Faxaborg RE 126

Faxaborg RE 126

Líkan af bátnum  Faxaborg RE 126 smíðað af Grími Karlssyni.

Faxaborg RE 126 var smíðaður í Svíþjóð árið 1947 úr eik. 109 brl. 260 ha. Polar díesel vél. Skipið hét Faxaborg RE 126. Eigandi skipsins var Ríkissjóður Íslands, Reykjavík, frá 31. des 1947. Skipið var selt 6. jan 1949 Hlutafélaginu Faxaborg, Reykjavík. Selt 29. júlí 1954 Bæjarsjóði Reykjavíkur, Reykjavík. Selt 7. ág 1954 Illuga h/f, Hafnarfirði skipið hét Faxaborg GK 133. 1956 var sett í skipið 360 ha. Lister díesel vél.  Skipið sökk eftir bruna út af Jökli 12. sept 1968. Áhöfnin, 5 menn, bjargaðist í gúmmíbát sem var um borð, síðan bjargaði skipshöfnin á vélskipinu Gísla lóðs GK 130 frá Hafnarfirði mönnunum til lands.

 Heimild: Íslensk skip eftir Jón Björnsson. Iðunn 1990

 

Fiskiskip og Varðskip

 Faxaborg var einn af mörgum svokölluðum Svíþjóðarbátum, sem byggðir voru í Svíþjóð fyrir Íslendinga eftir stríðið 1947. Þetta voru þrælsterkir eikarbátar, 50 til 111 rúmlestir. Þeir voru byggðir vítt og breitt um landið. Faxaborg var smíðuð í Råå, sem er rétt hjá Helsingjaborg. Báturinn var einn af þeim stærstu, eða 109 rúmlestir. Aðallega notuðu Svíar handverkfæri við smíðina á Faxaborg, en höfðu bandsög, hefil, afréttara ásamt loftbor. Þeir sem fóru út til að sækja Faxaborg í byrjun júní 1947 voru Guðni Jóhannsson skipstjóri, sonur hans Sigþór Guðnason, Marteinn Sigurðsson fyrsti vélstjóri og Zophanías Ásgeirsson annar vélstjóri. Svo kom á eftir þeim Sveinn Björnsson stýrimaður, sem síðar varð lögregla og listmálari. Þegar mannskaparinn kom út var aðeins búið að smíða skrokkinn. En smíðin gekk vel, og í endaðan júlí voru þeir komnir heim til Íslands með skipið. Þá var þegar haldið til síldveiða, en í endaðan ágúst var síldveiðum hætt. Þá var Faxaborg leigð Landhelgisgæslu Íslands og sett fallbyssa á hvalbakinn.

Fyrst var Þórarinn Björnsson skipherra með skipið, Jón Jónsson skipherra fyrsti stýrimaður og Garðar Pálsson skipherra annar stýrimaður. Allir mjög þekktir landhelgisgæslumenn. Skipstjóraskipti voru tíð hjá gæslunni og voru ýmsir með Faxaborg. Má nefna Þórarinn Björnsson, Hannes Freysteinsson, Pétur Jónasson og Jón Jónsson. Garðar Pálsson skipherra var allan tímann á Faxaborg sem skipið var við gæslustörf, fyrst sem annar stýrimaður og síðar fyrsti stýrimaður.

Aðalverkefni um haustið og veturinn 1948 var að gæta báta og skipa í Faxaflóa og aðstoða þá. Einnig var skipið sent í lengri og skemmri ferðir ef svo bar undir.  Sumarið 1948 fór Faxaborg á síldveiðar og var skipstjóri við veiðarnar Guðni Jóhannsson. Um haustið, veturinn og sumarið 1949 var Faxaborg við gæslustörf. Skipið fékkst líka við að granda tundurduflum og fór margar ferðir út á land með sérfræðinga gæslunnar í þeim tilgangi. Frægust varð Faxaborg sumarið 1949, en þá lenti skipið í miklum rússaslag og tók hvorki meira né minna en 12 skip í landhelgi í sömu ferðinni. Skipin voru: breskur togari við Stokksnes, þrjú sænsk síldveiðiskip við Austfirði, þrjú norsk síldveiðiskip við Austfirði, eitt rússneskt móðurskip við Langanes og fjögur rússnesk síldveiðiskip á Bakkaflóa.

Þeir sem voru á Faxaborg í rússaslagnum 1949 voru: Þórarinn Björnsson skipherra, Garðar Pálsson fyrsti stýrimaður, Þórarinn Gunnlaugsson annar stýrimaður, Marteinn Sigurðsson fyrsti vélstjóri, Zóphanías Ásgeirsson annar vélstjóri, Jóhann Andrésson bátsmaður, Ragnar Sveinbjörnsson matsveinn, Eiríkur Einarsson háseti og Egill Pálsson háseti.

 Grímur Karlsson

Heimildir: Marteinn Sigurðsson vélstjóri,  Garðar Pálsson skipherra og Landhelgisgæsla Íslands.

Þegar smellt er á myndirnar hér fyrir neðan birtast stærri myndir.