Ferðalangur
5. Sep - 5. Jan
Sýningin er ferðalag um myndlistarferil Kristins Más Pálmasonar, en meirihluti verkanna er gjöf listamannsins til Listasafns Reykjanesbæjar.
Kristinn Már Pálmason, býður áhorfendum að fylgja sér í „Undraland“ vöntunar, þar sem órar liggja í leyni með því að halda fjarlægð frá ytri táknmynd. Myndverk Kristins hefja sig upp yfir þekktan efnisheim okkar, en skapa þess í stað lögmál sem tákngerir vandlega hugarheim listamannsins í sjónræna geómetríu, sem er um leið vegurinn að einhverskonar andlegri frelsun, þar sem vöntunin í myndefninu er sköpuð meðvitað. Listamaðurinn veit að „forritið“ eða myndheimurinn sem hann leitast við að birta er brotakenndur og ókláraður.
Myndverk Kristins takast á við frumspekilega brotakennda hugmynd skynseminnar um skapara heimsins, þar sem hvert tákn er sjálfstæð eining með sitt eigið þyngdarafl og sinn sérstæða lofthjúp. Það sem veldur aðdráttarafli eða þyngdarkrafti er massi hlutanna eða efnismagn. Þyngdarkrafturinn berst gegnum efni þannig að táknin hafa áhrif hvort á annað hvar sem þau eru staðsett á myndfletinum. Þannig er má líta á myndverk Kristins sem mynd af himingeimnum, sem skynsemi vitsmunaverunar hefur túlkað sem massa alheimsins með vísindalegum aðferðum hingað til.
- Helga Þórsdóttir, sýningarstjóri
Kristinn Már Pálmason (1967) útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1994 og með MFA-gráðu frá The Slade School of Fine Art, London, árið 1998. Hann hefur haldið fjölmargar einkasýningar og verið valinn á samsýningar víða. Kristinn er einn af stofnendum Kling & Bang árið 2003 og gallerí Anima 2006-2008.
Sýningarnar eru styrktar af Safnasjóði og Stapaprenti.