Þór

Þór

Líkan af varðskipinu  Þór  smíðað af Grími Karlssyni.

Þór var smíðaður í Englandi árið 1899 úr stáli. 205 brl. 325 ha. 3ja þjöppu gufuvél. Eigandi var Björgunarfélag Vestmannaeyja, frá 26. mars 1920. Skipið strandaði í  Húnaflóa 21. desember 1929 og eyðilagðist, þá var skipið í eigu Ríkissjóðs Íslands sem hafði átt skipið í nokkur ár. Allir um borð í skipinu björguðust, 17 manna áhöfn og 1 farþegi. Þeim var bjargað úr landi og um borð í togarann Hannes ráðherra.  

Heimild: Íslensk skip eftir Jón Björnsson

 
Þór,  fyrsta íslenska varðskipið, var smíðað í North Shields í Englandi árið 1899. 205 brt. Björgunarskip, varðskip sem var smíðað fyrir Islands Handels og Fiskeri Kompagni á Patreksfirði, sem notaði það til kolaveiða. Danska ríkisstórnin keypti Þór af I.H.F.K. 1902 og hafði hann til fiski- og hafnarannsókna í Norðursjó og Norðurhöfum. Björgunarfélag Vestmannaeyja keypti skipið 1919 og kom það til Vestmannaeyja í fyrsta sinn 20. mars 1920. Þór annaðist gæslu og aðstoð við fiskibátaflota Vestmannaeyinga, einkum á vetrarvertíðum. Frá því árinu 1923 leigði Ríkisstjórn Íslands skipið til landhelgisgæslu þann tíma ársins, sem það var ekki við bátagæslu. Ríkisstjórnin keypti Þór 1926, og var hann áfram við báta- og landhelgisgæslu á svipaðan hátt og áður. Þór var fyrsta varðskip Íslendinga. Fallbyssa var sett á Þór 1924 eða 1925, og var hann fyrsta vopnaða skip landsins. Síðan hafa öll varðskip ríkisins verið búin fallbyssum. Auk áður nefndra starfa var Þór notaður til fiskirannsókna á tímabili. Þór strandaði á Sölvabakkafjörum í Húnaflóa 21. desember 1929. Mannbjörg.

 Skipstjórar: Jóhann P. Jónsson 1920 – 1926, Friðrik V. Ólafsson 1926 – 1928, Eiríkur Kristófersson 1928 – 1929.

Þegar smellt er á myndirnar hér fyrir neðan birtast stærri myndir.