Ægir GK 8

Ægir GK 8

Líkan af bátnum  Ægir GK 8  smíðað af Grími Karlssyni.

Ægir GK 8 var smíðaður í Danmörku árið 1934 úr eik. 22 brl. 96 ha. Tuxham vél. Eigendur voru Finnbogi Guðmundsson og Þórður Guðmundsson, Gerðum, Garði, Gullbringusýslu, frá 18. október 1934. 26. nóvember 1941 var skráður eigandi Ægir h/f, Gerðum, Garði. 12. febrúar 1944 fékk báturinn á sig brotsjó og hvolfdi. 4 menn björguðust um borð í Jón Finnsson GK, en 1 maður fórst. Bátinn rak upp í Melasveit en náðist út aftur og var endurbyggður. Seldur 10. nóvember 1954 Stokkseyrarhreppi, Stokkseyri, báturinn hét Hersteinn ÁR 9. Seldur 26. júní 1959 Hafrúnu h/f, Reykjavík, báturinn hét Hersteinn RE 351. 1959 var sett í bátinn 115 ha. Caterpillar díesel vél. Seldur 6. mars 1961 Haraldi Halldórssyni, Árna Ólafssyni og Sigurði Gestssyni, Akureyri, báturinn hét Hallsteinn EA 130. Seldur 11. október 1963 Olgeiri Sigurgeirssyni, Sigurði Olgeirssyni og Hreiðari Olgeirssyni, Húsavík, báturinn hét Kristbjörg ÞH 44. Seldur 13. maí 1970 Jóni Karli Einarssyni og Sólmundi Jóhannssyni, Sandgerði, báturinn hét Kristbjörg GK 404. Báturinn strandaði við Stafnes á Reykjanesi 13. nóvember 1971, áhöfnin, 3 menn, bjargaðist í  gúmmíbjörgunarbát til lands.

Heimild: Íslensk skip eftir Jón Björnsson

 

 Ægir hafði róið í Sandgerði í tíu ár þegar hann varð fyrir áfallinu. Bátinn rak upp á Mýrar, gegnum skerjagarðinn, brim og boða og lenti í sandfjöru án þess að skemmast meira. Var sóttur um vorið og gerður upp. Réri síðan í önnur tíu ár í Sandgerði. Ægir varð þá orðinn minnsti vertíðarbáturinn í verstöðinni, en réri alltaf jafn stíft og stærri bátarnir.  

Til er lýsing á línuróðri frá þessum tíma á Ægir, en gott fiskerí var vestur í kanti. Leiðindaveður hafði verið að ANA. Gestur skipstjóri á Ægi lét taka línubalana úr göngunum og stafla þeim í miðkassanum og fram á lestarlúgur og eitthvað á hádekkið. Svo var breytt yfir allt og súrbundið. Róið um miðnætti og klukkan 3:00 er slegið af til að leggja línuna en þá er veðrið orðið þannig að það er ekki hægt að setja menn út á dekk. Bátnum snúið upp í vind og sjó og sett á fulla ferð aftur. Kl 9:00 um morguninn eru þeir komnir suður fyrir Reykjanes. Línan er lögð í lykkju út og upp. Enginn baujuvakt tekin heldur byrjað strax að draga þann endann sem fyrst fór út. Þá er komið rúmlega hádegi. Línudráttur á 40 bölum tekur tíu klukkustundir ef vel gengur. Þá er landstímið eftir og að landa aflanum, taka bjóðinn í næsta róður og gera allt klárt.  Tíminn í þessum róðri hefur trúlega verið 28 klukkustundir eða meira án nokkurrar hvíldar. Svona voru nú þessir rokróðrar í þá daga.

 Grímur Karlsson        

  Þegar smellt er á myndirnar hér fyrir neðan birtast stærri myndir.       

 Ægir GK 8Ægir GK 8  Ægir GK 8