Bókakonfekt
28.11 kl. 20:00-21:30
Viðburðir - forsíða
Bókasafn
Bókakonfekt Bókasafns Reykjanesbæjar
Fimmtudagskvöldið 28. nóvember kl. 20:00 verður hið árlega Bókakonfekt Bókasafns Reykjanesbæjar í Ráðhúsinu, Tjarnargötu 12.
Fram koma: Geir H. Haarde, Margrét S. Höskuldsdóttir og Halldór Armand.
Geir H . Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, les upp úr ævisögu sinni. Í bókinni veitir hann innsýn í baksvið stjórnmálanna en fjallar einnig um einkalíf sitt, þar á meðal dramatíska atburði úr æsku sem hann hefur aldrei rætt opinberlega áður. Geir styðst við margvísleg gögn úr sínu einkasafni sem flest hafa ekki áður komið fyrir almenningssjónir.
Margrét S. Höskuldsdóttir les upp úr nýjustu bók sinni Í djúpinu. Bókin er margslungin og spennandi glæpasaga sem gerist á Vestfjörðum þar sem athafnamaður finnst látinn í heitum potti við heimili sitt í Laugardalnum. Fljótlega beinast spjótin að vinum hans og samstarfsfélögum en rannsóknarlögreglukonan Ragna telur lausnina flóknari en svo. Brátt er Ragna komin á slóðir sem liggja aftur til fortíðar og á heimavist vestur á fjörðum. Hvaða leyndarmál búa í djúpinu?
Halldór Armand les upp úr fimmtu skáldsögu sinni Mikilvægt rusl. Bókin er bráðfyndin og grípandi ástar- og spennusaga. Daginn sem forsætisráðherra Íslands biður Guð að blessa þjóðina finnur öskukallinn Gómur Barðdal afskorið mannsnef í ruslatunnu við glæsihýsi í Þingholtunum. Skömmu síðar er frændi hans, seinheppna skáldið Geir Norðann, ráðinn sem ljóðakennari inn á þetta sama heimili. Hver á þetta nef? Hvernig endaði það í ruslatunnu?
Gestir verða boðnir hjartanlega velkomnir með lifandi tónlistarflutningi Kósýbandsins sem samanstendur af Arnóri, Hjördísi, Hildi og Birnu sem ætla að bjóða upp á alvöru kósý jólastemningu.
Boðið verður upp á kaffi og konfekt.
Aðgangur ókeypis og öll hjartanlega velkomin!
Dagskráin er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurnesja.