Gunnvör RE 81
Líkan af bátnum Gunnvör RE 81 smíðað af Grími Karlssyni.
Gunnvör SI 81 smíðuð í Englandi 1925. Eik og fura. 102 brl. 163 ha. Wichmann vél. Eig. Ingvar Guðjónsson, Siglufirði og Barði Barðason, Reykjavík, frá 5. okt. 1939. Skipið var selt 20. mars 1941 Hlutafélaginu Hervöru, Reykjavík, skipið hét Gunnvör RE 81.
Heimildir: Íslensk skip eftir Jón Björnsson.
Árið 1939 keypti Barði Barðason ásamt sameignarmönnum 100 rúmlesta gufuskip í Englandi. Barði sigldi því til Noregs, skipt var um yfirbyggingu og sett díesel vél í skipið. Skipið hlaut nafnið Gunnvör SI 81. Gunnvör reyndist afbragðs sjóskip og mikil happafleyta. Gunnvör sigldi með ísfisk til Englands í stríðinu á veturna en stundaði síldveiðar fyrir norðurlandi á sumrin og var alltaf með aflahæstu skipunum. Sagt var að ekkert íslenskt skip hefði fiskað eins oft fyrir andvirði sínu á jafn stuttum tíma og Gunnvör gerði. Endalok Gunnvarar voru þau að skipið strandaði við Kögur á Hornströndum, 21. janúar 1949. Mannbjörg varð og bjargaði skipshöfnin á BV Agli Skallagrímssyni áhöfninni. Síðar keyptu ungir menn fyrir vestan strandið og náðu úr því einhverjum verðmætum sem voru notuð í upphafi útgerðarfélagsins Gunnvarar h/f sem í dag er eitt af stærstu útgerðarfélögum Íslands. Segja má að mikil gæfa hafi fylgt þessu skipi og nafni þessi.
Þegar smellt er á myndirnar hér fyrir neðan birtast stærri myndir.