Norræn strandmenningarhátíð sumarið 2018
Norræna strandmenningarhátíðin verður haldin á Siglufirði dagana 4. - 8. júlí 2018 en það er í annað sinn sem hátíðin verður haldin hér á Íslandi. Strandmenningarhátíðin hefur verið haldin árlega frá árinu 2011 og hafa Norðurlöndin skipt með sér hlutverki gestgjafa. Fyrsta hátíðin var haldin á Húsavík árið 2011 undir heitinu Sail Húsavík. Á síðasta ári var hún haldin í Vági í Færeyjum.
Þátttakendur hátíðarinnar sumarið 2018 munu koma víðsvegar að frá Norðurlöndum og gert er ráð fyrir að skip komi siglandi til Siglufjarðar en viðburðir á hátíðinni munu vera í formi fyrirlestra, sýninga, handverks, tónleika, leiklistar- og dansatriða. Jafnframt verða haldin málþing um norræna strandmenningu.
Hátíðin er samstarfsverkefni Nordisk kustkultur, sem eru regnhlífasamtök norrænna strandmenningarfélaga og Vitafélagið -íslensk strandmenning á aðild að af Íslands hálfu, Síldarminjasafns Íslands, Þjóðlagahátíðarinnar og Fjallabyggðar en sveitarfélagið heldur einmitt uppá 100 ára kaupstaðarafmæli 2018 auk þess sem árleg Þjóðlagahátíð fer fram sömu daga.