Söfnun muna frá Varnarliðinu

Hvítir gúmmíherskór með loftventli
Hvítir gúmmíherskór með loftventli

Undanfarin tvö ár hefur Byggðasafn Reykjanesbæjar staðið að sérstöku söfnunarátaki þar sem horft er til Varnarliðsins sem var á Keflavíkurflugvelli. Það sem verið er að safna eru hvort heldur sem er munir, myndir og sögur sem tengjast veru varnarliðsins.

Helgi V.V. Biering þjóðfræðingur var ráðinn til verksins.  Það er skemmst frá því að segja að átakið hefur skilað töluvert góðum árangri þar sem  að árið 2019 voru skráðir ríflega 300 gripir inn í safneignina sem komu inn eingöngu vegna söfnunarátaksins. Og á árinu 2020 voru skráðir inn um 249 gripir og nærri 1.000 gripir biðu skráningar um síðustu áramót. Búið er að ljósmynda stærstan hluta þeirra muna sem skráðir hafa verið í tengslum við varnarliðssöfnunina og færa inn í Sarp, sameiginlegan gagnagrunn íslenskra minja- og listasafna sem aðgengilegur er á netinu.

Einnig hefur skilað sér inn töluvert magn ljósmynda sem sumar hverjar eru nú þegar komnar á ljósmyndavef Byggðasafnsins; reykjanesmyndir.is.

Þá hafa borist í hús frásagnir einstaklinga sem tengjast veru hersins og samskiptum milli íbúa varnarsvæðisins og íbúa utan girðingarinnar. Þessar sögur eru allar til á hljóðupptökum sem verið er að vinna úr þessa dagana.

Munirnir hafa borist víðsvegar frá og frá fjölmörgum einstaklingum, s.s. Friðþóri Eydal, Tómasi Knútssyni, Páli Bj. Hilmarssyni og Sigurði Má Grétarssyni svo einhverjir séu nefndir. Einnig frá fyrirtækjum og stofnunum en flestir munir hafa komið frá Isavia og Landhelgisgæslunni.