María Baldursdóttir, fegurðardrottning Íslands 1969!

Eftirfarandi viðtal er að finna í maíhefti Faxa á því herrans ári 1969. Keflvíkingar voru stoltir af fegurðardrottningunni sinni. Fleiri máttu vera stoltir, María var ættuð úr Svarfaðardal, nánar tiltekið frá Dalvík, en þar var faðir hennar fæddur og uppalinn. Hann var sonur Júlíusar Jóhanns Björnssonar útgerðarmanns á Dalvík.

 

Fegurðardrottning Íslands 1969

 

Eins og kunnugt er af fréttum var nú í lokaþætti fegurðarsamkeppninnar, sem fram fór þann 30. apríl tuttugu og tveggja ára stúlka frá Keflavík, María Baldursdóttir, kjörin fegurðardrottning Íslands 1969.

            Foreldrar Maríu eru hjónin Margrét Hannesdóttir og Baldur Júlíusson, sem búsett eru á Sunnubraut 17 í Keflavík. Er Baldur vel þekktur þar og víða fyrir góðan harmónikuleik hér áður fyrr, sem þá aflaði honum mikilla og almennra vinsælda. – Geta má þess einnig, að eitt af systkinum Maríu er hinn kunni hljómlistarmaður, Þórir Baldursson. Þar þarf því engan að undra, þótt María hafi yndi af söng og sé músikkölsk í bezta lagi, enda hefur hún sungið frá blautu barnsbeini, ef svo má til orða taka.

            Nú á dögunum náði ég tali af Maríu í tilefni þessa merkisatburðar í lifi hennar og lagði fyrir hana nokkrar spurningar:

–        Hvaða menntun hefur þú hlotið?

–        Ég lauk miðskólaprófi frá Gagnfræðaskóla Keflavíkur. ­– Síðan lærði ég hárgreiðslu

og lauk iðnskólaprófi í sambandi við það. Eftir það vann ég um tíma við þetta starf, þar til ég öðlaðizt meistararéttindi og setti upp mína eigin hárgreiðslustofu, sem ég nú starfræki hér í Keflavík.

–        Hefur þú stundað söngnám?

–        Nei, en ég lærði að dansa hjá Hermanni Ragnars. En úr því að þú spyrð svona,

Hallgrímur, þá minnir mig að ég hafi einmitt byrjað söngferilinn minn inni í skólastofunni hjá þér. Ég átti að syngja einsöng á bekkjarskemmtun okkar, svokölluðum „Litlu jólum“ veturinn sem ég var í bekk hjá þér, en ég mun hafa verið svo feimin, að allt ætlaði að lenda í handaskolum og ég átti í erfiðleikum með að muna textann. Síðar söng ég með skólahljómsveitum og muna kannske einhverjir eftir auglýsingum sem þessari: „Skuggar, Kalli og Maja skemmta“.

-          Og núna síðast hefur þú sungið með hljómsveitinni „Heiðursmenn“, – ætlarðu að

halda því áfram?

-          Nei, ég hætti því a.m.k. í bili, hvað sem síðar verður. Ég hefi líka nemanda á

hárgreiðslustofunni og þarf að sinna störfum þar.

–        Hvernig varð þér innanbrjósts, er þú heyrðir um úrslit fegurðarsamkeppninnar?

–        Ég varð náttúrulega mjög undrandi, hafði alls ekki búizt við þessu, en auðvitað

varð ég fjarska glöð.

–        Hvað er nú framundan?

–        Þann 8. maí fer ég utan til Evrópukeppni sem fram fer í Marokkó. Mér er enn

ókunnugt um aðrar keppnir.

-          Nú má vænta þess, María, að þér verði boðnir gull og grænir skógar þar ytra, –

fáir ýmiss konar freistandi gylliboð.

-          Það getur svo sem verið, en ég er staðráðin í því að koma heim aftur, því að á

Íslandi ætla ég mér að vera, þar mun ég alltaf kunna bezt við mig. Hér á ég líka unnusta og son, svo þú sérð að það er margt sem styður að því að ég ílendist ekki ytra.

-          Mér þykir vænt um að heyra þetta, María, og mun þá ljúka þessu spjalli okkar

með innilegum hamingjuóskum til þín og þinna. Megi gæfa og gengi vera förunautar þínir um alla framtíð.

           

            Hallgr. Th. Björnsson

 

Á tónlistarvefnum Glatkistan birtist árið 2019 grein um tónlistarferil Maríu, sem er langur og merkilegur. Þessi grein fer hér á eftir, nokkuð stytt.

 

„Söngkonan María Baldursdóttir var töluvert áberandi í íslensku tónlistarlífi á áttunda áratug síðustu aldar en einkum þó á heimavelli á Suðurnesjunum. Hún hefur sent frá sér þrjár sólóplötur en starfað einnig með vinsælum hljómsveitum.

María (f. 1947) er Keflvíkingur og uppalin þar í bæ, hún lærði sem barn á píanó en var snemma farin að syngja með hljómsveitum í Keflavík sem síðar varð höfuðvígi bítla og blómabarna. Hún var þrettán eða fjórtán ára gömul þegar hún hóf að syngja með ónefndri skólahljómsveit í Keflavík sem starfaði í nokkur ár og fékk líklega síðar heitið Skuggar en síðar komu til sögunnar Bluebirds, The Swingers og Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar en með einhverjum þeirra sveita söng hún á skemmtunum hermanna á Keflavíkurflugvelli. Þá þurfti hún að fá undanþágu vegna ungs aldurs síns. María söng einnig lítillega með hljómsveitum eins og Nova tríóinu, Hljómsveit Karls Lilliendahl og Ó.B. kvartett en á þessum tíma voru söngvarar yfirleitt lausráðnir með hljómsveitum og stöldruðu iðulega stutt við.

...

María sinnti næstu misserin mest skyldum sínum sem fegurðardrottning og var lítið viðloðandi tónlist næstu árin, árið 1972 hóf hún þó að syngja með Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar í Súlnasal Hótel Sögu og starfaði með þeirri sveit í um tvö ár. Um þetta leyti rak hún orðið hársnyrtistofu, stóð í byggingaframkvæmdum með Rúnari unnusta sínum í Keflavík þar sem þau bjuggu, og starfaði einnig sem flugfreyja um tíma. Árið 1974 gaf hún sér þó tíma til að fara til Þýskalands þar sem Þórir bróðir hennar starfaði þá, og tók upp plötuna Vökudraumar sem kom síðan út árið 1975 á vegum Hljóma-útgáfunnar sem Rúnar og Gunnar Þórðarson ráku þá um tíma. Platan fékk þokkalega dóma í Þjóðviljanum og náðu tvö laga hennar ágætum vinsældum, það voru lögin Allir eru einhvers apaspil og Eldhúsverkin en síðarnefnda lagið heyrist reglulega ennþá leikið á útvarpsstöðvum landsins. Öll voru lögin erlend við íslenska texta Þorsteins Eggertssonar sem þarna var á hátindi frægðar sinnar sem textahöfundur. ...

Þetta sama ár, 1975 komu út nokkur lög á öðrum plötum með Maríu, safnplötunum Eitthvað sætt og Tónlistarsprengingu og jólaplötunni Gleðileg jól, María kom einnig við sögu á fyrstu sólóplötu Gylfa Ægissonar sama ár sem og á annarri plötu hans sem kom út árið eftir en hún var fyrsta platan sem nýstofnað fyrirtæki Maríu og Rúnars Júl., Geimsteinn, sendi frá sér. Geimsteinn varð síðan öflugt útgáfufyrirtæki sem gefið hefur út hundruð platna, auk þess að reka hljóðver frá árinu 1982.

Þau María og Rúnar starfræktu einnig hljómsveit undir Geimsteins-nafninu frá árinu 1976 en sú sveit starfaði í um áratug og sendi frá sér fjórar breiðskífur, María söng með þeirri sveit og kom einnig við sögu á fjórum plötum sem Áhöfnin á Halastjörnunni sendi frá sér á árunum 1980-83 en þau Rúnar starfræktu þá sveit einnig.

...

María hefur jafnframt komið við sögu á fjölda platna í gegnum tíðina og þá einkum tengdum útgáfufyrirtækinu Geimsteini, þar má nefna plötur með Rúnari, Ruth Reginalds, Magnúsi og Þorgeiri, Gylfa Ægissyni og hljómsveitinni Deep Jimi & the Zep Creams en síðast talda sveitin inniheldur Júlíus Guðmundsson son þeirra Maríu og Rúnars, hinn sonur þeirra – Baldur Guðmundsson hefur einnig mikið verið viðloðandi tónlist.

Árið 1992 kom út plata sem hafði að geyma lög með Maríu frá árunum 1974 til 86, m.a. af Vökudraumum en einnig af safnplötum, þessi plata bar titilinn Ef og innihélt tuttugu lög. Þá kom út önnur safnplata með henni árið 2007, sú kom út í tilefni af sextíu ára afmæli söngkonunnar og hét Að eiga sér draum. Fjölmörg lög Maríu hafa einnig komið út á safnplötum í gegnum tíðina og má þar nefna plötur eins og Svona var það 1975, 16 ára, Sveitaperlur, Stjörnuplata 3 og 4 og Bítlabærinn Keflavík.

María hefur að mestu dregið sig í hlé frá söngnum síðustu árin en hún varð ekkja árið 2008.

Árni Daníel Júlíusson
söguritari