Höfðingleg gjöf
Þann 8. september síðastliðinn fékk Byggðasafn Reykjanesbæjar afhenta muni og sýningarspjöld sem tengjast sögulegu strandi seglskipsins Jamestown frá Boston.
Skipið var í sinni fyrstu siglingu yfir Atlantshafið með timburfarm sem átti að fara í járnbrautalagningu í Englandi. Skipið hreppti aftaka veður í marga sólarhringa þegar það nálgaðist Írland og það endaði með því að stýrið brotnaði af skipinu og farþegum og áhöfn var bjargað um borð í annað skip. Jamestown rak þá um hafið í nokkra mánuði áður en það svo strandar í nágrenni við Hafnir í júní 1881. Miklu af timburfarminum var bjargað í land og selt á uppboði áður en skipið brotnaði í spón á strandstað.
Undanfarin ár hefur Tómas Knútsson kafað á strandstað og bjargað nokkrum munum af sjávarbotni s.s. báðum akkerum skipsins sem nú standa við húsið Sandgerði í Sandgerði og eins við Kirkjuvogskirkju í Höfnum. Hann bjargaði einnig leifum einnar af spilvindum skipsins og fjölda smærri munu sem hann afhenti við hátíðlega athöfn í samkomuhúsinu í Höfnum að aflokinni sýningu um Jamestown strandið. Við sama tilefni afhenti áhugamannahópur um Jamestown strandið Byggðasafninu að gjöf öll þau söguspjöld og nokkra gripi er á sýningunni voru.
Kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.