Hríseyjan EA 10

Hríseyjan EA 10

Líkan af seglskipinu Hríseyjan EA 10  smíðað af Grími Karlssyni.

Hríseyjan EA 10 var smíðuð (staður og ár ókunn) úr eik og furu. 21 brl. Eigandi var Kristinn Stefánsson í Nesi. Um tíma áttu Jakob og Kristinn Havsteen, Oddeyri, bátinn. Hann var seldur 5. nóvember 1903 Carl Höepfner, Akureyri. Var lengi gerður út, seinast til hákarlaveiða 1918 eða 1919. Stóð eftir það uppi á kambi á Akureyri en endaði sem tunnu- og skrangeymsla á Siglufirði. Talinn ónýtur og rifinn um 1930.  

Heimild: Íslensk skip eftir Jón Björnsson

 

Hríseyjan EA 10 „Hákarlaskip“

„Líklega smíðuð í Skotlandi um 1860 til 1870, var úr eik og furu. „Röskar 20 smálestir“

 Mun hafa verið keypt í Skotlandi til Hríseyjar af Kristni Stefánssyni, Ystabæ í Hrísey o.fl. Hríseyingum upp úr 1880. Eftir fárra ára veru eigu í Kristins og þeirra félaga lenti hún til Höepfnersverslunar og var síðan gerð út af því fyrirtæki um mjög langt skeið. Með Hríseyjuna voru ýmsir skipstjórar og hefur mér ekki tekist að hafa upp á þeim nálægt því öllum með nafni, en einna lengst munu hafa verið þar skipstjórar, Sigurður Hrólfsson ættaður Draflastöðum í Fnjóskadal var með hana 1910 til 1919, en umsögn hans um skipið var, að hún hefði verið stærsta og mesta sjóskipið sem hann hefði verið með, var hann þó skipstjóri á einum 6 skipum á ævi sinni. Eggert Jónsson í Samkomugerði í Saurbæjarhreppi, Eyjafirði, Sæmundur Sæmundsson Látrum á Látraströnd og Kristinn Ásgrímsson í Hrísey.

Hríseyjan varð einna langlífust allra hinna gömlu hákarladalla . Var hún notuð alla þá tíð er gert var út á hákarl hér við Íslandsstrendur og var hún seinast gerð út á þær veiðar vorið 1924, undir stjórn Jóns Halldórssonar formanns.

Eftir að hákarlaveiðar hættu með öllu stóð þetta gamla skip lengi uppi á Oddeyrartanga á Akureyri við hús Gránufélagsins. En að lokum var hún sett á flot aftur og notuð sem geymsluskrokkur undir síldartunnur og annað skran við bryggju á Siglufirði. Þar drafnaði þetta gamla en fallega hákarlaskip í sundur um og eftir 1940 og muna margir eldri menn eftir því. Svo urðu örlög Hríseyjunnar sem og marga gamalla skrútna í eigu okkar Íslendinga.“

 Heimild: Frásögn Ásgeirs Halldórssonar, Hrísey, í maí 1995.

Þegar smellt er á myndirnar hér fyrir neðan birtast stærri myndir.

Hríseyjan EA 10Hríseyjan EA 10Hríseyjan EA 10