Ársæll GK 527

Ársæll GK 527

Líkan af bátnum  Ársæll GK 527 smíðað af Grími Karlssyni.

Ársæll GK 527 var smíðaður í Danmörku árið 1938 úr eik og beyki. 22 brl. 85 ha. Hundested vél. Eigendur voru Magnús Ólafsson, Þorvaldur Jóhannesson, Bjarnveig Vigfúsdóttir og Björn Þorleifsson, Njarðvíkum, frá 4. júní 1938. Báturinn fórst út af Garðskaga 4. mars 1943, 4 menn fórust en áhöfn Ásbjargar frá Hafnarfirði bjargaði 1 manni af áhöfn hans.  

Heimild: Íslensk skip eftir Jón Björnsson. Iðunn 1990

 M.b. Ársæll G.K. 527 hvolfir

Aðfaranótt hins fjórða mars lagði m/b „Ársæll“ frá Ytri-Njarðvík af stað í róður. Er á daginn leið gerði hið versta útsynningsveður, fékk báturinn á sig sjó á landleiðinni, og fórst með svo skjótri svipan, að vélamaðurinn, Símon Gíslason, er af komst, átti fullt í fangi með að átta sig á hvernig það hefði skeð.

Fjórir menn hurfu þarna með bátnum í djúp hafsins: Formaðurinn, Þorvaldur Jóhannesson, og hásetarnir, Guðmundur Sigurjónsson, Pétur Árni Sumarliðason og Trausti Guðmundsson.

Þorvaldur var fæddur á Skriðufelli í Gnúpverjahreppi 14. febrúar 1898. Þriggja ára gamall fluttist hann í Ytri-Njarðvíkur, og ólst upp hjá merkishjónunum Gróu Björnsdóttur og Þorleifi Bjarnasyni í Þórukoti. Hann byrjaði sjómennsku á unga aldri, fyrst á árabátum og síðan á vélbátum. Formennsku byrjaði hann árið 1920, eina vertíð, á m/b „Baldur“, og síðan á m/b „Ársæll“, er hann var eigandi að ásamt þremur öðrum. Árið 1938 var „Ársæll“ seldur, en nýr og stærri bátur með sama nafni, keyptur í staðinn, sá, er hann fórst með. Hann var því orðinn reyndur formaður, og talinn gætinn og góður sjómaður. Kom það fram í síðustu ferðinni, þá fór hann frá nokkru af línunni til þess að hraða sér í land, áður en fallaskiptin kæmu, en „eigi má sköpum renna“.

Þorvaldur var jafnan hinn mesti aflamaður, og á dragnótaveiðum brást honum ekki afli. Hann var hið mesta prúðmenni, jafnt heima sem heiman,  glaður og spaugsamnr. Varð honum því gott til manna, þar sem von var bæði afla og viðmóts hlýju. Ævistarf hans var mest á sjónum, en þess í milli greip hann ýmsa vinnu, og þá oft smíðar. Fór honum það vel úr hendi eins og sjávarstörfin. Heimili hans var Grund í Ytri Njarðvíkum og var hann kvæntur Stefaníu Guðmundsdóttur, hinni mestu myndar- og dugnaðar konu. Lifir hún mann sinn ásamt fimm börnum þeirra og uppeldissyni, Ólafi Sigurjónssyni. Er að þeim mikill harmur kveðinn við hið skyndilega og óvænta fráfall ástkærs eiginmanns og föður, er var sístarfandi fyrir heill og hamingju heimilisins.

Guðmundur Sigurjónsson, systursonur frú Stefaníu, var fæddur að Hátúni á Vatnsleysuströnd hinn 20. jan 1919. Hann var elstur fjögurra sona Sigurjóns Jónssonar á Lundi í Ytri-Njarðvík, og fyrri konu hans, Diljár Guðmundsdóttur og átti heima hjá föður sínum. Hann var ókvæntur.

Pétur Árni Sumarliðsson var fæddur í Félagshúsi í Ólafsvík hinn 3. sept 1917. Hann var fyrir nokkru fluttur að Garðhúsum í Ytri-Njarðvík, og átti þar heima ásamt konu sinni, Sigríði Jónsdóttur frá Stykkishólmi. Þau áttu tvö ung börn.

Trausti Guðmundsson var fæddur í Ólafsvík 14. jan 1916. Hann var ókvæntur, en öldruð móðir hans er á lífi í Ólafsvík. Hún á um sárt að binda, þar sem hann var eini sonurinn og ellistoðin.

Símon Gíslason vélamaður, er bjargaðist, skýrir svo frá atburðinum:

„Við vorum á heimleið úr fiskiróðri. Vorum á hægri ferð, því að mikill sjór var. Ég var staddur í stýrishúsinu, ásamt Þorvaldi Jóhannessyni skipstjóra. Skyndilega reið brotsjór yfir bátinn að aftanverðu. Um leið tók ég eftir því, að stoðir í stýrishúsinu höfðu brostið. Veit ég svo ekkert af mér fyrr en mér skýtur upp kulborðsmegin við bátinn og sé þá, að báturinn er á hvolfi. Ég sé að hjá mér er á floti brot úr stýrishúsinu, ásamt aftursiglunni. Ég kann ekki að synda, en beitti allri orku til að ná í sigluna og tókst mér það, án þess ég geti gert mér ljóst með hverjum hætti það varð. Mér fannst ég hafa verið óralengi í kafi. Hélt ég mér svo uppi á siglunni. Litlu síðar kom v/b „Asbjörg“ og bjargaði mér með þeim hætti, að bandi var kastað til mín og gat ég haldið mér í það.“

M/b „Asbjörg“ frá Hafnarfirði, - skipstjóri Ragnar Jónsson, var þarna nærstaddur, og tókst skipverjum hans, eins og fyrr segir, að bjarga Símoni Gíslasyni vélstjóra. „Asbjörg“ stóð við á slysstaðnum langan tíma á eftir, en skipverjar urðu einskis frekara varir um þá, er fórust.

M/b „Arsæll“ var 22 smál. að stærð, smíðaður í Fredrikssund 1938 og var eign Magnúsar Ólafssonar í Höskuldarkoti og annara félaga hans.

Þegar smellt er á myndirnar hér fyrir neðan þá birtast stærri myndir.

Ársæll GK 527Ársæll GK 527Ársæll GK 527