljós að um skála frá landanámstíma var að ræða verið er að greina sýni sem gætu varpað skýrari ljósi á tímasetningu rústanna.

Skálinn hefur verið rannsakaður, árin 2009, 2011 og 2012, auk þess sem könnuð hafa verið svæði þar sem möguleiki er að fleiri rústir finnist. Aðeins hafa fundist óverulegar byggingar en hvert hlutverk þeirra var, er ekki ljós. þessi skortur á útihúsum hefur vakið upp efasemdir um að skálinn hafi verið bændabýli en mögulega er hér um útstöð að ræða, stað sem menn byggðu sér og nýttu er þeir komu hingað til að nýta og kanna landið.