Stígandi ÓF 25

Stígandi ÓF 25

Líkan af bátnum  Stígandi ÓF 25  smíðað af Grími Karlssyni.

Stígandi ÓF 25 var smíðaður í Þýskalandi árið 1959 úr stáli. 249 brl. 800 ha. MWM díesel vél. Skipið hét Skagfirðingur SK 1. Eigandi var Skagfirðingur h/f,  Sauðárkróki, frá 2. des. 1959. 27. ág. 1965 var skráður eigandi Ríkissjóður Íslands, Reykjavík. Skipið var selt 12. jan. 1967 Stíganda s/f, Ólafsfirði, skipið hét Stígandi ÓF 25. Það sökk með síldarfarm djúpt norðaustur af landinu 28. ág 1967. Áhöfnin, 12 menn, bjargaðist í gúmmíbjörgunarbáta skipsins og síðan um borð í Snæfugl frá Reyðarfirði eftir 5 sólahringa. 

 Heimild: Íslensk skip eftir Jón Björnsson. Iðunn 1990.

Þegar smellt er á myndirnar hér fyrir neðan birtast stærri myndir.

 

 Það haustar að.

Það haustaði skyndilega að í hugum landsmanna síðustu dagana í ágústmánuði, þegar fregnir bárust um, að 12 íslenskra sjómanna væri saknað ásamt skipi þeirra, m.s. Stíganda frá Ólafsfirði. Þjóðin fylgdist það vel með sérhverju  atriði um björgun og heimkomu, að hér er þar litlu við að bæta. Hinsvegar má með sanni segja að viðbrögð starfsbræðra hinna nauðstöddu, sköpuðu þá fyrirmynd, sem einstæð má teljast.

Það er enginn barnaleikur að „kemba“ hið viðáttumikla Dumbshaf, og enda þótt að einhverjir líti þannig á atvikin, að um tilviljun hafi verið að ræða, að þeir fundust, þá má engum blandast hugur um, að hver og einn einasti einstaklingur í leitarhópi íslenskra skipa, sem voru auðvitað flest, um eitt hundrað talsins, ásamt norskum og rússneskum starfsbræðrum, að ógleymdum þeim, er leituðu úr lofti, efaðist um að þeir mundu finnast, væru þeir ofansjávar. Hitt var auðvitað tilviljun, - hver mundi finna þá. - Það var sú eina tilviljun, sem hlaut að ske. Slysavarnarfélagið, með sínum áhrifamætti, sem spannar einnig um þessi svið, sem önnur, átti ekki síst frumkvæðið að því, að leitin var hafin, og skipulögð. Utan við flest formsatriði í björguninni og að menn björguðust, er stór hlutur eftir til athugunar:

Mundi ég fyrst og fremst vekja athygli á þeirri staðreynd að þegar slysið var skeð og áhöfnin var komin í sína þunnu skel, gúmmíbjörgunarbátana, tók við sérstök stjórn þ.e. skipstjórinn, Karl Sigurbergsson. – Þarna var annað umhverfi. Það er í sjálfu sér ekki beint verkefni þessarar greinar að rekja til hlítar þá hetjusögu, sem þar spannst. Eitt er þó víst að frá fyrstu stundu var einbeittur maður við stjórn. Maður, sem skildi sitt hlutverk og vissi að þar var um líf og dauða að tefla. Úthald Stígandamanna í fjóra sólarhringa og sautján tíma, - eða um 114 klukkustundir, þar til þeim var bjargað, er saga, þar sem um slíkt eindæmi var að ræða, sem ekkert fordæmi á sér stað á svo norðlægum slóðum. Það hefði í mörgum öðrum tilfellum þótt ástæða til að læknar og þeirra lið rannsökuðu skipbrotsmenn og könnuðu til hlítar viðbrögð þeirra, sem háðu lífsbaráttuna þessa 114 tíma. Að mínum dómi hefði ekki verið úrhættis að athuga líkamlegt, - þó við ekki segjum, andlegt ástand þeirra manna, sem innilokaðir voru í kulda og vosbúð dægrum saman. Þarna hafa læknavísindin sleppt gullnu tækifæri.

Okkur dugar skammt að koma fram í sjónvarpi með okkar speki, eins hæpið í hljóðvarpi. Þeim aðilum, sem breiða úr sjálfum sér í vafasömu hlutfalli við verðleikana, værin hollast að hafa í huga, að þeir hefðu hóstalaust best af því að sitja í þunnum gúmmíbáti um nokkurra dægra skeið norður í Dumbshafi – og bjargast.

 Tólf Síldveiðisjómenn heimtir úr helju.

Áhöfn Stíganda sem hvarf á miðvikudagvar bjargað í gærkvöldi og er á leið til lands með Snæfugli. Þau gleðitíðindi bárust í gærkveldi að síldarleitarskipið Snæfugl hefði bjargað allri áhöfninni, 12 mönnum, af síldveiðiskipinu Stíganda frá Ólafsfirði. Að því er fregnir herma, fannst björgunarbáturinn kl. 21.32 í gærkveldi. Báturinn fannst á svipuðum slóðum og síðast spurðist til Stíganda. Skipstjórí á Stíganda er Karl Sigurbergsson úr Keflavík, en auk hans var á skipinu 18 ára gamall sonur hans, Bjarni. Flestir eru skipsmenn frá Ólafsfirði og ríkti mikil gleði þar í bæ er fréttin um björgunina barst þangað. Skipstjóri á Snæfugli er Bóas Jónsson frá Reyðarfirði. Bóas var í talstöðinni að því spurður, hvort hann vissi nokkuð nánar um aðdraganda slyssins. Hann svaraði: „Ég hef ekkert spurt mennina ennþá og mun ekki gert strax."

Gífurlega viðamikil leit fór fram í allan gærdag að Stíganda. Hafði ekkert heyrzt frá skipinu frá því á miðvikudag er það var á síldarmiðunum um 700 sjómílur norðaustur af Langanesi, en á hinn bóginn var ekkert vitað um hvarf þess fyrr en kl. 7.45 í gærmorgun. Var þá þegar hafin skipulögð leit sem tæpl. 100 skip og nokkrar flugvélar tóku þátt í og stóð hún fram á kvöld, þar til Snæfugl tilkynnti um björgunina og kvað alla mennina við góða heilsu. Fögnuður var mikill á Ólafsfirði, eins og fyrr segir.

Jakob Ásgrímsson, fréttaritari Mbl. ritaði — Það  er  erfitt  að  finna  orð til þess að lýsa gleðinni hér. Við fréttum um hvarfið snemma í mongun  og  fólk  var mjög  slegið. Bjóst það við hinu versta vegna þess langa tíma, sem liðinn var síðan heyrðist til skipsins eða á sjötta sólarhring. í dag hefur fólk setið við tæki sín og reynt að hlusta á bátabylgjuna með örlitla von í huga. Það var svo í kvöld að þessi gleðitíðindi bárust og það fór gleðistraumur um bæinn. Menn áttu sumir hálf bágt með að trúa þessu, að þeir væru allir heilir á húfi, bæði vegna þess að illa heyrðist vegna fjarlægðarinnar og langt er síðan skipið sökk. En þeir sem fréttirnar  heyrðu  hlupu þegar út og sögðu tíðindin. Já, það ríkir gleði hér yfir að hafa heimt sjómennina úr helju. Ekkert vitað um hvarf skipsins í 5 sólarhringa

Síðast heyrðist til Stíganda kl. 14,10 á miðvikudaginn er skipið tilkynnti síldarleitinni á Raufarhöfn að það væri með 240 tonn síldar. Þar sem fjarlægðin til lands var svo mikil varð v.b. Vigri, sem var við Jan Mayen, að bera skeytin á milli. Stígandi hélt þá af miðunum, sem eru á 74 gr. 20' n.b.og 10 gr. 00' a.l., ásamt Sigurbjörgu ÓF 1, en bæði þessi skip fylltu sig í sama mund. Höfðu skipstjórarnir á þessum tveimur skipum samband sín á milli fyrr um morguninn, og var þá Karl, skipstjóri á Stíganda, ekki ákveðinn hvort hann myndi losa í síldarflutningaskip eða halda beint til lands, þar sem bilun hafði komið fram í spili á skipinu. Sigurbjörg losaði á hinn bóginn í Síldina, sem var við Jan Mayen. Hefði Stígandi haldið til lands hefði hann átt undir öllum venjulegum kringumstæðum að vera kominn til Raufarhafnar um hádegisbil á laugardag. En þegar ekkert hafði heyrzt til skipsins aðfaranótt gærdagisins komu síldarleitin á Raufarhöfn og radíóið sér þar saman um að eitthvað  væri athugavert og létu Hannes Hafstein, fulltrúa hjá Slysvarnafél. vita kl. 7,45 eins og áður er getið. 

Annar   borðstokkurinn  í   kafi.

Gísli Árni var á sömu slóðum og Stígandi og Sigurbjörg og kom að þeim. Eru skipsmenn á Gísla Árna því ef til vill þeir síðustu auk þeirra á Sigurbjörgu sem sáu m.b. Stíganda ofansjávar. Gísli Árni kom með 250 tonn síldar til Ólafsfjarðar og 2. stýrimaður á bátnum, Jóhann M. Guðmundsson, kom til Reykjavíkur í gærkvöldi. Jóhann sagði okkur í stuttu máli frá síðustu veiðiferðinni og heimsiglingunni á þessa leið en öll höfuðatriði hafði hann bókuð í dagbók  sinni.

—  Við komum á miðin þriðjudaginn 22. ágúst og köstuðum en fengum þrjú „bomm". M. b. Þorsteinn fékk þá 350 tonna kast og háfuðu skipsmenn þar 100 tonn i Þorstein en létu okkur hafa  afganginn, 250 tonn.

—  Við gátum tekið 50 tonn í viðbót og vorum að leita síldar næsta dag, miðvikudag. Komum við þá að Stíganda þar sem hann er með mjög stórt kast á síðunni og er að háfa úr því, en kastið var svo stórt að Sigurbjörg var komin að líka og háfaði  úr nót Stíganda.

—  Ég veitti þessu sérstaka athygli, því kastið var svo stórt og þungt að Stígandi var með annan  borðstokkinn  í  kafi. Við fengum enga meiri síld og héldum heim á leið og vorum komnir á fulla ferð heim kl. 09 15. Heimferðin tók svo til rétta þrjá sólarhringa, við komum í höfn kl. 09.30 á laugardag.

—  Veiðisvæðið hjá okkur og Stíganda var 75—75 .gr. N.br. og lil—12  gr.   V.l. – hvernig  var heimferð ykkar?

—  Hún gekk vel. Fyrstu tvo sólarhringana var ágætisveður, golukaldi þó fyrst. Á 2. degi talaði ég um það við skipstjórann að leiðinlegt væri að við værum ekki með skipið sléttfullt.   (Það   vantaði   50   tonn). Á þriðja siglingardegi var komið versta veður og 7—8 vindstig. Þá sagði skipstjórinn glottandi við mig: Finnst þér ekki leiðinlegt að við erum ekki með hann  sléttan?"

Allt gekk þó vel hjá okkur og nú fæ ég hálfsmánaðarfrí hjá  fjölskyldunni,   sagði  Jóhann að  lokum.

SKIPULÖGÐ LEIT.

Strax og Slysavarnafélaginu höfðu borizt fregnirnar af Stíganda voru gerðar ráðstafanir til að skipuleggja og hefja leit. Fyrirspurnir voru gerðar um skipið í öllum síldarverstöðvum norðanlands og austan og samband var haft við norska björgunarfélagið, og það beðið að senda út tilkynningu á ensku og norsku á neyðarbylgjum um hvarf Stíganda, og biðja norsku og rússnesku síldveiði skipin við Svalbarða að svipast um eftir björgunarbátum. Öll íslensku síldveiðiskipin, auk ýmissa annarra, hófu þegar leit, þótt þau væru við veiðar eða á leið til lands. Þau  sem voru með afla í þilfarslest losuðu í Haförninn til að þurfa ekki að fara til lands áður en þau færu til leitar. Munu upp undir 100 skip hafa leitað í gær, og var þeim skipt í fimm aðalhópa. Dreifðu þau sér á stórt svæði á miðunum allt frá 70. gr. 30' n.b. til 74. gr. 40' n.b. og 4. gr. v.l. að 11. gr. 40' al. Mynduðu skipin breiðfylkingu með einnar sjómílu millibili og héldu norður á bóginn, þar eð sunnanátt hafði verið rikjandi á þessum slóðum allt frá miðvikudegi.

Þá leituðu nokkrar flugvélar á allstóru svæði. Flugvélar frá bandaríska hernum austan 0 gráðu lengdarbaugsins og Sif, flugvél Landhelgisgæzlunnar þar að vestan, en Björn Pálsson leitaði allt að 60 sjómílur út af Langanesi og vestur að Kolbeinsey, eða á því svæði sem veður hafði verið verst á heimleið Gísla Árna, og fyrr greinir frá.

Klukkan 21,32 kom svo skeytið frá Snæfugli þar sem greint var frá að mönnunum væri bjargað úr gúmmíbjörgunarbáti. Var það á mjög svipuðum slóðum og Sigurbjörg og Stígandi skildu eða á 73 gr. 56' norður breiddar og fjórðu gráðu austur lengdar, og hefur því Snæfuglinn verið annað hvort í öðrum eða þriðja leitarhópi. Virðist því á þessu að mennirnir hafi verið í gúmmíbjörgunarbátnum um 5 sólarhringa en ekki hefur fengizt á því staðfesting. Snæfuglinn mun halda til Reyðarfjarðar, en líkur eru á að reynt verði að koma skipbrotsmönnunum á skip, sem sigla til Norðurlandshafna.

Þess má geta að olíuskortur var mjög farinn að gera vart við sig hjá leitarskipunum á miðunum, en í gær tókst að útvega olíuflutningaskipið Kyndil, sem var fyrir Austurlandi, og ætlaði það að sigla með olíu á miðin í gærkvöldi  frá Seyðisfirði.

Mennirnir, sem björguðust af Stíganda, eru þessir: Karl Sigurbergsson, skipstjóri, Keflavík, Guðmundur Árnason, stýrimaður, Kópavogi, Hermann Björn Haraldsson, 1. vélstjóri úr Fljótum, Valgeir Þór Stefánsson, 2. vélstjóri frá Akureyri, Magnús Guðjónsson, matsveinn, Reykjavík, Bjarni Karlsson, 18 ára gamall sonur skipstjórans, Gunnar Nattisted, háseti, Færeyjum og Þórir Guðlaugsson, Gunnlaugur Sigursveinsson, Guðjón Sigurðsson, Guðjón Jónsson og Gunnar Reynir Kristinsson allir hásetar frá Ólafsfirði. Stígandi var 250 tonna skip og einn af litlu austurþýzku togurunum, sem smíðaðir voru fyrir íslendinga 1959.

Skipið hét áður Skagfirðingur, en var nýlega keypt til Ólafsfjarðar af útgerðarfélaginu Stíganda h.f. 14 manna áhöfn er skráð á skipið, en 12 manna áhöfn var á því í þessari ferð   vegna fría.