Silver Cross, svo miklar drossíur

Sýningin „Silver Cross, svo miklar drossíur“ er í Stofunni í Duus Safnahúsum.Sýningin er samstarfsverkefni Byggðasafns Reykjanesbæjar og Thelmu Björgvinsdóttur, sem hefur rannsakað og kynnt sér sögu vagnanna hér á landi en  þessir barnavagnar hafa verið vinsælir á Íslandi í langan tíma. Á sýningunni verður fjöldi glæsilegra vagna frá ýmsum tímum, auk fjölda ljósmynda af vögnum í notkun.

Sýningin stendur til 4. nóvember og er opin daglega frá kl. 12 - 17.

Nafnið eitt, Silver Cross, fær fólk til þess að brosa við hlýjum minningum sem tengjast vagninum. Sérstakar tilfinningar vakna þegar ungabarn er lagt til svefns í fallegum vagni, umvafið fatnaði sem þeir sem standa barninu næst hafa lagt ást og kærleika í.

Áhugaverðar sögur og dýrmætar minningar fylgja oft vögnum sem hafa tilheyrt sömu fjölskyldu. Oft á tíðum er búið að leggja mikla vinnu í viðhald og varðveislu á þessum fallegu vögnum sem tengjast fólki tilfinningaböndum.

Sýningin er unnin upp úr verkefni Thelmu Björgvinsdóttur, nema í þjóðfræði við Háskóla Íslands, um Silver Cross barnavagna. Verkefnið hefur síðan undið upp á sig og verður í framhaldinu viðfangsefni lokaritgerðar hennar til BA prófs í þjóðfræði. Fortíðin lifir í minningum og það er ósk höfundar að sýningin veki upp fallegar minningar og hlýjar hugsanir.

Sýningin er samstarfsverkefni Byggðasafns Reykjanesbæjar og Thelmu Björgvinsdóttur. Leitað var til fólks á Suðurnesjum með efni, bæði myndir og vagna. Án þeirra jákvæðu viðbragða hefði sýningin aldrei orðið að veruleika. Fá þau öll bestu þakkir fyrir.

Tilvitnanir eigenda Silver Cross vagna eru fengnar úr verkefni höfundar í þjóðfræði og tengjast ekki myndum á sýningunni.

Rafholt ehf. styrkti gerð sýningarinnar.

Höfundur: Thelma Björgvinsdóttir
Sýningarstjórn/hönnun: Eiríkur P. Jörundsson
Aðstoð við sýningu: Sigríður Ragna Jónasdóttir
Smíðavinna/málun: Haraldur Haraldsson