Fræðslufundur og opnun sýningar
Fjölmargir Íslendingar kynntust verbúðalífi og verbúðaflakki um og upp úr miðri síðustu öld. Peningalyktin barst úr sjávarplássunum og þangað streymdi unga fólkið, laust og liðugt, í von um skjótan gróða. Sumir sáu í fiskvinnslunni tækifæri til að afla á sumarvertíðinni nægilegs fjár til skólans næsta vetur, en aðrir þraukuðu lengur og unnu jafnt sumarvertíðir sem vetrarvertíðir og færðu sig jafnvel milli plássa, frá Eyjum á Eskifjörð og frá Grindavík á Suðureyri. Allt í senn í von um meiri vinnu, meiri pening og meira fjör.
Á sýningunni er verbúðalífi þessa tíma gerð skil með myndum og texta og með hálftíma langri kvikmynd og jafnlöngum útvarpsþætti sem verða endurtekin á hálftíma fresti á heila og hálfa tímanum.
Benný Sif Ísleifsdóttir, Fríða Björk Ólafsdóttir og Vala Smáradóttir sáu um gerð sýningarinnar.