Víkingaheimar

Víkingaskipið Íslendingur

Helsta aðdráttarafl Víkingaheima er án efa víkingaskipið Íslendingur sem smíðað var af skipasmiðnum og sjómanninum Gunnari Marel Eggertssyni sem jafnframt sigldi því til New York árið 2000 til að minnast ferðar Leifs Eiríkssonar til Vesturheims þúsund árum fyrr. Á sýningunni er ferðasöguna að finna auk mjög áhugaverðs tölvugerðs fræðsluefnis um eiginleika og smíði víkingaskipa.

Víkingar Norður-Atlantshafsins

Í Víkingaheimum er sýning um siglingar og landnám norrænna manna og þátt þeirra í landafundum Norður-Ameríku. Sýningin var upprunanlega unnin af Smithsonian stofnuninni í Bandaríkjunum í tilefni þúsund ára afmælis landafunda Leifs Eiríkssonar. Hluti hennar var svo settur upp hér í Víkingaheimum í samvinnu við Smithsonian stofnunina.

Landnám á Íslandi

Í Víkingaheimum er sýningin Landnám á Íslandi þar sem sjá má merkar fornleifar af Suðurnesjum og minjar um elstu byggð á Reykjanesi, frá Vogi í Höfnum og Hafurbjarnarstöðum á Miðnesi.

Örlög goðanna

Sýning um norræna goðafræði og goðsögur í Víkingaheimum. Gestir eru leiddir í gegnum fornan hugmyndaheim þar sem goð og goðheimar birtast ljóslifandi á myndrænan og nýstárlegan hátt og myndlist, frásögn og tónlist fléttast saman í eina heild.

Söguslóðir á Íslandi

Kynning á helstu söguslóðum Íslands unnin í samstarfi við Samtök um sögutengda ferðaþjónustu. Rúmlega 30 staðir, söfn, sýningar, minjar, hátíðir, mannvirki og slóðir ákveðinna sagna er kynnt hér.