Snæfell EA 740

Snæfell EA 740

Líkan af bátnum  Snæfell EA 740 smíðað af Grími Karlssyni.

Snæfell EA 740 var smíðaður á Akureyri árið 1943 úr eik. 165 brl. 434 ha. Ruston díesel vél. Eigandi 20. júní 1943 var Útgerðarfélag K.E.A., Akureyri. 1962 var sett 600 ha. Wichmann díesel vél í skipið. Skipið var talið ónýtt og tekið af skrá 22. okt 1974.  

Heimild: Íslensk skip eftir Jón Björnsson.

  Snæfell EA 740

Fyrir meira en hálfri öld teiknaði Gunnar Jónsson þetta fræga og fallega skip. Gunnar var fæddur að Hléskógum í Höfðahverfi. Hann byggði Snæfellið 1943 í Skipasmíðastöð KEA á Akureyri. KEA átti síðan skipið alla tíð. Segja má að Gunnar Jónsson hafi teiknað og hannað skipið langt á undan sinni samtíð. Stærð skipsins var 165 rúmlestir.

Gunnar Jónsson hafði líka teiknað skip eins og Snæfell fyrir hin landskunna aflamann Arnþór Jóhannsson skipstjóra frá Siglufirði, einnig kenndan við Selá í Eyjafirði. Arnþór hafði verið skipstjóri á Dagnýju SI og Helga Helgasyni VE. Ekki varð af þeirri smíði því Arnþór Jóhannsson fórst 7. janúar 1950 með Helga VE á Faxaskeri rétt við hafnarminnið í Vestmannaeyjum, en Arnþór var farþegi þar um borð á leið til eyja. Tryggvi sonur Gunnars Jónssonar sagði mér að hann teldi að Arnþór hefði teikningarnar af nýja skipinu með sér þegar hann fórst. Eftir þessari teikningu var því aðeins byggt eitt skip, SNÆFELL.

Sjóferðasaga skipsins var frá upphafi til enda samfelld frægðarför. Egill Jóhannsson og Gísli J. Eyland voru fyrstu skipstjórar á Snæfellinu, síðar tók Bjarni Jóhannesson við og var skipstjóri til 1960, þá tók Baldvin Þorsteinsson við skipinu. Trausti Gestsson var skipstjóri á árunum 1964-1966, en þá tók Matthías Jakobsson frá Dalvík við skipinu. Síðastur skipstjóra á Snæfellinu var Árni Ingólfsson. Snæfell var fegursta djásn sem flaut fyrir Norðurlandi. Þótt ný skip kæmu, bar Snæfellið alltaf af þeim og hélt sinni reisn. Ekki var litadýrðinni fyrir að fara í skipinu, það var málað algrátt frá sjólínu upp í masturstoppa, aðeins gluggastykkið í brúnni hafði viðarlit. Þetta virtist ekki draga úr glæsileika skipsins. Þegar ævi skipsins lauk var því sökkt í námunda við Flatey á Skjálfanda og mun Bjarni Jóhannesson skipstjóri hafa síðastur gengið frá borði. 

Til viðbótar má geta þess, að við Eyjafjörð er sérstakur dagur, sem nefndur er Hattadagur. Við reynslusiglingu var góðborgurum og öðrum boðið í jómfrúferð á Snæfellinu um Eyjafjörð. Um borð voru eins margir og plássið leyfði. Dekkuð voru borð á þilfarinu, hlaðin veitingum og guðaveigum. Margar ræður voru fluttar og gat einn ræðumaður þess í hita auknabliksins, að það væri vel við hæfi á reynslusiglingu á svona glæsilegu skipi, að færa hafinu einhverjar fórnir, og henti að svo mæltu höfuðfati sínu í hafið.

Um þessar mundir voru komnir rándýrir enskir sparihattar (Battersby-hattar) á markaðinn. Á þilfarinu var sérstakt borð sem haft var undir yfirhafnir, og annað borð við hliðina sem var undir höfuðföt þeirra sem kusu að vera berhöfðaðir í veðurblíðunni. Snaraðist þá einn gestanna að því borði og hellti öllu saman í hafið. Lengi eftir þennan dag –Hattadaginn- skipti ekki máli hvort trillukallar við Eyjafjörð fóru á veiðar, berhöfðaðir eða með eitthvað pottlok, komu þeir ósjaldan tilbaka með glæsilega Battersby hatta og heitir þessi dagur síðan Hattadagur.

Grímur Karlsson

Þegar smellt er á myndirnar hér fyrir neðan birtast stærri myndir.

Snæfell EA 740  Snæfell EA 740  Snæfell EA 740