Baldur KE 97
Líkan af bátnum Baldur KE 97 smíðað af Grími Karlssyni.
Baldur KE 97 var smíðaður á Akureyri árið 1939 úr eik. 26 brl. 100 ha. Alpha vél. Báturinn hét Leifur Eiríksson EA 627. Eigendur voru Ingvi Björgvin Jónsson og Þorleifur Þorleifsson, Dalvík, frá 8. júlí 1939. Seldur 27. feb. 1948 Valgeiri G. Vilhjálmssyni, Sigurði Emilssyni, Hannesi Jónssyni, Jónatan Lúðvíkssyni, Djúpavogi og Eggerti Guðmundssyni, Þvottá, Álftafirði, báturinn hét Arnarey SU 31. Seldur 9. okt 1957 Baldri h/f, Keflavík, báturinn hét Baldur KE 97. 1959 var sett í bátinn 165 ha. GM díesel vél. Seldur 21. mars 1961 Ingólfi R. Halldórssyni og Jóni Torfa Jörundarssyni, Akureyri, báturinn hét Svanur II. EA 517. Seldur 11. feb 1970 Sigurði Valdimarssyni, Hans Óla Hanssyni og Kristófer Jónassyni, Ólafsvík og Narfa S. Kristjánssyni, Hoftúni, Staðarsveit, báturinn hét Svanur II. SH 36. Seldur 22. mars 1972 Guðmundi Þ. Ásgeirssyni, Bíldudal og Matvælaiðjunni h/f, Bíldudal. Báturinn hét Svanur II BA 61. Hann var talinn ónýtur og tekinn af skrá 8. des 1975.
Heimild: Íslensk skip eftir Jón Björnsson
Baldur KE 97
Baldur KE 97 var upprunalega Leifur Eiríksson EA 627, var smíðaður á Akureyri 1939 ásamt systurskipi eftir sömu teikningu og skipið Björn Jörundsson EA 626. Bátarnir voru smíðaðir úr eik og voru 26 brl og með 100 ha Alpha díesel vél. Fyrstu eigendur af Leifi Eiríkssyni EA 627 voru Ingvi Björgvin Jónsson og Þorleifur Þorleifsson frá Dalvík og var hann afhentur þeim 8. júlí 1939. Þeir seldu hann 27. febrúar 1948 til Valgeirs G. Vilhjálmssonar og félaga frá Djúpavogi. Þar fékk hann nafnið Arnarey SU 31. Vorið 1957 keypti Baldur h/f bátinn til Keflavíkur og fékk hann nafnið Baldur KE 97. Eigendur Baldur h/f voru Ólafur Björnsson, Hróbjartur Guðjónsson og Stefán Pálsson sem fljótlega hætti í félagskapnum. Báturinn var þá í mikilli niðurníðslu, viðgerð og endurbætur kostuðu meira en kaupverð bátsins. Eftir þessar endurbætur í Dráttarbraut Keflavíkur komst báturinn á flot um haustið 1957. Sumarið 1958 fékkst leyfi til að reyna humarveiðar á Eldeyjarsvæðinu á Baldri KE 97. Fyrir stríð höfðu þessar veiðar verið reyndar frá Höfnum og úr Vestmannaeyjum, en árangurinn var lítill. En á þessum tíma voru humarveiðar stundaðar á litlum bátum frá Stokkseyri og Eyrarbakka sem einskonar atvinnubótavinna. Baldur KE 97 var eini báturinn á Eldeyjarsvæðinu við þessar veiðar sumarið 1958. Veiðarnar gengu frábærlega vel. Hraðfrystihús Keflavíkur (Stóra Miljón) vann aflann. Sumarið eftir fjölgaði bátum á humarveiðum mikið og 3 árum seinna var þetta orðinn einn helsti veiðiskapur bátaflotans við Faxaflóa á sumrin, enda höfðu síldveiðar brugðist. Sumarið 1959 hrundi vélin í Baldri KE 97 og þá var sett í hann 165 ha GM díesel vél. Baldur KE 97 var seldur Ingólfi Halldórssyni 1960 til Akureyrar og fékk hann nafnið Svanur II. EA 517. Baldur h/f átti þá bát í smíðum í Svíþjóð. Ingólfur flutti skömmu síðar til Keflavíkur með bátinn og gerði hann út þaðan. Ingólfur seldi Svan II. 11. febrúar 1970 til Sigurðs Valdimarssonar og fl. Sigurður og fl. seldu hann til Bíldudals 1972. Svanur II. var tekinn af skrá og talinn ónýtur 8. desember 1975.
Þegar smellt er á myndirnar hér fyrir neðan þá birtast stærri myndir.