Hong Kong flensan 1969 og afleiðingar hennar í Keflavík

Íbúar í Keflavík horfast nú í augu við 28% atvinnuleysi í sveitarfélagi sínu, Reykjanesbæ. Atvinnuleysið er afleiðing af algeru hruni í helstu atvinnugreinum sveitarfélagsins, flugþjónustu og ferðaþjónustu. Það hrun er aftur bein afleiðing af Covid-19 faraldrinum. Áhugavert er í því samhengi að skoða flensufaraldur sem að ýmsu leyti var svipaður Covid-19 faraldrinum, en hafði allt aðrar afleiðingar hvað varðar atvinnulíf og efnahag. Þetta er flensufaraldurinn sem braust út í Hong Kong síðla árs 1968 og barst um alla heimsbyggðina á því ári og árið eftir. Talið er að milli ein og fjórar milljónir manna hafi látið lífið í þessum faraldri, þar á meðal allt að 100.000 manns í Bandaríkjunum. Árið 1968 var raunar ekki laust við atvinnuleysi – þetta ár skall mikil efnahagskreppa á Íslandi. Ástæðan var hins vegar ekki öryggisráðstafanir vegna flensunnar og hrun í flugi og ferðamennsku vegna þeirra, heldur hrun síldveiða, og í framhaldinu varð verulegt atvinnuleysi. Það er athyglisvert að skoða örlítið Hong Kong flensuna í þessu ljósi.

            Eins og áður sagði braust Hong Kong flensan út í Hong Kong. Það var 13. júlí 1968 sem fyrstu skráðu tilfellin komu fram. Á aðeins tveimur vikum veiktust 500.000 manns í Hong Kong. Orsök flensunnar var að fram kom nýr inflúensustofn sem nefndist H3N2. Hann var ný tegund svokallaðrar inflúensuveiru A. Þessi veira var afkomandi H2N2 veirunnar sem valdið hafði miklum inflúensufaraldri 1957–1958 sem kallaður var Asíuflensan. Í júlílok var fólk orðið veikt í Víetnam og Singapúr. Í september var flensan komin upp í Indlandi, Filippseyjum, norðurhluta Ástralíu og Evrópu. Í sama mánuði kom hún upp í Kaliforníu, þangað sem hún barst með hermönnum frá Víetnam. Víetnamstríðið stóð þá sem hæst. Veiran barst loks til Japan, Afríku og Suður-Ameríku árið 1969.  

            Afleiðingarnar voru skelfilegar. Í Berlín dóu svo margir að yfirvöld urðu að geyma líkin í göngum fyrir neðanjarðarlestir. Í Vestur-Þýskalandi voru öskukarlar kallaðir til starfa við að grafa lík því útfarastofur réðu engan vegin við mikinn fjölda látinna. Alls munu um 60.000 manns hafa látist í Þýskalandi öllu. Flensan hafði einnig gífurleg áhrif í Frakklandi og Bretlandi. Í Frakklandi lá helmingur vinnuaflsins í flensu um tíma. Iðnaður lamaðist að mestu. Flest dauðsföllin í heiminum urðu um áramótin 1968 til 1969. Veiran birtist svo á ný veturinn eftir og olli þá enn fleiri dauðsföllum.

            Það var semsagt um að ræða nýja bráðsmitandi veiru af inflúensustofni, en einkennin virðast oft hafa varað í fjóra til fimm daga. Stundum stóð flensan þó yfir í allt að hálfan mánuð. Tali er að flensan hafi smitast frá svínum til manna, en að hún hafi átt uppruna sinn í fuglaflensu. Fuglaflensa og mannaflensa blandaðist í svínunum á nýjan hátt og barst svo til manna. Það olli tilurð nýju veirunnar. Skyldleiki veirunnar við eldri stofna gæti hafa átt þátt í því að hún varð tiltölulega væg miðað við t.d. spænsku veikina 1918, þegar um 50 milljón manns létust í flensufaraldri af völdum nýrrar veiru.

            Líkt og í Covid-19 faraldrinum voru flestir þeir sem létust orðnir 65 ára. Það var talsverður munur á því hversu margir létu lífið í fyrri og seinni faraldri eftir svæðum. Í Bandaríkjunum og Kanada var flensan mun skæðari veturinn 1968 til 1969, en það var þveröfugt í Evrópu og Asíu, flensan veturinn eftir drap þá tvisvar til fimm sinnum fleiri en veturinn á undan.

            Ekki er hlaupið að því að afla upplýsinga um gang flensunnar hér á landi. Blöðin birtu stundum skýrslur frá farsóttarlæknum um farsóttir í Reykjavík. Ein slík skýrsla birtist í Þjóðviljanum í janúar 1969. Af henni er ljóst að inflúensa hafði lagt um 500 manns í rúmið í bænum. Það var óvenju slæmur flensufaraldur. Fáar aðrar tölur eru fáanlegar. Af heildardánartölum verður ekki ráðið að sérstaklega margir hafi látist umfram venju þennan vetur. Hafi dánarhlutfallið verið svipað og í Bandaríkjunum og Þýskalandi má búast við að 100-200 manns hafi látist af völdum flensunnar. Það er svipað og í Covid-faraldrinum nú, en munurinn er ef til vill sá að ráðstafanir vegna flensunnar í janúar voru nær engar, engin sóttkví og engin einangrun veikra. Mjög lítið var fjallað um flensuna í dagblöðunum. Hún vakti litla athygli. Þó er þess getið á einum stað í Morgunblaðinu að 33 ára jasstónlistarmaður í Bandaríkjunum, nafngreindur, hafi látist af völdum flensunnar, en þess getið að hann hafi haft undirliggjandi sjúkdóma.                    

            Á þessum árum var millilandaflug hafið. Flugfélag Íslands var nýbúið að fá nýtísku Boeing þotur og flaug á þeim til útlanda. Loftleiðir gerðu góðan bissnes með skrúfuþotur sínar, sem buðu lágt verð á flugleiðinni milli Bandaríkjanna og Luxemborgar. Alls komu um 40.000 ferðamenn til landsins árið 1968 og 44.000 árið eftir. Ferðamönnum fjölgaði mjög hratt á þessum tíma, voru orðnir 53.000 árið 1970. Engu að síður var ferðamennskan afar lítið brot af því sem hefur verið á síðustu árum. Hún var langt frá því að standa undir verulegri ferðaþjónustu og mikilli atvinnu á því sviði, eins og verið hefur að undanförnu og verður aftur þegar menn hafa náð tökum á Covid-19 faraldrinum. Ferðir Íslendinga til útlanda til að fara í frí á sólaströndum voru líka rétt að hefjast en fóru hratt vaxandi. Engar takmarkanir á ferðir voru settar af völdum Hong Kong flensunnar og flug hélt áfram eins og ekkert hefði í skorist.

            Atvinnustarfsemi í Keflavík var á þessum tíma þegar orðin talsverð tengd flugrekstri, en þó ekki nándar nærri og nú. Einnig unnu fjölmargir Keflvíkingar á Keflavíkurflugvelli hjá verktökum sem sinntu verkefnum fyrir varnarliðið og við önnur störf tengd rekstri flugvallar og herstöðvar. Hlutur Keflavíkurflugvallar í atvinnustarfsemi í Keflavík var um þriðjungur, en annar þriðjungur hafði framfæri af hinni aðalatvinnugreininni í Keflavík, fiskveiðum. Fiskveiðarnar voru fyrst og fremst botnfiskveiðar á hinum afar gjöfulu miðum rétt í grennd við bæinn. Þær voru stundaðar á vélbátum. Stór hluti vélbátanna stundaði síðan veiðar á uppsjávarfiski, síldveiðar, fyrir norðan land á sumrin. En nú gerðist það 1968 að síldin hvarf eins og frægt er orðið. Það olli gríðarlegri kreppu í sjávarútvegi, því síldin hafði verið langverðmesti fiskurinn allan 7. áratuginn. Gengi íslensku krónunnar var fellt um 40% þetta ár og atvinnuleysi jókst. Það var á skömmum tíma orðið 2,5%, og að öllum líkindum hafa einhverjir sjómenn og síldarstúlkur í Keflavík misst vinnuna, sem annars hefðu farið norður að veiða og verka síld í tunnur. Keflavík naut þess þó í þessari kreppu, öfugt við þá sem nú er, að verkefni og störf á Keflavíkurflugvelli við flugþjónustu, ferðamennsku og þjónustu við Varnarliðið létu ekkert á sjá, héldu áfram af fullum krafti. Keflavík hefur því að öllum líkindum farið einna best út úr íslensku kreppunni 1968–1969 af öllum kaupstöðum.

            Það sem sker mest í augun varðandi muninn á Hong Kong flensunni og Covid 19 faraldrinum er hversu fjölmiðlaumfjöllun og sóttvarnaraðgerðir eru margfalt meiri nú en 1969. Varla sést nokkur umfjöllun í blöðunum frá 1969 og nær ekkert er fjallað um sóttvarnaraðgerðir þar. Þetta er mjög athyglisvert og forvitnilegt.

 Árni Daníel Júlíusson
söguritari