Clam strandar undir Valahnúk

Clam strandar undir Valahnúk

 

Ýmsir kannast við söguna af strandi breska olíuskipsins Clam. Það var eitt mesta sjóslys 20. aldar, 27 manns fórust þegar skipið strandaði við Reykjanes 28. febrúar árið 1950. Alls voru 50 manns á skipinu sem var um 10.000 tonn að stærð. Skipið var í eigu Anglesaxon Petroleum Company og var smíðað í Hollandi árið 1920, gert út frá London. Það mun hafa verið gufuskip.

              Skipið kom til landsins þann 20. febrúar með olíufarm til Olíuverslunar Íslands og Shell h.f. Farmurinn kom frá Venesúela. Í áhöfninni voru 14 Bretar, þar á meðal allir yfirmenn, og 36 Kínverjar. Kína var þá tiltölulega nýlega komið undir stjórn kommúnistaflokks landsins, sem náði þar öllum völdum í september árið áður. Kínverskir sjómenn voru greinilega enn við störf víða um höf.

              Skipið lagði við olíustöð sem þá var nýbyggð í Laugarnesi. Daginn eftir brast á vonskuveður, og skipið rak á land við Köllunarklett, skammt frá olíustöðinni. Skipið skemmdist lítið, en þó nægilega mikið til þess að dráttarbátur var sendur eftir skipinu frá Hull til að draga það til Cardiff, þar sem viðgerð átti að fara fram. Stýrið hafði eyðilagst og lagst upp að skrúfu skipsins, svo hún varð óvirk. Lokið var við að afferma skipið og mánudaginn 27. febrúar var lagt af stað frá Reykjavík. Við grípum nú niður í frásögn Jóns Tómassonar í febrúar-mars hefti Faxa frá 1950:

              „Vindur var fremur hægur og sjólítið fyrst í stað. E. Bond, skiptstjóri á „Englishman“, segir, að á níunda tímanum um kvöldið hafi þeir farið framhjá Reykjanesi. – Þegar komið var í suðurstreng Reykjanesrastar hefir sjór farið að ýfast og vindur vaxið nokkuð. Hlutverk Englishmans þyngdist því um mun og næstu klukkutíma var aðeins haldið í horfinu. Fátt bar til tíðinda þar til laust fyrir kl. 3 á aðfaranótt þriðjudags, er dráttartaugin slitnaði og Clam rak hjálparlaust fyrir sjó og vindi. Fljótt var þó gerð bót á því og ankeri látið falla. Um kl. 6 slitnaði ankerskeðjan og nú byrjuðu hörmungarnar fyrir alvöru. Neyðarkall var sent til Slysavarnafélags Íslands, sem hafði svo samband við Slysavarnadeildina Þorbjörn í Grindavík, vitavörðinn á Reykjanesi og fleiri aðila.

Sigurjón Ólafsson, vitavörður, varð strax skiptins var og hélt á strandstað með aðstoðarmanni sínum og veittu þeir fyrstu hjálp mönnunum, sem lentu í sjónum og sem holskeflurnar hentu upp í klettótta ströndina.

              Í Grindavík varð uppi fótur og fit. Slysavarnadeildin Þorbjörn er gamalt og traust félag, vel búið tækjum og vönum mönnum. Það hefur 12 manna skipulagða björgunarsveit undir forystu Tómasar Þorvaldssonar, og er þar ákveðinn maður að hverju verki, svo að ekkert fari í handvömm. Árni G. Magnússon er skytta sveitarinnar. Sigurður Þorleifsson, stöðvarstjóri, er formaður félagsins en fyrrgreindir menn meðstjórnendur. Félagar þessi stefndu nú saman liði sínu og undirbjuggu björgunarleiðangur af miklum flýti. Kl. 7, hálftíma eftir að beiðnin barst til þerra voru þeir lagðir á stað með allan farangur og allmargt manna auk björgunarsveitarinnar, en síðar kom fleira aðstoðarfólk, konur og karlar, með vistir og fatnað.

              Þegar björgunarliðið kom á vettvan, beið þeirra sú sorglega staðreynd, að meira en helmingur skipshafnarinnar hafði lotið skapadómi feigðarinnar, og þrír lágu í fjörunni með lífsmarki en illa útleiknir – þeir sem Reykjanesbúum hafði tekist að bjarga. Nokkur lík sáust fjóta í brimgarðinum. Undirbúningur var strax hafinn að björgun hina, sem enn héldu sig um borð í Clam.

              Fyrst hafði skipið tekið niðri 50-60 m. frá lndi, en svo færst landi smátt og smátt  með nýjum og stærri ólögum sem yfir það gengu, þar til að þar var um 30 m. frá landi, en þar var það, þegar Þorbirningar komu að því.

              Clam lenti upp undir sléttu lágu bjargbelti, (ca. 25-30 m.), sem liggur mitt á milli Skarfaseturs og Valahnúks. Björgunaraðstæður voru því miklu fremur góðar. Að vísu var ekki auðvelt að skjóta línu niður í skipið svo að skipshöfnin næði henni auðveldlega, enda fór svo að tvær fyrstu línurnar náðust ekki, en þriðja skotið lenti í loftnetinu aftan við brúna, og tókst að draga línuna þannig til, að hún náðist af brúarvængnum. Greiðlega gekk að koma fyrir björgunalínum og brátt kom fyrsti maðurinn á land í stólnum, en þá er stórum áfanga náð – lokatakmarkið var heldur ekki langt undan, björgunarstóllinn flutti skipverjana hvern af öðrum í land og síðastur kom skipstjórinn, L.E. Clayton, eins og skipstjóra ber að gera. – Nú hefur verið sagt frá björgun tuttugu og tveggja manna, en ævintýralegust var björgun þess tuttugasta og þriðja. Hann fór í annan bátinn, en þegar aldan reið yfir bátinn, fyllti og alla, sem í honum voru, tók út. Maður þessi greip þá til sunds og tókst að ná landi í klettaskúta undir berginu, og sást til hans þar, en ekki tókst að hjálpa honum með öðru móti en því að síga niður til hans. Björn Þórðarson, skipstjóri á m/b Grindvíking, tók að sér þetta áhættusama verk. Hann seig niður, tók manninn á herðar sér og voru þeir svo dregnir upp af björgunarliðinu.

              Það þarf karlmennsku og kjark til að fara slíkar ferðir.          

              Heimili vitavarðahjónanna varð á skammri stundu að hjálparstöð. Skipbrotsmennirnir tuttugu og þrír voru fluttir þangað og þeim veitt sú aðhlynning sem kostur var á. Héraðslæknirinn og fleiri læknar voru mættir, en að fráteknum þeim, sem lentu í sjónum, voru menn heildir á húfi og eftir atvikum hressir. Upp úr hádegi var farið með skipbrotsmennina til Grindavíkur og þaðan til Reykjavíkur, alla nema tvo, sem farið var með á sjúkrahús Keflavíkurflugvallar, – en þaðan voru sendir sjúkravagnar, fólksflutningabílar og ýmis aðstoð veitt.

              Skipbrotsmennirnir dáðu mjög björgunina, móttökurnar á vitavarðarheimilinu og allt sem fyrir þá var gert.

              Menn hafa verið að velta því fyrir sér, hvað þeir hafi ætlast fyrir, sem fóru í bátana, beint í opinn dauðann.

              Skipstjórinn kveðst hafa gefið skipun um, að bakborðsbátum skyldi komið í sjóinn, en þeir voru á hléborða, og virðist hann því hafa verið þeirrar skoðunar, að það kynni að verða líklegust leið til undankomu og þá jafnvel helst til lands. Aldrei gaf hann þó skipun um að yfirgefa skipið á þann hátt.

              Það virðist augljóst, að ef gripið hefði verið til þess í tíma þá hefði mátt bjargast í skipsbátunum yfir í dráttarbátinn, því að talið var að vindur hafi ekki verið yfir 5 stig og sjór ekki ákaflega útfinn, og dráttarbátur á næstu grösum með olíugjöf til að lægja sjói og stöðugt við björgunartilraunir. En hvort áhafnir bátanna hafi skorið á tengsli við Clam eða taugarnar slitnað og hvort ferðinni var heitið til dráttarbátsins eða lands, er víst erfitt að leysa úr. Margt fleira má ræða um og deila í sambandi við þetta mikla slys – en þar sem feigð er á ferð, verða forlög naumast séð.

              Björgunarsveitin Þorbjörn hefir með þessari björgun stóraukið tölu þeirra mannslífa, sem þeir hafa komið heilum úr háska. Engin björgunarsveit á landinu hefir til þessa bjargað jafn mörgum mönnum úr sjávarháska og mun hlýhug og þakklæti vera beint til þeirra víða úr heiminum.“

              Þess má geta að til er kvikmynd af skipinu á strandstað. Myndina má sjá á youtube, á slóðinni https://www.youtube.com/watch?v=Zz28taWAzCk.

              Strandið varð síðar söguefni Hannesar Sigfússonar í skáldsögu. Hannes var þá í Reykjanesvita. Í sögunni er ýmsu breytt og hnikað til, og meðal annars er skipstjórinn gerður að illmenni, sem hrekur skipverja út í bátana og þeir farast. Sagan mun öðrum þræði hafa verið hugsuð sem allegóría um þau áhrif sem slæmir forystumenn geta haft.

 Árni Daníel Júlíusson
söguritari

Myndirnar  eru úr safni JónsTómassonar