Grána EA

Grána EA

Líkan af seglskipinu  Grána EA   smíðað af Grími Karlssyni.

Grána EA var smíðuð í Frakklandi árið 1857 úr eik. 95 brl. Eigandi var Gránufélagið Akureyri, frá 23. júlí 1870. Skipið fórst við Hebrideseyjar 21. október 1896

 Grána frá Akureyri

10. september 1870 hélt fyrsta verslunarskip samtaka bænda við Eyjafjörð, frá Akureyri, áleiðis til Kaupmannahafnar hlaðið afurðum. Þetta var toppsegl- skonnortan Grána, eign samnefnds félags, Gránu félagsins. Tryggvi Gunnarson, framkvæmdastjóri, fór utan með skipinu. Skipstjóri á Gránu var J. P. Petersen frá Rudkoping, danskur maður. Grána kom til hafnar átján sólahringum síðar og tók Jón Sigurðson, forseti, á móti skipinu í Kaupmannahöfn. Um þetta leyti höfðu danskir kaupmenn á svæðinu samráð um verð á afurðum og nauðsynjavörum. Var þetta mótleikur Íslendinga til að brjóstast undan einokun danskra kaupmanna. Enginn vafi er á því að Jón Sigurðsson forseti hefur komið að þessu máli, eða hver annar skyldi hafa ráðið hinn afbragðsgóða skipstjóra J. P. Petersen á Gránu.

Grána kom svo aftur til Akureyrar 13. júní 1871, fullhlaðin vörum. Þessum ferðum hélt Grána uppi í tuttugu og sex ár. Eða frá 1870 til 1896. Siglt var til Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar, Skotlands, Englands og Hollands. Grána fór tvær til þrjár ferðir til útlanda yfir sumarið en var erlendis um vetur.

 1896 strandaði skipið í ofsaveðri á eyjunni Lewis, en Grána var þá á leið til Liverpool fullhlaðin saltfiski. Mannbjörg varð. Upphaf og ástæða strandsins var að bugspjótið brotnaði. Grána þótti alla tíð afskaplega fljót í förum og farsæl.

 Þetta urðu endalok frönsku 95 rúmlesta fiskiskonnortunnar sem upphaflega hét Emilie, frá Dunskergue, og komst í eigu Íslendinga 1868, eftir strand á Skaga norður. Þeir bændur sem keyptu skipið á strandstað hugðust draga það í sundur á Gáseyri og nota viðinn til húsgerðar, en við það var hætt og viðgerð framkvæmd sem stóð yfir í tvö ár. Þetta farsæla skip markaði djúp spor í verslunarsögu og sjálfstæðisbaráttu íslensku þjóðarinnar.

 Mynd er til af Emilie, Gránu, á strandstað á Skaga 1868 og er hún þar líka með brotið bugspjót. Enga aðra mynd hef ég getað fundið af skipinu.

 Grímur Karlsson
Heimildir: Skipabók Fjölva, Íslensk skip, Skútuöldin, Sjómannablaðið Víkingur.

Þegar smellt er á myndirnar hér fyrir neðan birtast stærri myndir.

Grána EAGrána EAGrána EA