Úthaf - Ívar Valgarðsson
Ívar Valgarðsson sótti nám í Myndlistar- og handíðaskóla Íslands frá 1971. Þar kynntist hann hugarheimi Harðar Ágústssonar (1922-2005), sem var þá skólastjóri, og myndhöggvarans og kennarans Jóns Gunnars Árnasonar (1931-1989). Þetta var gjöfult tímabil í íslenskri myndlist og tók Ívar snemma á ferlinum þátt í sýningum SÚM hópsins. Hreyfingin hafði ekki yfirlistan stíl en kynnti snemma til sögunnar hugmyndir og aðferðir sem tengjast nýdadaisma, flúxus og annarskonar framúrstefnu.
Síðar, þegar hann var við nám í Hollandi dýpkaði þessi tenging við konseptlistina. Á því tímabili voru tengslin innan listanna í gagngerri endurskoðun. Ívar hafði áhuga á breytingum á fræðilegum áherslum sem fluttust frá abstrakt expressjónisma yfir í hugtakahyggju og minimalisma. Áköf efniskennd og yfirgengilegir tilburðir abstrakt expressjónismans tóku að víkja fyrir vélvæddum ferlum og textalýsingum. Á vissan hátt hafa verk Ívars verið rannsókn á þversögninni hvernig málverkið og konseptlistin geta verið til samtímis. Verk hans búa yfir efniskennd og oft á tíðum málverkalegri nærveru og má líta á þau sem framverði í ríkulegri hefð íslenskrar myndlistar sem eiga sér rætur í málverkinu en rýna í efnisþætti þess og sýningarsamhengið.
Sýningarstjóri Úthafs er Gavin Morrison.
Gavin Morrison er skoskur rithöfundur og sýningarstjóri sem býr í Bandaríkjunum. Hann er að skrifa bók um samband Donald Judd við Ísland fyrir Lars Müller Publishers í Zürich, sem verður gefin út árið 2026. Gavin er einnig að þróa sýningu með Listasafni Geogria í Tbilisi, um arkitektinn Berthold Lubetkin og rithöfundinn og hönnuðinn Ilia Zdanevich.
Gavin hefur gegnt ýmsum stöðum sem sýningarstjóri og forstöðumaður. Hann var forstöðumaður Skaftfells, miðstöð myndlistar á Austurlandi, frá 2018-2020 og einnig var hann fyrsti sýningarstjóri Fort Worth Contemporary Arts. Árið 2017 hlaut Gavin rannsóknarstyrk Lewis Walpole Library, Yale háskóla í Bandaríkjunum og árið 2015 var hann í vinnustofudvöl Brown Foundation Fellows í Maison Dora Maar, Ménerbes, Frakklandi.
Listasafn Reykjanesbæjar mun gefa út bók sem tekur til alls myndlistaferils Ívars Valgarðssonar.
Útgáfan er unnin í samstarfi við Hörð Lárusson, einn af eigendum Kolofon hönnunarstofu, textar eru eftir Gavin Morrison, þýðing Helga Soffía Einarsdóttir og myndvinnsla Vigfús Birgisson.
Bókin kemur út á sýningartímanum.