Pétursey ÍS 100
Líkan af bátnum Pétursey ÍS 100 smíðað af Grími Karlssyni.
Pétursey ÍS 100 var smíðuð í Noregi árið 1902 úr stáli. 91 brl. 110 ha. 2 þjöppu gufuvél. Skipið hét Poul SI 25. Eigandi var Ole E. Tynes, Siglufirði, frá 19. des 1923. Skipið var selt 2. feb 1927 Hlutafélaginu Erninum, Hafnarfirði, skipið hét Pétursey GK 6. Selt 27. feb 1932 Víkingi h/f, Hafnarfirði. Selt 21. júní 1934 Hlutafélaginu Pétursey, Hafnarfirði. Selt 29. júní 1940 Verðanda h/f, Suðureyri, Súgandafirði, skipið hét Pétursey ÍS 100. Skipið fórst á leið frá Íslandi til Englands með ísfiskfarm, ekki er vitað hvenær en talið á tímabilinu 12. til 16. mars 1941. Skipið sást síðast um 240 sjómílur suður af Vestmannaeyjum 12. mars 1941. Öll áhöfnin, 10 menn, fórst með skipinu (talið var líklegt að skipið hafi verið skotið niður af kafbáti.)
Pétursey sökkt
Hinn 10. mars 1941 lagði línuveiðarinn Pétursey ÍS 100 af stað frá Vestmannaeyjum, áleiðis til Englands með fiskfarm. Um það bil sólahring seinna mætti Dóra frá Hafnarfirði, sem var á heimleið, Pétursey, voru skipin þá stödd um 300 sjómílur frá Vestmannaeyjum, þetta er það síðasta sem vitað var um Pétursey og þarf ekki um afdrif þess að spyrja, því þýski kafbáturinn U-37 réðst á skipið líklega örskömmu eftir að Pétursey og Dóra mættust. Þar var á ferðinni Nicolai Clausen kafbátsforingi.
Með Pétursey fórust: 10 menn, Þorsteinn Magnússon, skipstjóri, 27 ára, Hallgrímur Pétursson, stýrimaður, 24 ára, Guðjón Vigfússon, fyrsti vélstjóri, 42 ára, Sigurður Jónsson, annar vélstjóri, 52 ára, Theódór Jónsson, 27 ára, Ólafur Kjartansson, 32 ára, Hrólfur Þorsteinsson, 33 ára, Halldór Magnússon, 22 ára, Ólafur Gíslason, 31 ára og Kristján Kristjánsson, 29 ára.
Heimildir: Víkingur feb. 1941, 2. tbl., Víkingur mars 1941, 3. tbl., Víkingur 1986, 5.-6. tbl., Heimsstyrjaldarárin á Íslandi 1939-1945, Vígdrekar og vopnagnýr.
Íslensk skip eftir Jón Björnsson.
Þegar smellt er á myndirnar hér fyrir neðan birtast stærri myndir.