Helga EA 2

Helga EA 2

Líkan af  seglskipinu  Helga EA 2  smíðað af Grími Karlssyni.

Helga EA 2 var smíðuð í Englandi árið 1874 úr eik. 72 brl. Eigandi árið 1898 var Þórarinn Tuliníus, Eskifirði. Eigandi 30. nóv 1901 var Ottó Tuliníus, Akureyri. Skipið var  selt „Hinum sameinuðu verslunum á Akureyri“ um 1910. 1916 var sett 44 ha. Dan vél í skipið. Eigandi 26. nóv 1930 var Ludvig Möller, Hjalteyri. Eigandi 24. sept 1931 var Víglundur Möller, Hjalteyri. 1934 var sett 130 ha. June Munktell vél í skipið. Helga mun vera fyrsta íslenska skipið að hefja síldveiðar fyrir Norðurlandi. Skipið var  dæmt ónýtt og tekið af skipaskrá 29. ágúst 1944.

 Heimild: Íslensk skip eftir Jón Björnsson

 Tundurduflaveiðar 1943 og 1944

Helga EA 2 stundaði tundurduflaveiðar 1943 og 1944 fyrir herstjórnina á Íslandi. Helga grandaði 104 duflum í hafi, auk margra dufla sem gerð voru óvirk í fjörum. Ríkisskip og hernámsliðið gerðu Helgu út. Skipið var undir stjórn Landhelgisgæslu Íslands. Skipstjóri var Gunnar Gíslason skipherra frá Papey, stýrimaður var Þorlákur Þorkelsson frá Landamótum í Siglufirði. Svæðið sem Helga átti að sjá um var frá Horni að Langanesi. Skipverjar fengu herrifla og skot með sérstökum stálkúlum til að skjóta göt á duflin. Ekki var talið óhætt að fara nær dufli en 200 faðmar (um 360 m).

 Tundurduflaveiðar byrjuðu á því, að þeir voru sendir til Siglufjarðar. Þar hefði frést af dufli út af firðinum sem bretarnir höfðu ekki náð að skjóta niður. Fann Helga duflið og grandaði því. Þegar Helga kom inn til Siglufjarðar fengust fréttir af dufli vestur á Steingrímsfirði. Þegar Helga var komin vestur, komu skilaboð um að koma í kvellinum til Siglufjarðar aftur og taka póst sem hafði misst af Esjunni. Esjan var í hringferð austur um land. Vonast var til að Helga næði Esjunni á Húsavík, en veður eru válind og margt fer öðruvísi á sæ en ætlað er, því Helga náði Esjunni ekki fyrr en austur á Hornafirði.  

Þegar Helga var komin á Norðfjarðarflóann (með póstinn), var það óguleg kássa af duflum. Óðinn litli og enskur togari voru þar að reyna að sökkva einhverju af þessu. Sprakk þá eitt duflið svo nálægt Óðni að sprengingin skellti mönnunum á dekkinu og skekkti stýrihúsið. Óðinn hélt af svæðinu og kom ekki aftur austur, en eftir að Helga kom til Hornafjarðar og losnaði við póstinn tók hún við af Óðni. Bættist þetta svæði við hjá Helgu. Við þessi stórhættulegu störf voru nú greiddir áhættupeningar svokallaðir, en upphæðin var aðeins 5 krónur á dufl.  

Af öllum þeim duflum sem Helga átti við að sökkva sprungu aðeins 2 og sprungu þau samtímis. Það gerðist á Gunnólfsvík. Þar lágu tvö dufl fyrir föstu á aðeins 7 faðma dýpi. Það var að koma myrkur og þegar duflin voru farin að síga og tekið að vætla yfir þau kallaði Gunnar skipherra að þetta sé orðið gott og setur á fulla ferð frá duflunum. Þegar búið var að keyra í ca. 15 mín kemur þessi djöfuls dúndur sprenging undir afturendann á Helgu, þannig að gólfplöturnar í vélarrúminu skoppuðu á bitunum. Duflin höfðu sprungið við að koma í botn. En eins og alltaf áður slapp Helga.   

Helga tók eitt sinn dufl hjá Gísla Jóni bónda í Papey. Gísli Jón kom þá boðum til Gunnars sonar síns, skipherra Helgu. Skilaboðin voru eftirfarandi: Komdu nú til mín og hjálpaðu kallskömminni, það er einhver fjandans óþverri kominn inn á voginn hjá mér. Helga var þá stödd vestan við Hornafjörð og var þegar sett á fulla ferð. Þegar Helga kom til Papeyjar var duflið komið á land í vognum. Helgumenn opnuðu duflið og tóku forsprengjuna úr því og var henni hent ofan fyrir hamra og sprengd þannig.

Öðru sinni gerðu þeir á Helgu dufl óvirkt á Djúpavogi og var forsprengjunni einnig hent ofan fyrir hamra og köstuðu menn sér í ákjósanlegt grjót til skjóls, en þá voru þeir of nærri kaupfélaginu, því rúðurnar hrundu í því. Næst þegar þeir komu til Djúpavogs, spurðu konur þá að því, hvort þeir ættu ekki meira af þessu sem þeir hefðu hent í urðina og væri svo líkt tólg, það væri svo gott að kveikja upp með því, og hafði þá allri dínamít hleðslunni verið brennt til uppkveikju í eldavélum.

Síðasti vélstjóri á Helgu EA 2 var Pálmar Guðnason, hann var á skipinu 1943 og 1944. Pálmar sagði að þeir hefðu hætt síldveiðum fyrir Norðurlandi í ágúst 1944.

Var ævi skipsins þá lokið, enda Helga orðin lúin og þreytt. Brúin var tekin af og vélin úr. Helga var síðan fyllt af kolum á Akureyri og póstbáturinn Ester EA fengin til að draga Helgu til Drangsness í Steingrímsfirði. Af þessu má sjá, að þegar hætt var að nota Helgu sem veiðiskip var ákaflega stutt í að hún héldi í sína hinstu för.

 Ytri Njarðvík 5. apríl 1996, Grímur Karlsson
Heimildir: Pálmar Guðnason, 1. vélstjóri á Helgu EA, 1943 og 1944, þegar umræddir atburðir gerðust. Landhelgisgæsla Íslands.

Þegar smellt er á myndirnar hér fyrir neðan birtast stærri myndir.

Helga EA 2Helga EA 2Helga EA 2

Helga EA 2 var keypt til Íslands nokkru fyrir aldamót. Hún var smíðuð í Englandi 1874 og var 80-100 rúmlestir, skipið hlaut í upphafi nafnið „Onvard“ Skipið var smíðað í litlu þorpi og var smíðin framkvæmd nokkuð langt frá byggðinni vegna aðstæðna til sjósetningar. Þegar skipinu var hleypt af stokkunum misstu þeir það á stjórnborðs hliðina. Unnusta yngsta smiðsins varð undir skipinu. Hún var borin stórslösuð um borð í skipið og lögð í koju stjórnborðs megin, þar sem hún andaðist. Svipur þessarar ungu stúlku fylgdi skipinu alla tíð og varði það áföllum og grandi. Þetta slys var það fyrsta og síðasta sem henti þetta skip í sjötíu ára sögu þess. 

Fyrsta verk Íslendinga þegar þeir eignuðust skipið var að skíra það upp og gefa því nafn stúlkunnar, hét það síðan alla tíð Helga EA 2.   

Ekki var óalgengt að Helga snéri við í blíðskaparveðri og leitaði til lands. Þeir sem sáu til skipsins héldu hiklaust á eftir Helgu og komust þá ósjaldan hjá því að lenda í mannskaðaveðrum. Helga mun vera fyrsta íslenska skipið að hefja síldveiðar fyrir Norðurlandi 1902-1903. Næstu íslensku skipin til síldveiða 1903 voru Júlíus, Helena og Familien. Það þarf ekki að taka það fram að þessir kútterar voru vélarlausir með öllu og veiðarfæri varð að spila inn með handafli einu saman.  Jakob Jakobsson var lengst allra skipstjóra með Helgu eða í 20 ár. Árin 1919 og einnig 1920 var pabbi minn, Karl Dúason, á Helgu með Jakobi. Þá var komin 60 hestafla vél í Helgu.

Sumarið 1919 var mikill skortur vegna heimsstyrjaldarinnar fyrri og nánast ekkert hægt að fá. Stjórnvöld tóku þá ákvöruðun um að skammta flesta hluti, þar á meðal olíu. Urðu menn að gera það upp við sig hvort þeir treystu sér til að hefja síldveiðar með þann skammt af olíu sem þeim var úthlutað fyrir sumarið. Helga stundaði síldveiðar 1919 með herpinót, og voru henni skömmtuð níu föt af olíu fyrir sumarið. Pabbi sagði mér að mikið aukaálag hefði verið á Jakobi út af þessu, t.d. þegar þeir höfðu komið sér á líklega staði, var látið reka. Margar síldartorfur sáust vaða en Jakobi var ekki haggað og beið þess að torfan kæmi upp það nærri þeim að hægt væri að róa bátnum til hennar og spara þannig gangsetningu.  

Eitt sinn höfðu þeir fyllt Helgu grunnt inn á Héðinsfirði. Þegar kom að því að mjaka skipinu af stað hreyfðist það ekki hvernig sem reynt var. Varð að hleypa slatta út af dekkinu og kasta utar til að fylla aftur því Helga stóð á grunni. Ekkert minnist pabbi á að olían hefði ekki enst út sumarið. Samskipa pabba á Helgu og jafnaldri, 19 ára var skáldið Ragnar S. Helgason frá Hlíð í Álftafirði Norður-Ísafjarðarsýslu. Hann orti fallegt ljóð um ævi þessa farsæla skips Helgu EA 2. (sjá neðar á þessari síðu).

Endalok Helgu EA 2 voru þau að hún slitnaði upp á legunni á Drangsnesi síðla sumars 1944 í suðvestan stormi. Skipið hafði verið notað til að geyma ýmislegt varðandi síldarsöltun á  staðnum, svo sem tómar síldartunnur.  Búið var að taka af henni brúna og var stýrishjólið komið aftur á þilfarið. Bryndís 15 tonna bátur var sendur á eftir Helgu, þar sem hún sigldi á reiðanum út leiðina. En þeir komu engum manni um borð í Helgu og sneru frá við illan leik. Skömmu síðar hringir Halldór bóndi á Bæ, sem er framan á nesinu til Drangsness og segir að Helga sé að sigla á milli grunna, og spyr hvað sé af mannskap um borð. Honum er sagt að það sé enginn um borð. Hann segir það ekki vera rétt því það standi manneskja við stýrið. Síðan sigldi Helga út Húnaflóann og hvarf út við ystu sjónarrönd.

 Grímur Karlsson

 

Ég ætla að segja ykkur sögu,
sú saga er um horfið fley,
en aðalefni hennar
um unga og fagra mey.

Þetta er sorgarsaga,
hún sögð er norðanlands enn.
Mér sögðu  ‘ana aldnir sjómenn,
sannorðir prúðir menn.

Ég heyrði ´ana um borð í Helgu
hvíslað milt og rótt,
hún seytlaði um sál mína og taugar
og svipti mig öllum þrótt.

Þá söng í siglu og stögum,
sjórinn ókyrrðist fljótt.
Við leituðum hafnar af hafi
Þá heldimmu september nótt.

Svo skal þá sagan byrja,
sagan um nýsmíðað skip,
sem í fyrsta sinna átti að fljóta,
frítt með tignarsvip. (/lygnan svip)

Viðstaddir voru þá margir
við þetta glæsta far,
ástmey yngsta smiðsins
var einnig viðstödd þar.

Hún stóð við stjórnborðssíðu,
stillt með ljósa brá.
Unnustan unga líka
hún eflaust kom til að sjá.

Hún hét Helga þessi 
hugþekka unga mær.
Skrið var komið á skipið
Þá skunda hún átti fjær.

Þá bilaði ´inn sterki strengur,
stórt var skipsins fall,
með eldingar ofsahraða
ofaná Helgu skall.

Lemstraður líkami hennar
var lagður í hvílu um hríð.
Unnustinn ungi sá þar
allt hennar dauðastríð.

Upp frá því engum manni
í þeirri hvílu var rótt,
hún var varin af svip eða vofu,
varin jafnt dag og nótt.

Svipurinn sást oft á stjái,
við sigluhún efst hún stóð,
ung og æskufögur,
í augunum tvíræð glóð.

Er hafið í hamförum æddi,
hún benti örugg til lands.
Skipstjórinn bending þá skildi,
skipun hún var til hans.

Þá vís voru mannskaðaveður,
hann vissi, þau boðuðu hel,
hélt því strax til hafnar
og heppnaðist alltaf vel.

Eitt sinn á Aðalvík forðum
við akkeri‘ og festar hún lá.
Vaktmenn tveir skyldu vaka
og vel um skipið sjá.

Mjótt er á milli stiga
mannsandans tíðum haft.
Svefninn er öllum sætur,
Þeir sofnuðu báðir á vakt.

Ótryggt var veðurútlit,
áhættan mjög því stór,
vetrarnótt lengi að líða,
við land braut þungur sjór.

Þá kom hún að Jakobs hvílu, 
karlinum varð ekki rótt, 
hún svifti hann værum svefni,
sýnin um miðja nótt.

Í því stormbylur æddi 
um hið trausta far,
sem farið var fast að drífa
að feigðarsandinum þar.

Þá hefur mjóu munað
að menn og skip týndust við sand,
og alveg ókleift mönnum
að eiga þar björgun við land.

Svo er þá hinzta sagan. 
Sagan um Helgu lok.
Það enginn um kann segja,
Það var aftaka sjór og rok.

Hver leysti þá landfestar Helgu
er lagði ´ún í hinztu för ? 
Hver stóð við stjórnvöl á fleyi
og stýrði þeim feiga knör.

Er hinzti brotsjórinn hrundi
á hrjáð og mannlaust  fley
var þá ei vaktin fullstaðin
hjá vökulli fagurri mey ?

Hvort á hún nú hvílu í knerri,
eða komst hún á æðra stig ? 
Það er mér óráðin gáta, 
þar ályktar hver fyrir sig.

Þótt að sjálfsögðu enginn syrgi,
syrgi né felli tár, 
þá varði hún skipið voða, 
voða, í rúm sjötíu ár.

Höfundur: Ragnar S. Helgason frá Álftafirði N-Ísafjarðarsýslu (1900-1979).

 https://nilli.blog.is/blog/nilli/entry/1314305/