Nánar um sýninguna Þyrping verður að þorpi
Um sýninguna
Við gerð sýningarinnar var m.a. stuðst við Sögu Hafnahrepps eftir Jón Þ. Þór, Sögu Njarðvíkur eftir Kristján Sveinsson og Sögu Keflavíkur eftir Bjarna Guðmarsson. Þá var innblástur sóttur til sagnaþátta Mörtu Valgerðar Jónsdóttur, Þórarins Tómassonar, Ágústs Guðmundssonar, Jón Thorarensen, og Kristleifs Þorsteinssonar og eru raddir þeirra á nokkrum stöðum í sýningatextum. Á sýningunni eru náttúrulífsmyndir af Reykjanesi eftir Ellert Grétarsson
Inngangstexti sýningarinnar
Fiskveiðarnar mótuðu allt samfélagið í Keflavík og Njarðvík. Hingað sóttu sjómenn, kaupmenn, braskarar og efnamenn með von um góðan afla. Það skarst í odda, barist var um auðinn, blóðið rann en eftir sem áður þurftu formenn að fara út að nóttu til að taka veðrið og ákveða hvort róið yrði þann daginn.
Þéttbýli við sjárvarsíðuna náði fótfestu á 19. öld. Kaupmenn settust hér að og fjárfestu í saltfiskvinnslu og hófu þilskipaútgerð. Fólk flutti í þorpið til að vinna hjá kaupmanni en flestir þurftu að leita víðar fanga til að eiga fyrir lífsnauðsynjum. Margir fóru einnig í vinnutarnir til sveita, veiddu fisk á öðrum slóðum, ræktuðu matjurtir og náðu jafnvel að halda eina kú. Sumir sáu tækifæri í að gera sjálfir út báta ekki síst vélbátana og smátt og smátt uxu byggðirnar við ströndina.