Sigún AK 71

Sigún AK 71

Líkan af bátnum  Sigrún AK 71  smíðað af Grími Karlssyni.

Sigún AK 71 var smíðuð í Strandby í Danmörku árið 1946 úr eik. 65 brl. 240 ha. Tuxam vél. Skipið hét Sigrún AK 71. Eigandi var Sigurður Hallbjarnarson h/f, Akranesi, frá 27. des 1946. 1957 var sett í skipið 280 ha. MWM díesel vél. Selt 7. mars 1962 Keflavík h/f, Keflavík, skipið hét Sigurbjörg KE 98. Selt 31. okt 1971 Sigurði H. Brynjólfssyni og Andrési Guðmundssyni, Keflavík, skipið hét Sigurbjörg KE 14. 1973 var sett í skipið 370 ha. Cummings vél. 4. jan 1977 var skráður eigandi Sigurður H. Brynjólfsson, Keflavík. Selt 2. júní 1977 Heimi h/f og Högna Felixsyni, Keflavík. Selt 22. okt 1981 Svavari Péturssyni, Kópaskeri, skipið hét Sigrún KE 14. Ekki umskráð. Talið ónýtt og tekið af skrá 4. nóv 1986.

 Heimild: Íslensk skip eftir Jón Björnsson. Iðunn 1990

 

 Hrakningarsaga mb. Sigrúnar frá Akranesi  skráð af Hallfreði Guðmundssyni, eftir frásögn skipstjórans

Að kvöldi 4. janúar (1952) s.l. var veðurútlit fremur ískyggilegt, veðurspá hafði verið óhagstæð allan daginn. Um kvöldið kl. 10 spáði þó veðurstofan, að ekki myndi hvessa fyrr en upp úr hádegi daginn eftir, og þá af suðaustri, en sú veðurátt er ekki talin hættuleg góðum bátum í norðanverðum Faxaflóa. Það varð því úr, að fjórir bátar réru frá Akranesi þetta kvöld. Meðal þeirra var mb. Sigrún AK 71, og verður sagt hér frá sjóferð þessari, þar eð hún varð allviðburðarík. 

Sigrún lagði af stað í þennan róður kl. 12 á miðnætti. Var þá vindur suðaustan kaldi, 4-5 vindstig. Haldið var út í norðvestur. Þegar stímað hafði verið í 24 sjómílur var línan lögð í sömu stefnu; var þá vindur orðinn allhvass af suðaustan, og var þá þegar sjáanlegt, að veður myndi versna fyrr en menn höfðu búist við. Er ljósbaujan var látin út, sogaðist færið undir bátinn og lenti í skrúfunni; varð að skera á færið og halda að næstu ljósbauju, og var andæft við hana til kl. 8 um morguninn. Var þá komið suðaustan stórviðri. Gekk því afar seint að ná inn línunni. Þegar dregin höfðu verið tvö bjóð, reið brotsjór framan yfir bátinn. Tveir menn, er á dekki voru, Gunnar Jörundsson 1. vélstjóri og Trausti Jónsson háseti, lentu í sjónum og urðu fyrir innvortis meiðslum. Sá nú ekki orðið út fyrir borðstokkinn fyrir veðurofsa og sjóroki; var vindur nú genginn til suðvesturs og sjór farinn að aukast. Var því ekki um annað að ræða en reyna að ná landi sem fyrst. Var skipinu slegið skáhallt undan veðri og haldið til Akraness.

Er siglt hafði verið í 20 mínútur hóf stórsjór bátinn á loft og kastaði honum niður á bakborðskinnung af því feiknarafli, að ekkert var upp úr nema stjórnborðssíða. Stýrishús og skipstjóraherbergi fyllist af sjó, allir gluggar brotnuðu úr brúnni, bakborðslunning og ellefu styttur, ásamt skjólborði, sópaðist burtu. Anker, sem komið var fyrir fram á, kastaðist fyrir borð, ásamt vírrúllu, sem boltuð var í dekkið að framan. Bjóð, lífbátur, ásamt öllu lauslegru, sópaðist fyrir borð. Þykkt járngólf, sem er í vélarúmi, kastaðist upp og yfir vélina, út til bakborðs. Allt fór í einn hrærigraut í hásetaklefa, rúmbotnar, sængurföt, eldhúsáhöld og alt, sem losnað gat.

Skipstjóri var einn í stýrishúsi og stóð hann í hlið stýrishússins, en fór á kaf í sjó. Skipið rétti sig hægt og hægt, þar til það kom svo að segja á réttan kjöl. – 2. vélamaður, Kristján Fredrekssen, var á leið aftur skipið, er sjórinn reið undir og hóf það á loft. Hann komst í stigann, sem liggur stjórnborðsmeginn upp í brúna, og hélt sér þar, því þeim megin kom enginn sjór á skipið. Taldi skipstjóri ekki fært að halda lengur áfram í því ástandi, sem skipið var, enginn leki kom þó að skipinu, nema lítilsháttar með lunningastyttum þeim, er brotnuðu. Var skipinu snúið upp í og haldið vest til suðvest. Var nú haldið upp í alla nóttina, og gekk allt eftir vonum. Ekki gátu skipverjar kveikt upp eld, þar eð reykrörið fór í fyrsta sjónum, og allt var brotið, sem tilheyrði matartilbúningi. – kl. 6 um morguninn sáu skipverjar bregða fyrir vita. Ekki sást hann það lengi, að hægt væri að átta sig á, hvaða viti það væri, en skipstjóri taldi það vera Garðskagavita og reyndist það síðar rétt vera. Var nú haldið upp í til kl. 8 um morguninn, en þá hugðist skipstjóri reyna landtöku, þar eð birta færi í hönd. Snéri hann skipinu skáhallt undan, jafnframt voru teknar svefndýnur úr rúmunum, gegnvættar í olíu og hengdar utan á skipið, en þær tættust í sundur, og naut þessa öryggis skamma hríð. Var þá reynt að hella olíu í sjóinn, en veðurofsinn tætti hana í allar áttir, og varð ekkert við það ráðið.

Skipstjóri telur stóröryggi að því, að skip hefðu ávallt bárufleyga tilbúna, til öryggis undir slíkum kringumstæðum, sem hér voru. Var nú haldið áfram með hægri ferð og reynt sem unnt var að verja skipið áföllum. Kl. 10 hóf sjór skipið á loft og kastaði því sem daginn áður, en nú rétti það sig samstundis, þar eð lunning og skjólborð voru eigi til fyrirstöðu. Í þessu áfalli tók stýrimanninn, Þórð Sigurðsson, fyrir borð. Hafði hann verið að líta eftir landi, og staðið upp á vélarúmi, en hafði handfestu í „rekkverki“ á stýrishúsi. Stýrimann bar fljótt aftur út, þar að skipið skreið hart undan stórsjó og ofsaveðri. Skipstjóri setti samstundis á fulla ferð og snéri skipinu upp í, hann missti aldrei sjónir af stýrimanni og tókst að fara svo nærri honum, að skipverjar gátu rétt stýrimanni haka, sem hann greip, og dró sig samstundis að skipinu, en skipverjar náðu til að innbyrða hann.

Var nú haldið undan enn á ný, því nú taldi skipstjóri sig vera í Garðskagaröst, eftir sjólaginu að dæma, og var þá herslumunur að ná inn fyrir Garðskaga. Svo var sjórinn geysilegur, að þetta taldi skipstjóri versta kaflann í öllum þeirra hrakningi. – Skömmu síðar komu þeir í betra sjólag, og var þá öruggt að allt var rétt, sem skipstjóri taldi vera um ferðir þeirra. Þegar kom inn undir Gerðahólma hittu þeir varðskipið Þór, sem fylgdi Sigrúnu til Akraness, og kom hún þangað kl. 5 e. m. Og hafði sjóferðin þá staðið í 41 klukkutíma. Óvíst telur skipstjóri, að þeir hefðu náð heimahöfn þennan dag, ef ekki hefði notið aðstoðar björgunarskipsins; svo var þá dimmt af roki og byl, og foráttubrim. Enginn veit, nema sá er reynir, hversu margháttaður styrkur mönnum er að því undir slíkum kringumstæðum og hér voru, að hitta fyrir skip með öruggum, útréttum höndum til hjálpar, ef með þarf. Er vonandi, að íslenska þjóðin beri gæfu til að eignast fleiri skip sem „Þór“ og fleiri álíka skipshafnir.  Hér lýkur frásögn skipstjóra.

Áhöfn í þessum róðri voru þessir menn: Guðmundur Jónsson skipstjóri, Akranesi, Þórður Sigurðsson stýrimaður, Akranesi, Gunnar Jörundsson 1. vélstjóri, Akranesi, Kristján Fredreksen 2. vélstjóri, Akranesi, Ásgeir Ásgeirsson matsveinn, Akranesi, Trausti Jónsson háseti, Akranesi.

Þessi frásögn þarf ekki skýringar við. Allir þeir, er hér voru að verki, hafa sýnt afburða þrek og dugnað, og þá sérstaklega skipstjórinn, sem ekki vék úr stýrishúsi í 22 klst. en um nóttina hvíldi stýrimaður hann við stýrið við og við. Munu hendur hans þá hafa verið farnar að stirðna af kulda, enda ekki að furða, þar sem hann var rennvotur frá hvirfil til ilja. Enginn sá skipstjóra brugðið, er að landi kom. Sama festan, hægðin og rólegheitin, sem einkenna öll mikilmenni – þegar á þau reynir.

 Hallfreður Guðmundsson.

Þegar smellt  er á myndirnar hér fyrir neðan birtast stærri myndir.