Nánar um sýninguna Völlurinn - nágranni inn girðingar
Í hugum þjóðarinnar var Keflavíkurvöllur fyrst og fremst pólitískt bitbein. Fyrir Suðurnesjamenn var hann nágranni innan girðingar. Völlurinn var ekki aðeins herstöð, heldur heilt byggðarlag með skólum, kirkju, sjúkrahúsi, verslunum, kvikmyndahúsi, skemmtistöðum, útvarpi, sjónvarpi, blaðaútgáfu og öðrum fylgifiskum daglegs lífs, verkstæðum og vinnustöðum. Flestir voru íbúar Vallarins um 3000 en samanlagt hafa um 200 þúsund Bandaríkjamenn dvalið á Vellinum.Margir Íslendingar unnu uppi á Velli, sumir alla sína starfsæfi, sumir bjuggu á Suðurnesjum en aðrir óku daglega frá höfuðborgarsvæðinu kvölds og morgna. Kanarnir leigðu til að byrja með húsnæði niðri í bæ og samskiptin voru talsverð. Samt var Völlurinn heimur út af fyrir sig. Allt var með öðrum brag, hvort heldur það var rafmagn, byggingar, húsbúnaður eða gjaldmiðill, þar var allt upp á ameríska vísu. Hvaða áhrif hafði nábýlið á mannlífið og sjávarplássin við ströndina? Þeim spurningum er reynt að svara í sýningunni.
Þessi saga sem spannar rúmlega hálfa öld gefur okkur einstakt tækifæri til að kynnast íslensku samfélagi frá óvenjulegu sjónarhorni. Mjög mikilvægt er því að safna og varðveita minjar um þessa sögu. Í samhengi við sýninguna hefur verið safnað frásögum, myndum og munum.