Jarlinn GK 272
Líkan af bátnum Jarlinn GK 272 smíðað af Grími Karlssyni.
Jarlinn GK 272 var smíðað í Englandi árið 1890 úr stáli. 190 brl. 250 ha. 2ja þjöppu gufuvél. Eigandi var Hrogn og Lýsi h/f, Reykjavík, báturinn hét Anders RE 263. Skipið var selt 1930 Hlje h/f, Reykjavík, skipið hét Hljer RE 263. Selt 31. maí 1930 Kolbeini Finnssyni og Þorvaldi Jakobssyni, Reykjavík, skipið hét Jarlinn EA 590. Selt 5. janúar 1940 Sameignarfélaginu Jarlinum, Reykjavík. 6. júní 1941 eignaðist Björn Ólafsson, Reykjavík, í skipinu með fyrrgreindum eiganda, skipið hét Jarlinn GK 272. Skipið fór frá Englandi áleiðis til Vestmannaeyja 3. september 1941 en kom ekki fram. Það fórst með allri áhöfn, 11 mönnum.
Heimild: Íslensk skip eftir Jón Björnsson
3. september hélt Jarlinn frá Fleetwood í Englandi, áleiðis heim til Íslands. Togarinn Arinbjörn Hersir fór fram úr Jarlinum í Írska Kanalnum, síðan hefur ekkert spurst til línuveiðarans Jarlsins. Einn af þeim sem fórst með Jarlinum var frændi minn, Dúi Guðmundsson frá Laugalandi í Fljótum. Hann var kyndari á Jarlinum. Faðir minn Karl Dúason og Dúi voru jafnaldrar og systkinasynir. Áður en að Jarlinn fór í sína síðustu siglingu kom hann til Siglufjarðar var Dúi ákveðinn í því að hætta þar á skipinu, og var búinn að bera allt sitt í land. En mannskapurinn lá í honum um, að hann hætti við að hætta og endaði með því, að hann fór aftur um borð.
Áður en að skipið fór frá Siglufirði, skipti Dúi Guðmundsson eigum sínum og sagði fyrir um hvað hver ætti að eiga eftir sinn dag. Siglingafræðibækur Dúa og annað tengt skipstjórn er í eigu þess er þessar línur ritar.
Grímur Karlsson
Skiphöfn Jarlsins, skipi Óskars Halldórssonar sem fórst í Englandssiglingu árið 1941. Með skipinu missti Óskar, Theodór son sinn. Skipverjar voru:
- röð frá vinstri: Jóhannes Jónsson, skipstjóri, Reykjavík, 44 ára, ókvæntur; Guðmundur Matthíasson Thordarson, stýrimaður, búsettur í Kaupmannahöfn, en var staddur í Englandi þegar Danmörk var hertekin, 37 ára, kvæntur, átti 1 barn; Eyjólfur Björnsson, 1. vélstjóri, óðalsbóndi í Laxnesi, Mosfellssveit, 48 ára, kvæntur, átti 3 börn; Jóhann Sigurjónsson, 2. vélstjóri, Siglufirði, 44 ára, kvæntur, átti 2 börn og 1 fósturbarn.
- röð frá vinstri: Sigurður Gíslason, kyndari, Reykjavík, 26 ára, ekkjumaður, átti 2 börn; Dúi Guðmundsson, kyndari, Siglufirði, 40 ára, ókvæntur, átti 1 barn og aldraða foreldra; Halldór Björnsson, matsveinn, Reykjavík, 21 árs, ókvæntur; Ragnar Guðmundsson, háseti, Gufuá, Mýrarsýslu, 30 ára, ókvæntur.
- röð frá vinstri: Konráð Ásgeirsson, háseti, Bolungavík, 29 ára, ókvæntur; Sveinbjörn Jóelsson, háseti, Reykjavík, 17 ára, ókvæntur; Theódór Óskarsson, háseti, Reykjavík, 23 ára, ókvæntur.
Texti: Ásgeir Jakobsson