Þeir settu svip á bæinn

Skátafélagið Heiðabúar fagnar 80 ára afmæli í september næstkomandi að því tilefni var opnuð sýningin Þeir settu svip á bæinn föstudag 9. júní kl.18 í Gryfjunni í Duus Safnahúsum.

 Á sýningunni eru ýmsir munir til sýnis, farið er yfir sögu skátafélagsins og stiklað á stóru. Skátafélagið Heiðabúar var stofnað 15. september árið 1937 og aðalhvatamaður þess var Helgi S. Jónsson. Saga Heiðabúa er merkileg í skátasögunni vegna þess að í því félagi sameinast í fyrsta sinn í heiminum drengir og stúlkur í einu félagi. Heiðabúar hafa orðið þeirra gæfu aðnjótandi að þar hafa menn ekki gert aðeins stuttan stans heldur hafa þó nokkrir sinnt þörfum félagsins í mörg ár, sumir alla ævi.

Skátahreyfingin er alþjóðlegt þjónustuafl stofnað af Lord Baden Powell árið 1907. Hans hugsjón var að skapa hreyfingu sem stuðlaði að líkamlegum og andlegum þroska barna og unglinga svo þau gætu tekið þátt í samfélaginu. Skátastarfið og skátaandinn vinna eftir þaulreyndum starfsaðferðum  og leitast við að skapa börnum og unglingum ánægjulega og þroskandi tómstundaiðju. Skátahugsjónin haslaði sér völl hér á Íslandi snemma á þessari öld og rætur hennar liggja djúpt í mörgum bæjum víða um land. Heiðabúar hafa ávallt sett svip á bæinn með virkri þátttöku í öllum helstu viðburðum bæjarins s.s. sumardaginn fyrsta, 17. júní, Ljósanótt, sumarstarfi fyrir börn, áramótum.

Sýningin er opin alla daga 12-17. Allir velkomnir.