Skólabátur Keflvíkinga

 

 

Eitt sinn áttu Keflvíkingar skólabát. Það var vélbáturinn Vísir. Vorið 1953 kemur fram í fundargerð bæjarstjórnar að hún ákvað að veita 40.000 kr. til að leigja þennan bát með áhöfn í því skyni að kenna ungum drengjum, 13–16 ára, að meta það að vera á sjónum. Á milli 200 og 300 manns voru þá á bátum sem gerðir voru út frá Keflavík, en aðeins um 80 af þeim voru Keflvíkingar. Hinir voru aðkomnir. 40.000 kr. var á þessum tíma umtalsverð fjárhæð, þetta var þá nokkurnveginn ein árslaun lögregluþjóns í Keflavík. Því er ekki úr vegi að grafast fyrir um það hvernig stóð á því að Keflvíkingar komu sér upp skólabát.

            

  Í maíhefti Faxa þetta ár ritaði Ragnar Guðleifsson bæjarstjóri grein sem nefndist „Hvers vegna fjarlægjast ungir menn sjóinn? " Hann nefnir að atvinnuhættir Keflvíkinga hafi tekið miklum breytingum á síðastliðnum 20–30 árum. Litla sjávarþorpið, þar sem afkoma flestra vinnufærra manna hafi verið undir því komið, að fiskur aflaðist og seldist fyrir sæmilegt verð, hafi vaxið að fólksfjölda og möguleikar til atvinnu hafa aukizt. Nú sé svo komið, að aðeins minnihluti vinnufærra manna stundi sjóinn á sama hátt og áður var.

              Vetrarvertíðin setji þó ennþá sinn svip á byggðina og líf fólksins. Aflafregnir séu til frásagnar og hafi áhrif hvort vel eða illa aflist ekki aðeins á afkomu þeirra, er sjóinn stundi, heldur einnig marga aðra. Keflvíkingar telji enn bæ sinn bæ sjómanna. Síðan segir hann:

               Þannig lítur þetta út á yfirborðinu og þessu líkt býst ég við að flestir hugsi. En við skulum nú skoða þessi má betur, og þá sjáum við, hver niðurstaðan verður.

              Héðan eru gerðir út frá Keflavík á þessari vertíð yfir 20 vélbátar. Á 21 vélbáti, sem veiða með línu og netjum, eru 244 menn, á sjó og í landi. Þar af eru aðeins 78 búsettir í Keflavík eða 32%, en 166 eru utanbæjarmenn. Af þeim 78 Keflvíkingum er aðeins 41 sjómaður, og það, sem athyglisverðast er, að enginn af þessum Keflvíkingum, er við bátana vinna, er undir 20 ára aldri og líklega hefur enginn bætzt í þennan hóp síðustu 2–3 árin. – Á togaranum mun nú vera um helmingur heimamenn.

              Er þetta ekki umhugsunarvert? – Ýmsar spurnignar vakna:

              Hvað veldur því, að ungir menn, sem alast upp á sjávarbakkanum fjarlægjast svo sjóinn?

              Er ekki hætta á því, að innan fárra ára verði enginn Keflvíkingur á vélbátunum?

              Er ástæða til að fást um slíka hluti, þegar allir hafa næga vinnu aðra?

              Getum við hér nokkru breytt til bóta?

              Fyrstu spurningunni munu margir svara, að flugvöllurinn valdi því, að ungir menn sækja ekki að sjónum. Þar hafi þeir næga vinnu og hátt kaup. Rétt er það, að margir ungir menn vinna á Keflavíkurflugvelli, en þangað fara þeir ekki fyrr en átján ára. Vinna er að sjálfsögðu bæði hæg og erfið og kaupið fer mikið eftir lengd vinnutímans.

              Um sama vandamál var fyrir 2–3 árum rætt á Akranesi, enginn er þar flugvöllurinn, sem truflar, en síðan hefur þetta breytzt eitthvað þannig, að fleiri ungir menn hafa nú komið að bátunum.

              Hinsvegar er það staðreynd, að vinna við vélbátana, bæði á sjó og í landi, er miklu erfiðari – og vinnutími óreglulegri –, en sú vinna í landi, sem nú er mest sótt eftir, – á ég þar við flugvallarvinnuna, og þyrftu því kjör þeirra manna, er sjóinn stunda, að batna til muna frá því sem nú er og vera tryggari. En hér skal ekki farið frekar út í þau mál, þau verður að ræða á öðrum vettvangi.

              En hér eru áreiðanlega fleiri orsakir, sem valda því, að ungir menn sækja ekki að sjónum.

              Þegar þeir menn, sem nú stunda sjóinn voru ungir, voru aðstæður aðrar en nú. Margir þeirra vöndust sjónum ungir. Þeir fengu að fara með feðrum sínum eða nábúum á sjóinn að sumarlagi, að vitja um síldarnet eða með færi í þarann. Þeir fengu líka stundum lánaðan bát og fóru í róður á eigin spýtur með lóð eða færi.

              Þá voru hér líka nokkrir eldri menn, sem stunduðu veiðar á opnum róðrarbátum á vetrarvertíð og veiddu í net og á færi. Með þessum mönnum voru oftast unglingar, sem fengu þar sín fyrstu kynni af vinnu á sjónum. Á meðan vélbátarnir réru úr landi á vorvertíð, frá lokum til Jónsmessu, var þar venja, að 5. maður á bát væri unglingur, sem vildi læra sjó.

              Þetta skiprúm var eftirsótt af unglingum í þá daga og voru þeir öfundarðir, er hrepptu. Þar fengu Keflvíkingar, sem síðar urðu dugandi sjómenn, sinn fyrsta skóla á sjónum.

              Áður en höfnin við Vatnsnes varð til, lágu vélbátarnir við legurfæri á Keflavíkurhöfn og höfðu opna róðrabáta, til þess að fara á milli og skipa  upp aflanum, þegar ekki var hægt að komast að bryggju, þessir bátar voru eftirsóttir af ungum drengjum, og hvenær sem færi gafst voru  þeir notaðir til kappróðra og fiskjar. Nú sést engin slík fleyta og ungum drengjum er flestum algjörlega meinað að kynnast sjónum og lífi sjómannanna. Þar var einnig algengt að drengir innan fermingaraldurs hjálpuðu til við beitningu lóða og að stokka upp og fengu aura fyrir.

              Þannig voru ungir drengir þá í beinum tengslum við líf sjómannanna og kynntust störfum þeirra og lærðu þau. Ekki er þar með sagt, að þeir hafi allir orðið sjómenn, en margir fengu þarna góðan skóla og ánægjulegar æskustundir.

              En er ástæða til að breyta hér nokkru? Ef ungir menn geta fengið aðra vinnu eins vel launaða, er þá nokkuð við því að segja?

              Það kanna að vera, að í framtíðinni skipi iðnaðurinn þann sess í atvinnuháttum okkar Íslendinga, sem fiskveiðarnar nú, en á meðan svo er ekki, þurfum við mjög að halda á ungum og dugmiklum sjómönnum. Það er því mín skoðun, að við þurfum að glæða áhuga ungra manna á sjónum og þeim störfum, sem að fiskveiðum lúta, og vildi því leggja til að ungum drengjum hér í Keflavík yrði gefinn kostur á því nú í vor að dvelja á sjónum í eina eða tvær vikur við fiskveiðar.

              Mætti í þessu augnamiði fá á leigu vélbát, þegar vertíð lýkur, þar sem væru góðir leiðbeinendur. Fengju þar drengirnir tilsögn færra manna í því, sem að sjómennsku lýkur, og ef vel tækist með val kennara, er ég viss um, að slík námskeið yrðu mörgum unglingi til gagns og ánægju og gætu fóstrað margan dugandi sjómann fyrir framtíðina.

             Þannig lýkur grein Ragnars. Í fundargerð bæjarstjórnar í júní þetta ár kemur hins vegar fram að þetta verkefni hafi mistekist. Drengirnir sem áttu að sækja bátinn (stúlkur komu að því er virðist ekki til greina) höfðu engan áhuga á að verða sjómenn og gáfu sig ekki fram. Þannig fór um sjóferð þá, og ferli skólabátsins Vísis lauk þar með.

 Árni Daníel Júlíusson
söguritari