Söguritun hafin

Sjómannadagurinn í Keflavík 1950-60
Sjómannadagurinn í Keflavík 1950-60

Á vordögum ákvað bæjarráð Reykjanesbæjar að hefja ritun sögu Keflavíkur frá 1949 til 1994. Skipuð var sögunefnd, formaður hennar er Kristinn Jakobsson og bæjarráð hefur þegar lagt til fjármuni í verkefnið. 

Byggðasafn Reykjanesbæjar hefur tekið að sér að skrifa söguna. Eiríkur P. Jörundsson, safnstjóri, mun stjórna verkinu enda alvanur söguritari. Oddgeir Karlsson, ljósmyndari, hefur verið ráðinn myndritstjóri.

Lögð verður áhersla á stafræna útgáfu verksins þegar því er lokið með opnun söguvefs, auk þess að gefið verður út eitt yfirlitsrit í bókarformi. Ritun sögu sveitarfélaganna þriggja sem sameinuðust í eitt árið 1994 verður þar með lokið. Saga Keflavíkur 1766-1949 kom út í þrem bindum á árunum 1992 til 1999, rituð af Bjarna Guðmarssyni. Saga Njarðvíkur kom út í einu bindi árið 1996, rituð af Kristjáni Sveinssyni og Hafnir á Reykjanesi kom út í einu bindi árið 2003, rituð af Jóni Þ. Þór.

Helgi Viðar Valdimarsson Biering, þjóðfræðingur,  mun sinna daglegum störfum safnstjóra á meðan þetta verkefni stendur yfir, en áætlað er að verkinu ljúki með útgáfu sögunnar á fyrstu mánuðum ársins 2022.