Heimsmynd - Áki Guðni Gränz

Í gluggasal opnar Heimsmynd, einkasýning Áka Guðna Gränz (1925-2014). Sýningarstjóri er Helga Þórsdóttir, safnstjóri Listasafns Reykjanesbæjar. Myndverk sýningarinnar eru úr safneign Listasafns Reykjanesbæjar, ásamt verkum í eigu fjölskyldu listamannsins. Áki hefði orðið 100 ára á þessu ári og mun sýningin heiðra minningu listamannsins með völdu yfirliti á verkum hans. Áki var afkastamikill listmálari, myndhöggvari og hannaði ýmiskonar merki og fána m.a. bæjarmerki Njarðvíkur og merki Kvenfélags Njarðvíkur, Iðnaðarmannafélags Suðurnesja og fleiri. Áki tók virkan þátt í sveitarstjórnarmálum, kjörinn í hreppsnefnd Njarðvíkur árið 1970, var bæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Njarðvík til 1986 og forseti bæjarstjórnar Njarðvíkur 1982-1986. Hann sat í stjórn Ungmennafélags Njarðvíkur, var stofnfélagi í Lionsklúbbi Njarðvíkur og einna af stofnendum Sjálfstæðisfélags Njarðvíkur. Áki sat í undirbúningsnefnd stofnunar félags Keflavíkurverktaka og var bæði meðstofnandi og í stjórn félags málaraverktaka í Keflavík.   

Heimsmynd, einkasýning Áka Guðna Gränz er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurnesja.