Gjöf Daða

Listasafn Reykjanesbæjar opnar yfirlitssýningu á verkum Daða Guðbjörnssonar og á þessum tímamótum gefur hann safninu 400 grafík verk. Sýningin mun opna fyrir almenning laugardaginn 17. október og standa yfir til 29. nóvember, en vegna aðstæðna verður opnunarhóf þegar Víðir leyfir.

Um eigin starfsferil segir Daði: Eftir farsælan starfsferil til sjós og lands, mest við húsabyggingar, hef ég eftir 1983 nær eingöngu fengist við að mála málverk og þrykkja grafík myndir. Var í hlutastarfi sem leiðbeinandi við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1985 til 1989 og við Myndlistaskólann í Reykjavík 1988 til 1997. Hef tekið þátt í fjölda samsýninga og haldið einkasýningar, oftast á Íslandi en einnig erlendis. Sýning með stórri sýningarskrá að Kjarvalsstöðum árið 1993 og á verk í helstu listasöfnum á Íslandi. Var þátttakandi í sýningum gullpenslana frá 1999 og Akvarell Ísland 2000. Gerði leikmynd fyrir Íslensku Óperuna 2002. Einnig unnið bókverk og bókaskreytingar.

Önnur störf: Formaður Félags íslenskra myndlistamanna 1986 til 1990. Var í safnráði Listasafn Íslands 1987 til 1989. Hef unnið með menningarmálefni Sjálfsstæðisflokksins og verið meðlimur í Rótarýklúbb Reykjavík-Miðborg síðan 1993. Viðurkenningar: Listamannalaun 1991. Einnig starfslaun frá Íslenska ríkinu og Reykjavíkurborg. Verðlaun í samkeppni um mataruppskriftir hjá Vöku Helgafelli 1997.