Stærsti slökkvibíll í heimi fluttur til varðveislu
Tveir slökkvibílar sem voru í eigu Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli voru afhentir Byggðasafni Reykjanesbæjar til varðveislu undir lok síðasta árs. Annar bíllinn er stærsti slökkvibíll sem hefur verið framleiddur í heiminum, sextíu tonna trukkur sem þurfti lögreglufylgd frá Keflavíkurflugvelli og að safnamiðstöðinni á Fitjum. Hinn slökkvibíllinn er á hefðbundnari nótum, en báðir voru framleiddir árið 1984. Báðir voru bílarnir í þjónustu Slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli til margra ára. Stóri slökkvibíllinn er á risastórum dekkjum og átti, þrátt fyrir þyngd sína, að komast út fyrir flugbrautir ef flugvélar myndu farast við flugvöllinn. Minni slökkvibifreiðin var hins vegar notuð sem almenn slökkvibifreið á Keflavíkurflugvelli á tímum Varnarliðsins.
Byggðasafn Reykjanesbæjar hefur nú tekið við varðveislu bifreiðanna og eru hluti af því að byggja upp safnkost sem verður vísir að metnaðarfullri sýningu um sögu varnarliðsins og Keflavíkurflugvallar. Mikilvægt er að munir eins og þessir slökkvibílar verði varðveittir á svæðinu en hverfi ekki annað, eða jafnvel verði fargað.