Björn Ragnarsson - minning

Það var á vordögum sem Björn, eða Bjössi eins og við öll kölluðum hann, kom til starfa á Byggðasafninu. Árið var 2002 og hann átti eftir að vinna hjá safninu í 8 ár. Við vorum að setja upp sýninguna: Bátafloti Gríms Karlssonar, í Duus húsum sem stóð í 18 ár.

Um haustið tók við nýr kafli, að ljúka skráningu munasafnsins. Dagana langa sátum við út í Röst, ég á tölvunni og hann með gripina og einn dag lauk þessu stóra verkefni og við skáluðum með plastmálunum okkar í kaffi. Þessi grundvallar vinna skipti miklu máli í því sem á eftir kom, það var að flytja safnið í heild sinni þrisvar á þeim tíma sem Bjössi starfaði við safnið. Það eru fáir sem skilja hve miklu máli það skiptir að ljúka svona verkefni en vel skráð safn er einn af mikilvægum hornsteinum safnastarfs. Öll sú vinna sem fór í þessa flutninga reyndi mikið á og þá skipti máli að hafa mann eins og Bjössa sem gekk að hverju verkefni með æðruleysi, verklagni og léttri lund.

Bjössi lagði líka gjörva hönd á önnur verkefni, við settum upp margar sýningar í Duus húsunum og kom þar verklagni Bjössa að miklu gagni. Þótt stafslið safnsins teldi aðeins okkur tvö og verkefnin væru stór þá stóð aldrei á okkur að leggja lið við aðra menningarviðburði. Bjössi kom að flestu því sem gert var í Duushúsunum á meðan hann vann hjá safninu og eftir starfslok lagði hann liðsinni sitt við rekstur húsanna og var alltaf aufúsugestur hjá starfsfólkinu í kaffi og spjall allar götur síðan.

Bjössi var mikill dýravinur, hann laðaði til dæmis að sér vegvilltan kött sem sem síðar fékk nafnið Dúsa. Hún fékk heimilisfesti í Duushúsunum og hélt músahjörðinni í skefjum. Margir af gestum húsanna glöddust að hitta fyrir þessa fallegu kisu.

Eftir langa og fjölbreytta starfsævi til sjávar og sveita var Bjössi mikill upplýsingabrunnur um marga af þeim hlutum sem við skráðum í safninu, ekki síst þá sem tengdust sögu sjávarútvegs á Íslandi.

Það var mikil gæfa fyrir bæjarfélagið að fá Bjössa í starfsmannahópinn. Ég vil þakka honum samstarfið og stuðninginn sem hann ætíð sýndi mér í mínu starfi. Ég kveð í dag, góðan dreng, en vináttu okkar ber ég ávallt í hjarta mínu.

Innilegar samúðarkveðjur til aðstandenda hans og vina.

Sigrún Ásta Jónsdóttir, fyrrv. safnstjóri.