Leynimelur 13 sýndur í Keflavík – Helgi Skúlason kemur fram á sjónarsviðið

 


   

     Helgi Skúlason og Guðbjörg Þórhallsdóttir                    Gunnar Eyjólfsson                                          Leikarar í Leynimel 13 árið 1949

 

Tveir af helstu leikurum landsins á síðari hluta 20. aldar voru þeir Helgi Skúlason og Gunnar Eyjólfsson. Þeir voru báðir úr Keflavík og komu báðir fram á leiksviði í fyrsta sinn í bænum. Þegar Helgi Skúlason kom fram voru nokkur ár síðan Gunnar Eyjólfsson hafði fyrst reynt sig á leiksviði. Þetta var snemma árs 1949. Þá setti góðtemplarastúkan Vík leikritið Leynimel 13 á svið.

Leynimelur 13 er farsi, sem saminn var og settur á svið í fyrsta sinn árið 1943. Höfundar voru þeir Haraldur Á. Sigurðsson, Emil Thoroddsen og Indriði Waage, allir reyndir leikhúsmenn í Reykjavík. Leikritið fjallar um klæðskerann K.K. Madsen, sem býr í mjög snytrilegri íbúð ásamt með konu sinni. Í Morgunblaðinu 1994 segir frá leikritinu, en það var þá sett upp í Borgarleikhúsinu. Þar er sagt að hjá K.K. Madsen sitji „sérvaldir munir fallega á fyrirframákveðnum stöðum og ekki rykagni er ofaukið. En fyrr en varir hefur stofan tekið á sig breytta mynd. Innrásarlið húsnæðisleysingja hefur sest að á heimilinu og gert eins konar almenning úr dagstofu ungu hjónanna. Húsbóndanum er af skiljanlegum ástæðum brugðið og ekki batnar ástandið þegar tengdamamma er skyndilega komin fram á sviðið.“

              Í uppfærslu stúkunnar Vík lék Helgi Skúlason burðarhlutverkið, K.K. Madsen. Um frammistöðu hans segir í Faxa:
„Helgi Skúlason leikur hinn þrautpínda húseiganda, Kristófer K. Madsen og með tilliti til æsku Helga má segja, að hann leysi hlutverk sitt af frábærri snilld. Þetta er mjög vandasamt hlutverk, stórt og viðburðaríkt, en Helga fatast hvergi leikur. Hann á alltaf nógan skilning til þess að mæta hinum margháttuðu erfiðleikum þannig, að geta verið sannur og eðlilegur.“

Þá segir Faxi:

„Það eru tiltölulega fá ár síðan ungur piltur á Helga aldri birtist hér fyrst á leiksviði í Keflavík, en það var Gunnar Eyjólfsson. Öllum þótti honum takast vel. Nú er Gunnar orðinn þekktur leikari og sómi síns æskuhéraðs. Þetta þykir nú kannske útúrdúr, en þó tel ég hann hliðstæðan kjarna málsins, því enn finnst mér að hér sé á ferðinni gott leikaraefni, þar sem Helgi Skúlason er. Og hvað sem hann kann að taka fyrir í framtíðinni, þá hefir hann með þessum leik sínum nú, sýnt mikla og ótvíræða listamannhæfileika.“ Þar reyndist Faxi sannspár.

Svo vill til að bæði Helgi og Gunnar eignuðust börn sem nú sitja eða hafa setið á Alþingi Íslendinga. Það eru þau Helga Vala og Skúli Helgabörn, bæði Samfylkingarfólk og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, áður í Sjálfstæðisflokki en nú í Viðreisn.

En aftur að Leynimel 13. Í Faxa segir að um langt skeið hafi verið áhugi á leiklist í Keflavík. Ýmis félög hafi sett leikrit á svið í tilefni árshátíða sinna og af þvílíku tilefni, það hafi oftast verið stuttir gamanþættir, en Ungmennfélagið hafi skorið sig úr með leikstarfi sínu. Það hafi oft sett góð leikrit á svið og vandað til verka. Megi „þar til nefna Ævintýri á gönguför og Skugga Svein auk margra annarra góðra leikrita, sem hér verða ekki talin. Hefir frammistaða leikenda oft verið með ágætum og félagið hlotið fyrir sýningarnar verðskuldað lof. Nokkuð langt hlé hefir orðið á starfsemi þessari nú að undanförnu, svo langt, að nú má það teljast stór viðburður á leiklistasviðinu hér, er stúkan Vík leggur út í það stórræði að setja Leynmel 13 á svið, en það er spennandi og sprenghlægilegur gamanleikur í 3 þáttum sem veitir leikhúsgestum 3ja tíma ósvikna og hressilega ánægjustund, sem margborgar allan tilkostnað.

Leikritið er samið um ný húsaleigulög, sem ganga í gildi og ræna húseigenda, ungan og nýgiftan klæðskerameistara, umráðaréttinum yfir húseign sinni, sem húsaleigunefnd fyllir af allskonar landshornalýð, er yfirgengur húseigenda og gengur næst viti hans.

Leikstjórn annast ungfrú Hildur Kalman leikkona með ágætum. Tel ég það mikinn ávinning keflvísku leiklistarstarfi að hafa notið leiðsagnar þessarar duglegu leikkonu. Tvær þekktar leikkonur, þær frúrnar Emilía Jónasdóttir og Nína Sveinsdóttir leika sem gestir tvö stór hlutverk af frábærri snilld, svo varla má á milli sjá hvor gerir betur. Leikur Emilía Jakobínu tengdamömmu húseigandans en Nína leikur barnsmóður skóarans, 11 barna móðir, sem tekur öllu mótdrægu með söng og gamansemi og gefur guði dýrðina. Er það trúa mín, að Keflvísku leikararnir, sem flestir eru ungir í listinni, hafi ómetanlegt gagn af samstarfinu með þessum ágætu leikkonum, – og hafi þær allar þökk fyrir komuna hingað og afskipti sín af leikstarfinu hér.“

Fram kemur að meginhvatamaður að sýningu stúkunnar sé Jón Tómasson stórtemplar. Hann sat einnig í leiknefnd stúkunnar ásamt með Gauju Magnúsdóttur, Sesselju Kristinsdóttir, Helga Skúlasyni og Ásvaldi Andréssyni. Bæði Jón, Gauja og Helgi tóku auk þess þátt í leiksýningunni. Um frammistöðu annarra leikara en Helga segir: „Ungfrú Gauja Magnúsdóttir í hlutverki Dísu vinnukonu Madsenhjónanna er eðlileg og oft ljómandi góð, einkum finnst mér henni takast vel í viðskipunum við tengdamömmu, t.d. þegar hún þykist heyra og sjá gömlu konuna afturgengna. Þar tekst henni að skapa mjög listrænt og eðlilegt augnablik, sem hefði þó notið sín betur í minni birtu.

Jón Tómasson leikur Togga, hið mikla og síþyrsta Traðarkotsskáld af miklum dugnaði. Eru víða mikil tilþrif í leik Jóns og góður skilningur á hlutverki, einkum þó á stemningastundum skáldsins, en timbur-mennirnir virðast eiga fremur illa við Jón og er honum það sízt láandi.

Ungfrú Sesselja Kristinsdóttir leikur frú Magnhildi Skúladóttur (Möggu miðil) ágætlega. Hefir Sesselja oft sést hér á sviði áður og tel ég hana vera í stöðugri framför og þetta vera hennar bezta hlutverk. Dóttur Möggu miðils, Ósk að nafni, leikur ungfrú Dísa Guðmundsdóttir. Hlutverk hennar, sem er fremur lítið, er prýðilega af hendi leyst og gefur bendingar um góða hæfileika.

Kona Madsens klæðskerameistar, Dóra Madsen, er leikin af ungfrú Guðbjörgu Þórhallsdóttur, sem fer yfirleitt prýðilega með hlutverk sitt, en mætti þó vera ögn alvörugefnari yfir ástandinu á heimili sínu eftir heimkomuna.

Haukur Þórðarson leikur stóreignamanninn, hr. Hekkelfeldt, tengdaföður Möggu miðils. Er gerfi hans afburðagott og leikurinn á pörtum prýðisgóður, þó fannst mér kenna oflítilla svipbrigða, t.d. þegar hann uppgötvar að sonardóttir hans, sem hann telur sér glataða, er í húsinu hjá honum. Annar verður þetta að teljast góð byrjun og ég hlakka til að sjá Hauk seinna í stærra hlutverki.

Glas læknir, leikinn af Ólafi Eggertssyni, er ánægjulegur náungi, ráðhollur og spaugsamur, enda heimilislæknir og hollvinur húsbóndans og frændi. Túlkun Ólafs á lækninum er góð og raunsæ, sumum finnst kannske um of sveitalegan, en þannig kann ég einmitt vel við þennan góða heimilisvin fjölskyldunnar.

Þá er heildsalinnn Márus Sigurjónsson, leikinn af Jóni Kristinssyni. Fremur lítið hlutverk en alveg ótrúlega erfitt. Í hvert skipti, sem þessi ungi og ástfangni maður birtist á sviðinu mæta honum nýjar og nýjar hrellingar sem stafa þó af eintómum misskilningi, enda gefur hlutverkið litla eða enga möguleika.

Guðni Magnússon leikur þarna lögregluþjón, Stefán Jónsson að nafni. Kemur lögregluþjónninn aðeins einu sinni inn á sviðið og segir örfá orð.

Börn skóarans, Bobbi, leikinn af Eggert Ólafssyni. Gonni, leikinn af Guðbrandi Sörenssyni. Siggi, leikinn af Sigurði Þ. Eyjólfssyni og Tobba, leikin af Ernu Sigurbergsdóttur. Eru hlutverk barnanna lítil, en vel af hendi leyst.

Þá kem ég að hlutverki í leiknum sem talizt getur meistarverk, er það Sveinn Jón Jónsson skósmiður, leikinn af Þórði Jónssyni. Ég þekki lítið til þessa unga manns, hvort hann er vanur leikari eða ekki, en hann sýnir í þessum leik framúrskarandi góða hæfileika, svo góða, að áhorfandanum finnast hlutirnir vera raunverulega að gerast þar sem skósmiðurinn er. Það er næstum ógleymanlegt, þegar hann fyrst kemur inn á sviðið með allt hafurtaskið, eða þá stundina, þegar hann kemst að raun um að Gudda hafi unnið í happdrættinu. Annars er óþarft að benda á einstök atriði. Allur leikur þessa unga manns er ein órofin sigurför, enda er gerfi hans í góðu samræmi við leikinn.

Leikflokkurinn annaðist uppsetningu sviðs og ljósa en Helgi S. Jónsson sá um gerfi leikenda. „Suffler“ var Eyjólfur Guðmundsson.“

 

Árni Daníel Júlíusson,
söguritari