Eldri "Ljósmynd dagsins"

 

22. apríl 2020 - Sumardagurinn fyrsti

Gleðilegt sumar kæru samborgarar.

Á hverju ári frá árinu 1938 hefur Skátafélagið Heiðabúar staðið fyrir skrúðgöngu og mætt til skátamessu á Sumardaginn fyrsta. Þetta árið er í fyrsta skipti í 82 ára sögu skrúðgöngu Sumardagsins fyrsta sem hún fellur niður vegna samkomubannsins. Einnig stóðu skátarnir fyrir skrúðgöngum í tengslum við barnaskemmtanir, á sjómannadaginn, 1. maí og svo að sjálfsögðu 17. júní. Hin síðari ár hafa skrúðgöngurnar verið einskorðaðar við Sumardaginn fyrsta og 17. júní.

Myndir dagsins eru flestar úr safni Heimis Stígssonar ljósmyndara. Og voru teknar á árunum 1964, 1965, 1967, 1972, 1973 og 1976. Svo er ein mynd sem tekinn var af  það Helgi S. Jónssyni sem hann tók við Kyndil 1966. Á þessum myndum má sjá marga valinkunna íbúa Reykjanesbæjar í skrúðgöngu á Sumardaginn fyrsta og í skátamessu.  Helgi Biering tók saman.

 Fleiri myndir

 

17. apríl 2020 - Frú Vigdís Finnbogadóttir heimsækir Njarðvíkinga

 

Ljósmynd dagsins er frá 50 ára afmæli Njarðvíkur.

Frú Vigdís Finnbogadóttir heimsótti Njarðvíkinga á þessum tímamótum og gróðursetti tré eins og alltaf þegar hún kom í opinberar heimsóknir.

Fleiri myndir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

8. apríl 2020 - Frá Torfærukeppni Stakks

Myndir dagsins eru frá Torfærukeppni Stakks. Við látum fylgja með glefsur úr grein eftir Guðmann Héðinsson sem birtist í Faxa 1 mars 1988 í tilefni af 20 ára afmæli Björgunarsveitarinnar Stakks. Myndirnar eru frá keppninni sem var 1973 og ljósmyndarinn var Heimir Stígsson.

TORFÆRIIKEPPNI STAKKS

Fljótlega eftir stofnun sveitarinnar fóru félagar að huga að fjáröflun fyrir sveitina. Bifreiðaíþróttaklúbbur Reykjavíkur B.I.K.R. hafði haldið að minnsta kosti tvær jeppakeppnir í Reykjavík og nú stakk einhver upp á að halda að minnsta kosti tvær jeppakeppnir í fjáröflunarskyni. Ákveðið var að prófa þetta enda stóð þetta félögum sveitarinnar næst, en þeir voru alræmdir jeppa- og fjallamenn. Velviljaðir landeigendur við Grindavík lánuðu land undir keppnina og þar hefur hún verið haldin allar götur síðan 1969 fyrir utan 1970, en þá féll hún niður vegna anna eða annarra orsaka.

Keppnisreglur vonu unnar upp úr reglum B.I.K.R. og hafa síðan verið að þróast í gegnum árin. Allar götur síðan hefur Björgunarsveitin Stakkur verið leiðandi í torfæruakstri hér á landi og eftir að aðrir fóru að halda keppnir hefur alltaf verið litið á jeppakeppni Stakks sem einskonar „DERBY“ -jeppakeppnanna. Í gegnum tíðina hafa allar nýjungar orðið til hjá Stakk. Drullugryfjan, ísgryfjan, stauraakstur og tímaþrautin, allt þrautir sem við höfum verið að þróa í gegnum árin.

Fyrstu árin voru jeppakeppnirnar mjög frumstæðar miðað við í dag en þær þróuðust ár frá ári. Árið 1971 þótti rosalegt að vera á Willys með V-6 og 750-16 dekk, ég tala nú ekki um, ef þau voru átta strig alaga. Árið 1977 var engin jeppi alvörutæki nema hann væri með áttu og bæði drif splittuð með skófludekk að aftan.

Ég sé hann [Harta] ennþá fyrir mér í gallabuxum á skyrtunni með uppbrettar ermar með eldspýtu í munnvikinu . Þetta var stællinn í þá daga og ekki var verra að vera vel skítugur á höndunum. Og svo bara ók hann upp með stæl. „Rosalegt". Árið eftir kom Rúnar á Willys Overland diesel og auðvitað í köflóttri skyrtu með uppbrettar ermar og stal bikarnum af Harta. Það er í fyrsta og eina skiptið sem diesel-bíll vinnur keppnina hjá okkur. ... Ég fattaði það ekki fyrr en löngu seinna, að í þeirra huga var það ekki Willys Overland sem var að vinna keppnina heldur Dodge Weapon diesel. Svo var það sjoppan, auðvitað varð að hafa sjoppu. Alveg lágmark að þeir sem svindluðu sér inn fengju að eyða peningunum í sjoppunni.

Annars er um að gera ð farainn á tímarit.is og skoða Faxa og fásagnirnar þar af jeppakeppni Björgunarsveitarinnar Stakks.

https://timarit.is/page/5186927?iabr=on#page/n36/mode/2up/search/jeppakeppni%20stakks

Fleiri myndir

 

7. apríl 2020 - Frá opnun Tommahamborgara

Myndir dagsins eru úr safni Heimis Stígssonar ljósmyndara og varðveitt er hjá Byggðasafni Reykjanesbæjar og eru frá opnun Tomma hamborgara í Keflavík.

Laugardaginn 21. Nóvember 1981 opnaði Tomma-hamborgarar á Hafnargötu 54 í Keflavík. Hér er svo fréttin sem birtist í Víkurfréttum nokkrum dögum síðar um opnunina.

Við opnunina auglýsti staðurinn fría hamborgara og Pepsí fyrir alla Suðurnesjamenn milli kl. 15 og 17, og eins og sést á meðfylgjandi mynd, þá myndaðist strax mikil biðröð. Að sögn Tomma voru á þessum tveim tímum gefnir 600 hamborgarar, auk þess sem afhentir voru 250 úttektarmiðar.  Margir vildu notfæra sér fría hamborgara og Pepsí, Tommi hafði ekki undan að afgreiða þar sem aðsókn fór fram úr því sem búist var við.

 

Tommaborgarar opnuðu á nýjum stað á Fitjum ásamt Shell og Hagkaup 7. júlí 1983 og rak hann um tíma tvo staði hér á Suðurnesjum.

 Helgi Biering tók saman

Fleiri myndir

 

6. apríl 2020 - Hafnir

Í dag sýnum við ykkur nokkrar gamlar myndir úr Höfnum og segjum örlítið frá.

Í 35. kafla Landnámu segir „Herjólfur hét maður Bárðarson, Herjólfssonar, frændi Ingólfs landnámamanns. Þeim Herjólfi gaf Ingólfur land á milli vogs og Reykjaness.“

Ingólfur Arnarsson, fyrsti landnámsmaðurinn, eignaði sér landið vestan við Ölfusá, sem í dag er kallað Reykjanesskagi. Síðan ráðstafaði hann landi til fimm manna og einnar konu. Steinunn gamla var ættingi Ingólfs, hann gaf henni norðurpart skagans, sem hún endurgalt honum með prjónaðri yfirhöfn. Hún gaf Eyvindi, nánum ættingja sínum landið sem nú er kallað Vogar[á Vatnsleysu]. Ingólfur gaf tveimur öðrum ættingjum sínum landsvæði, Herjólfi Bárðasyni gaf hann landið frá Höfnum til odda Reykjaness og til Ásbjarnar Össurarsonar gaf hann landsvæðið milli síns eigin lands og Eyvindar.

Fyrstu íslensku landnámsmennirnir, sem komu til landsins í kringum 874, voru aðallega af norrænum uppruna, að mestu af vesturströnd Noregs. Á Íslandi þá gátu þeir stundað landbúnað og ræktað jörðina á sama hátt og þeir höfðu í fyrri heimkynnum sínum, alið búfénað og hlúið að uppskerunni. En líklegast er að það hafi verið rík fiskimið rétt við landsteinana ásamt öðrum þýðingamiklum hlutum eins og rekavið, rostungum, fuglum og hvölum sem hvöttu til landnáms á Íslandi. Í gegnum aldirnar hafa fiskimiðinn við Reykjanesið verið með þeim gjöfulli og sennilega líka stöðugri í kringum Ísland. Hér kom aldrei t.d. hafís sem truflaði vetrarvertíðirnar.

Vissulega höfum við sannanir fyrir því að á Reykjanesi hafi landnám byrjað fyrr en annarsstaðar á skaganum. Það sanna tóftir landnámsbæjarins í Höfnum á Reykjanesi. En samkvæmt sjöundu skýrslu um fornleifauppgröftinn í Vogi eftir  Bjarna F. Einarsson segir meðal annars. „Enn styrkist sú tilgáta að Vogur sé útstöð frá N-Evrópu og sé undanfari hins eiginlega landnáms sem átti sér stað í kjölfarið og kannski einmitt vegna þeirrar reynslu sem fólk hafði fengið af slíkum útstöðvum víðar um landið! Einnig er nokkuð ljóst að fólk hefur hafist við í stöðinni eitthvað fram á 10. öld og þá hefur hún að líkum verið í notkun í rúm 100 ár.“ Rústin er talin eiga upphaf sitt fyrir formlegt eða opinbert landnámsár Íslands.

Um aldir voru stórbýli í Höfnum og Hafnamenn með þeim auðugust á landinu. Því urðu Hafnir ein stærsta útgerðarstöð Suðurnesja um aldir meðan enn var róið á árabátum, stutt á gjöful fiskimið sem voru rétt undan landi. Hafnir eru falin perla á Reykjanesskaganum og hefur því miður setið eftir þegar kemur að uppbyggingu hin síðari ár.

Helgi Biering tók saman.

Fleiri myndir

 

3. apríl 2020 - Smiðjan i Ytri-Njarðvík


Í dag ætlum við að snúa okkur að Njarðvík og því atvinnusvæði sem er í kringum Skipasmíðastöðina. Látum við fylgja með hluta af óútgefnu viðtali sem Helgi Biering tók við Jón A. Valdimarsson árið 2006. Þar sem hann segir frá sér og af stofnun og rekstri Smiðjunnar sf. sem var í Ytri Njarðvík.

 Hver var Jón? 

Jón Valdimarsson var fæddur á Brekku (gömlu Brekku) í Vestmannaeyjum 5. febrúar 1922, (d. 30. Jún. 2009) foreldrar mínir eru Helga Jónsdóttir, dóttir Jóns Þorsteinssonar járnsmiðs á Stokkeyri, frá Kolsholtshelli og Valdimars Gíslasonar múrarameistara frá Nýjabæ i Sandvíkurhreppi, sonur Gísla Guðmundssonar frá Nýjabæ.

Atvinnan:

Haustið 1940 fluttist ég með foreldrum mínum til Sandgerðis og síðan vorið 1941 til Keflavíkur. ... Svo réð ég mig hjá hernum árið 1942. Þar ók ég Caterpillar veghefli og síðar vörubifreiðarstjóri til stríðsloka á eigin bíl (frá 1942 – 1945. Ö-139) og á bíl frá frystihúsi í Innri Njarðvík .

 

Jón stundaði nám við Dráttarbrautina Keflavík og lauk því námi á fjórum árum og fljótlega eftir það stofnaði hann Smiðjuna sf.

Skipasmíðastöð Njarðvíkur var að mig minnir stofnuð 1946 (Skipasmíðastöð Njarðvíkur stofnuð 1945 [Saga Njarðvíkur. bls 279]). Hún var stofnuð af starfsmönnum Bjarna heitins Einarssonar í slippnum í Innri Njarðvík og flestum af hans tengdafólki. Þegar ég kom úr náminu fór ég fljótlega að starfa sjálfstætt með mági mínum, Marteini Sigurðssyni vélstjóra. Við unnum allskonar vinnu í bátum og við ýmsar lagnir. Skipasmíðastöðin í Njarðvík var án smiðju. Bjarni Einarsson kom að máli við mig og fór fram á að ég setti á stofn smiðju í helmingafélagi við Skipasmíðastöðina. Úr því varð að ég sló til. Ég var nýlega búinn að byggja íbúðarhús. Ég seldi það og lagði megin hluta húsverðsins  í stofnun Smiðjunnar sf. sem var til helminga eign minnar og konu minnar, Guðrúnar S. Sigurðardóttur, á móti Skipasmíðastöðinni. Þeir lögðu til leigu á skúrbyggingu til nokkurra ára en enga fjármuni.

Stofnun Smiðjunnar sf:

Við stofnun Smiðjunnar sf. (sameignarfélag) fóru hjólin að snúast. Smám saman jukust uppsátrin og svo einu og hálfu ári síðar fylltist slippurinn í fyrsta sinn að hausti milli úthalda. Smiðjan réði ekki við þetta á þessu stigi en gat útvegað þjónustu fyrir skipin hjá ýmsum aðilum. Smiðjan var að forminu til stofnsett um miðjan júní mánuð 1951. Á þessum tíma var verðbólga gífurleg, þá skiptust á kauphækkanir taldar í tugum prósenta og á hinn bóginn gengisfellingar, sömuleiðis taldar í tugum prósenta. Því næst kom árabil þar sem ekki mátti selja vinnuna sem slíka á því sem maðurinn kostaði, en við máttum leggja á efni og vélavinnu eins og okkur listi. Þá átti að hlífa útgerðinni við háu kaupi en reikningarnir máttu vera að öðru leiti háir fyrir vélavinnu og efni.

Ég mynnist þess að forystumaður ríkissmiðju settist við borð hjá okkur nokkrum smiðjumönnum og sagði „Þetta býður upp á þann kost að við verðum að skrifa út fleiri tíma en unnir eru“.

Verkefni:

Smásmiðjur gátu skrimt en stórar ekki nema með að beita bellibrögðum. Við komumst áfram með „Smiðjuna“ því okkur tókst að nýta tímana. Út bókhaldi kom að um það bil einn þriðji af tíma okkar fór í að smíða ýmsa hluti s.s. skipabolta, lunningarfestingar, reykrör og reykháfa, línurúllur, netarúllur (á borðstokka) stefnisrúllur, katla til húshitunar o.fl. sem seldist á næstu tveim til þrem árum. Ennfremur var smávægis af tilboðsvinnu og vinnu sem hægt var að geyma til betri tíma.

Á þessum tíma var mikið um vélaskiptingar, glóðarhausvélar eins og Tuxham, June Munkel o.fl. tegundir voru að víkja fyrir díesel vélum t.d. Caterpillar, Grei-diesel, og síðar arftaki þeirra G.M. diesel, Mannheim o.fl. Við settum nýjar vélar í allt að 6 til 7 báta á ári. Hjá okkur voru nokkrir afbragðs góðir viðskiptamenn í fastaviðskiptum. Haust og vor stóðu bátarnir í slipp og vegna vertíðaskipta, þ.e. skipta á milli þorskveiða og síldveiða eða snurvoðar. Á þeim tíma var allt yfirfarið svo sem yfirfarin vélin með stimpilhreinsun, slípaðir ventlar. Skipt um spil í sambandi við fyrirhugaðan veiðiskap, gert við stýrisjárn, réttar skrúfur og soðið í þær ef þær reyndust skörðóttar. Skipt um þéttingar ef um var að ræða vökvastýri. Svona mætti lengi telja upp. Reynsla mín er að fagmenn á bátasviðinu þurfa að vera mjög fjölhæfir og tók það 3 til 4 ár að fá alhliða þjálfun á því sviði.

Við það að menn voru í fastaviðskiptum við smiðju gerði það að verkum að smiðjumenn urðu staðkunnugir og fylgdust með hvar skóinn kreppti, þ.e. fylgdust með ástandi vélanna og búnaðar. Annað sem var hjá okkur, ef vélstjóri veiktist gátum við stundum lánað mann til að leysa af á meðan vélstjórinn var að ná heilsunni aftur. Og svo sem fyrr er minnst á vélaskiptingar og ýmislegt þeim tengt s.s. yfirfara og skipta um lensilagnir o.fl. fyrir starf mitt fyrir herinn og ákvæðisvinnu þar sem ég endurbyggði sex ljósavélar fyrir hann, var ég búinn að fá tilboðsrétt í vinnu fyrir hann.

 Erfiðleikar steðja að:

Ég fékk boð frá Iðnaðarbankanum um að til stæði að gera Skipasmíðastöð Njarðvíkur gjaldþrota. Ef ég gæti ekki bjargað mínum hlut kæmi ég til með að missa mitt inn í það gjaldþrot. Úr þeim málum varð að ég yfirtók þeirra hlut [skipasmíðastöðvarinnar] í smiðjunni, með því að ég slægi 5% af allri vinnu sem ég hefði unnið í slippnum hjá þeim og strikað yfir megnið af því sem þeir skulduðu smiðjunni.

 Húsnæðismál Smiðjunnar:

Ég fór að huga að hvað væri til ráða í húsnæðismálum. Karvel Ögmundsson átti skemmur upp með Borgarveginum. Hann taldi öll tormerki á að það gengi því eins og hann sagði „það yrði allt of dýrt fyrir þig“ að kaupa skemmu.

Ole Olsen var búinn að segja mér að hann vildi helst hætta með Olsen-Smiðjuna því hann væri of gamall

Ég sneri mér til hans og hann samþykkti að selja mér. Ég talaði við þá aðila sem áttu hlut í fyrirtækinu með honum. Að svo búnu fór ég aftur til Ola Olsen og sagði frá úrslitum athugana minna á kaupunum. Þá kvað hann sig hafa áttað sig á að verðið sem við vorum búnir að tala um væri allt of lágt. Og hækkaði hann sig þrefalt. Svo þar með var það úr sögunni.

Næst sneri ég mér til Framkvæmdabankans, til Doktors Benjamín, þar stóð á svörum og var ég til viðtals hjá honum langleiðina í ár. Þá var farið að þrengjast tíminn hjá mér með húsnæðið hjá skipasmíðastöðinni. Ég fór þá til Dr. Benjamín og sagðist viðurkenna að ég hefði ekki náð bankans en bað hann að gefa mér hreint svar, því ég þyrfti ca. 3 mánuði til að skila þeim verkum sem ég væri í og aðra þrjá mánuði til að koma verkfærunum í verð eða geymslu. Hann bað mig um að koma eftir þrjá daga. Þegar ég kom var hann kominn með áætlun um fjármál fyrir byggingu húss sem væri 260 fermetrar. Byggingin gekk ágætlega og fluttist ég inn með reksturinn um leið og húsið var fokhelt.

Endalokin:

Eins og ég hef áður getið um voru um Þessar mundir tíðar gengislækkanir. Það bar mest á því þegar ég hafði fengið gengislánið frá Framkvæmdabankanum, þá féll gengið stórlega, því var svo svarað með kauphækkunum, Ríkisstjórnin svaraði því um hæl og lækkaði gengið. Þegar ég var um það bil hálfnaður með bygginguna, ekki búinn að eyða láninu var samanlögð gengislækkunin í 80% frá því lánið var tekið. Síðan hélt ég áfram með um það bil Kr. 100 þúsund halla á ári svo reksturinn því stoppaði sjálfkrafa 1964. Fyrst seldi ég Ríkissmiðjunni á Seyðisfirði verkfærin og síðar Ellert Skúlasyni húsið. [innskot. Verktakafyrirtækið Ellert Skúlason er enn til húsa í því húsnæði.

Helgi Biering tók saman.

Fleiri myndir

 

2. apríl 2020 - Flugstöðin á Keflavíkurflugvelli

Í dag langar okkur að segja ykkur frá gömlu flugstöðinni sem var á Keflavíkurflugvelli. Einnig sýnum við ykkur nokkrar myndir úr ljósmyndasafni Byggðasafnsins af flugstöðinni eftir nokkra myndasmiði.

En húsið var byggt sem flugstöð og hótel við Keflavíkurflugvöll. Hafist var handa við byggingu flugstöðvarinnar haustið 1947. Flugstöðin átti að vera af fullkomnustu gerð og með hótelherbergi á annarri hæð. Byggingu var lokið í apríl 1949. Flugstöðin var timburklædd að utan og með þunnu áli.

Í gegnum tíðina var oft byggt við húsið ýmiskonar viðbyggingar og skúrar. Eftir að Íslendingar eignuðust nýja flugstöð (Flugstöð Leifs Eiríkssonar) þjónaði gamla Keflavíkurstöðin sem flugstöð fyrir bandaríska herinn og á sama tíma hýsti hún að hluta ýmiskonar þjónustu svo sem verslun og Í lokin þjónaði hún sem Ráðgjafar og þjónustumiðstöð flotans (Counseling and Assistance Center(CAAC))

Við vígslu byggingarinnar voru eins og lög gera ráð fyrir haldnar ræður og hér að neðan er brot af einni þeirra þar sem verið er að lýsa kostum og kynjum flugstöðvarinnar. Upphafleg lýsing á henni er finnanleg í grein í Vísir frá 11. apríl 1949, bls, 4. Tilvitnun hefst.

„Hin nýja flugstöð er þríþætt að notagildi. Í fyrsta lagi afgreiðsla millilandaflugs. Í öðru lagi gistihús, og í þriðja lagi aðsetur flugvélaáhafna og flugstjórnar. Byggingarfyrirkomulagið svo sem þessi skipting notagildis, er hvortveggja nýjungar.  ... Er flugstöðin tvímælalaust eitt vandaðasta hús sinnar gerðar og fullkomnast, miðað við flugstöðvarbyggingar annarra landa til þessa tíma.

Húsið er stálgrindarhús á steyptum járnbentum grunni. Fylling í veggjum eru einkum gips-plötur og auk þess steinull til einangrunar, með tvöföldu pappalagi. Allur viður veggja er eldtraustur, en það er nýjung efnafræðileg. Veggir eru ýmist klæddir viðarþynnum, eða málaðir, en á gólfi eru asphalt flísar. Í eldhúsi og snyrtiherbergjum eru stálflísar á veggjum en steinflísar á gólfi.

Gólf milli hæða er gert úr sérstökum léttum samliggjandi stálbitum, en steinsteypulag á yfirborði. Frá efra gólfi að lofti í afgreiðslusal, er meters holrúm, en loftið hengt í stálbitana. Í þessu rúmi eru allar helztu leiðslur um bygginguna, og auðvelt að komast að ef á þarf að halda. Gluggar eru tvöfaldir, og sérstaklega reynt að ganga svo frá, að góð einangrun sé, svo eigi berist truflun af hávaða flugvéla inn í húsið, eða ryk. Klæðning utan veggja er aluminium þynnur, sömu gerðar og flugvélaskrokkar eru klæddir...

Helstu vistarverur.
Við suðurdyrnar skiptist farþegahópurinn, þannig að þeir sem hér verða eftir, fara í gegnum rúmgóðan biðsal, vegabréfsskoðun, gjaldeyriseftirlit og tollafgreiðslu. Þeir sem áfram halda, og hafa aðeins um stund viðdvöl, svo sem venja er til, ganga beina leið inn í afgreiðslusalinn og bíða þar, eða í veitingasölum.

Afgreiðslusalurinn, sem við erum stödd í, en hann er 44 metrar á lengd, hefir innan sinna veggja afgreiðslur flugfélaga á hægri hönd, í norðurenda umboðsmenn gjaldeyrisyfirvalda íslenzkra, póst og símaþjónustu, og aðsetur ferðaskrifstofu ríkisins, minjagripasölu og hverskonar leiðbeiningar ferðamanna ... við snyrtiherbergi kvenna, er komið fyrir sérstöku anddyri, en þaðan er innangengt í vel einangruð hvílurúm fyrir þá kvenlega flugfarþega, er kynnu að vera lasnir og þarfnast sérstakrar hvíldar meðan flugvélar standa við.

Gisting. 
Á austurvegg afgreiðsluskála er stigasamband við gistihús, en öll efri hæðin er ætluð næturgestum... Fyrst tekur við rúmgóður setskáli, með þægilegum húsgögnum leðurklæddum, ...

Á þrjá veru úr skálanum er svo gengið til gistiherbergja. Á tvo vegu fyrir hótelgesti, en þar eru 29 tveggja manna herbergi, búin nýtízku húsgögnum, og öllum þægindum. Mismunandi litir eru á veggjum, og svo er einnig um gluggatjöld og rúmábreiður. ... í herbergjum flugfarþega er rúmgott baðherbergi.

... Auk þess má sjá í lofti allra herbergja lítið áhald, sem við ákveðið hitastig eða reykmyndun setur af stað brunabjöllur, í öllu húsinu, og gefur til kynna þegar í stað hvar hættan sé ferðum. Ennfremur má víðsvegar í veggjum sjá slökkvitækjaútbúnað, sem þykir sjálfsagður öryggisbúnaður í stærri og opinberum byggingum víða um heim.“ Tilvitnun líkur.

Á þessum tíma var greinilega ekki komið nafn á reykskynjara (lítið áhald, sem við ákveðið hitastig eða reykmyndun gefur frá sér hljóð).

Í Húsakönnun, sem er að finna á vef Minjastofnunar, kemur eftirfarandi fram um bygginguna í varðveislumati:

Listrænt gildi / Byggingarlist:      Miðlungs.          Flugstöðin var byggð sérstaklega sem flugstöð en á sama tíma var töluvert um slíkar stöðvar í bandaríkjunum.

Menningarsögulegt gildi:- Hátt.- Flugstöðin var minnisvarði um auknar ferðir Íslendinga til útlanda.

Umhverfisgildi:-  Miðlungs. - Byggingin er áberandi þar sem hún stendur næst byggðinni á Ásbrú.

Upprunalegt gildi:- Lágt. - Frá því að flugstöðin var byggð hefur verið byggt við hana ótal margar misgagnlegar viðbyggingar og skúrar.

Tæknilegt ástand:- Lágt. - Húsið er í mjög lélegu ástandi og heilsuspillandi. Mikill fúi og óhentugt byggingarefni.

Varðveislugildi:- Lágt. - Vegna mjög lélegs ástands á húsinu og eftir allar þær breytingar sem húsið hefur gengið í gegnum er fátt sem minnir á forna frægð og ekkert er eftir af upphaflegum innréttingum hússins.

Helgi Biering tók saman.

Fleiri myndir

 

 

1. apríl 2020 - Fyrsti apríl og Reynir sterki

Fyrsti apríl er haldinn „hátíðlegur“ víða um heim með tilheyrandi glettum og hrekkjum. Upprunann má að öllum líkindum rekja til miðalda en þá var haldið upp á nýtt ár á vorjafndægri 25. mars. En samkvæmt fornri hefð Rómverja  Gyðinga skyldu merkilegar hátíðir standa í átta daga. Fyrsti apríl var svo áttundi og síðasti dagurinn í nýárshátíðinni. Karlamagnús (Karl mikli) innleiddi þennan nýárssið á 8. öld en Gregoríus páfi 13. færði nýárið aftur til 1. janúar seint á 16. öld. Víða hélst þó áfram hefð miðalda, til dæmis var haldið upp á nýtt ár um vorjafndægur á Englandi allt til ársins 1752. Ærsl voru mikil þennan dag á miðöldum og fólk vildi halda í þau þótt ekki væri lengur um nýárshátíð að ræða. Öllu kristilegri bragur var kominn á 1. janúar sem áttunda dag jóla og því tilvalið að halda áfram gleðinni fyrsta apríl. Hér á landi staðfesta heimildir að gabbleikir hafi farið fram þennan dag á síðari hluta 19. aldar en Íslendingar þekktu siðinn áður og skrifuðu gabbbréf, svokölluð „aprílbréf“ á 17. öld. Ekki ómerkari maður en Árni Magnússon getur þessarar venju og Jón Þorláksson á Bægisá samdi gamankvæði, „Fyrsti aprílis“, þar sem beinlínis er talað um að hlaupa apríl.

En myndirnar sem við ætlum að sýna ykkur í dag er frá EKKI fangelsisvist Reynis sterka þegar hann braust úr hlekkjum og út úr fangelsinu á Keflavíkurflugvelli í september 1972. Og af hverju? Jú, hann sagðist geta það og sannaði að hann gat það. Fjöldi manns varð vitni að atburðinum og var hann myndaður í bak og fyrir. Myndasmiðurinn var Heimir Stígsson.

En hver var Reynir Leósson? Reynir Örn Leósson, eins og hann hét fullu nafni, var fæddur 11. febrúar árið 1939 á Akureyri og lést langt fyrir aldur fram árið 30. desember 1982. Hann fluttist ungur til Reykjavíkur og síðar til Njarðvíkur, þar sem hann starfaði við vélsmíðar og vörubifreiðaakstur. Síðar flutti Reynir aftur norður til Eyjafjarðar, þar sem hann stundaði bifreiðaviðgerðir þar til hann andaðist. Reynir var tvígiftur og átti sex börn.

Snemma bar á hinum miklu kröftum Reynis og kornungur hóf hann aflraunir. Hann ferðaðist síðar á ævi sinni víða um landið og sýndi aflraunir. Hann setti þrjú heimsmet, sem Heimsmetabók Guinness viðurkenndi. Eitt af þeim var þegar hann braust út úr fangaklefa lögreglustöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli. Þar var hann settur inn í fangaklefa, rækilega bundinn og keflaður með keðjum. Er þess getið að þegar Reynir braust út úr fangelsinu, hafi sú athöfn hafi tekið 5 klukkustundir og 50 mínútur.

Í morgunblaðinu þann 26. september 1972 er sagt um þennan viðburð Reynis.

Brauzt út úr traustasta fangaklefa landsins - eftir að hafa brotið af sér hand- og fótjárn og slitið af sér keðjur, sem vafið var utan um hann...  ...Var hann fyrst settur í ný og sterkleg handjárn fyrir aftan bak, þá i tvenn fótjárn, þau sverustu sem til voru. Þá hófu þeir að vefja, bregða, hnýta og læsa um hann 30 metra langri, gljáandi stálkeðju... …Áður en lokað var, sagði hann að það myndi taka sig um tvo klukkutíma að losa sig úr þessum böndum. Brostu þá margir í kampinn, því að það virtist vera yfirmannlegt eða ómögulegt að leysa þessar stálsviðjar. Fljótlega fór að heyrast keðjuglamur úr klefanum og síðar bættust við brak og smellir, sem virtust stafa frá því þegar járn voru brotin og keðjur slitnar… Hófst nú meira en tveggja tíma löng og hávaðasöm atlaga að þykkum steinsteyptum og járnbentum útveggjum klefans, en rétt um klukkan 20.00 hafði Reynir gert sér greiðan útgang gegnum vegginn og hafði því brotizt út úr fangelsinu með berum höndum.

Hægt er að lesa um afrekið í Morgunblaðinu  á timarit.is
https://timarit.is/files/16573007

https://timarit.is/files/16573073

Helgi Biering tók saman.

Fleiri myndir

 

31. mars 2020 - Vatnstankurinn á Keflavíkurflulgvelli

Vatnstankurinn á Keflavíkurflugvelli var reistur árið 1953 og hann er mikið stálmannvirki. Hlutverk hans var margþætt. Hann hafði meðal annars þann tilgang að halda nægum vatnsþrýstingi á varnarsvæðinu. Einnig ber hann uppi ljósmerki keflavíkurflugvallar sem gerir hann líka mjög áberandi í umhverfi sínu. En þó er tankurinn aðallega þarna til þess að vera til taks með nægt vatn fyrir slökkvikerfið í byggingu 885, sem er stóra flugskýlið við hlið tanksins, en skýlið var byggt árið 1957 sem flugskýli yfir herflugvélar varnarliðsins á tímum kalda stríðsins.

En aftur að vatnstanknum. Tankurinn hefur fágildi á Íslandi en engu að síður af klassískri gerð sem má finna víða í bandaríkjunum. Hann hefur verið einskonar tákn flugvallarins sökum hæðar og litavals. Tankurinn er mjög áberandi kennileiti sem sést víða að af Suðurnesjum og jafnvel frá höfuðborgarsvæðinu þegar merkjaljósið er komið í gang í rökkrinu.

En ljósmerkið á toppi tanksins er eitt af einkennum flugvallarsvæðisins. Í því eru tvær ljósaperur og tvær til vara. Ein af hvoru í hvoru ljóshúsi. Perurnar eru 1000W hver. Ljósmagnið er svo magnað upp með því að peran lýsir á spegil sem svo varpar ljósinu aftur í annan spegil sem er íhvolfur.  Og í hvoru ljósahúsi var sjálfvirku búnaður sem skipti um ljósaperu ef pera sprakk.  Ljósið lýsti einu grænu ljósi og tveim hvítum. Hvíta ljósið var látið blikka tvisvar með því að það voru rákir í glerinu að framan sem braut upp ljósgeislann og breytti stefnu ljóssins þannig að það virtist blikka þegar á var horft. Eftir að herinn fór og Keflavíkurflugvöllur hætti að vera herflugvöllur var skipt um ljós og nú er merkið eitt grænt og eitt hvítt.

Gamla ljósmerkið er núna hér á Byggðasafni Reykjanesbæjar og verður sett á væntanlega varnarliðssýningu safnsins þegar fram í sækir.

Hér eru nokkrar myndir þar sem vatnstankurinn sést frá ýmsum sjónarhornum og á mismundi tímum af mismunandi ljósmyndurum.

Helgi Biering tók saman.

Fleiri myndir

 

30. mars 2020 - Mótorhjólakeppni

Nú þegar fer að vora fara mótorhjólamenn og konur að hugsa sér til hreyfings. Að því tilefni eru myndir dagsins af mótorhjólakeppni sem fram fór á malarvellinum í Njarðvík í september 1972. Myndasmiðurinn af þeim var Heimir Stígsson.

Einnig fylgir með mynd úr ljósmyndasafni Reykjanesbæjar af einu af fyrstu mótorhjólunum. Sú mynd var líklega tekin á millistríðsárunum. Myndasmiðurinn þar er ókunnur.

Helgi Biering tók saman.

Fleiri myndir

 

27. mars 2020 - Loðna

Loðna (fræðiheiti: Mallotus villosus) er smávaxinn uppsjávarfiskur sem heldur sig í torfum. Loðnan er algeng í köldum og kaldtempruðum sjó á norðurhveli jarðar. Stærstu loðnustofnar þar eru í Barentshafi og á Íslandsmiðum. Á sumrin er loðnan við íshafsröndina þar sem hún étur dýrasvif. Stór loðna étur ljósátu og önnur smákrabbadýr. Afræningjar loðnu eru m.a. hvalir, selir og þorskur. Loðnan hrygnir á sandbotni og við sandstrendur 2-6 ára og drepst yfirleitt að lokinni hrygningu.

Hrygna nær allt að 20 sm lengd og hængur verður allt að 25 sm langur. Þegar mikið er af síld í Barentshafinu virðist það hafa neikvæð áhrif á loðnuna, sennilega bæði vegna samkeppni um æti og vegna þess að síldin étur loðnuhrogn. (Heimild: Wikipedia).

Hjálmar Vilhjálmsson, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun, sagði að sumar- og haustvertíðin hafi gengið fremur illa allt frá árinu 1988. Hann sagði ennfremur að frá því að farið var að fylgjast skipulega með loðnunni árið 1966 hafi komið lægðir í stofninn á 8­10 ára fresti. (Heimild: Morgunblaðinu 1. febrúar 1997).

En eins og myndir dagsins bera með sér þá hefur einnig gengið vel með loðnuna. Og þar má sjá bræðsluna og einnig alla mengunina sem kom frá henni yfir bæinn. Svo mikið var af loðnu að henni var jafnvel sturtað á Patterson til geymslu þar til losnaði pláss í geymsluþróm fiskimjölsverksmiðjunnar á landamærum Njarðvíkur og Keflavíkur. Dekkhlaðnir loðnubátar á leið í land og bræðsluskip úti á víkinni fyrir framan Keflavík má einig sjá á myndunum.

Helgi Biering tók saman.

Fleiri myndir

 

26. mars 2020 - Fótboltaleikur ÍBK við Real Madrid 1972

Í ljósi þess að í dag átti Íslenska landsliðið í fótbolta að keppa við Rúmena á Laugardalsvelli, þá finnst okkur við hæfi að sýna ykkur myndir frá tveim öðrum leikjum sem fóru fram á Laugardalsvelli. Þeir voru spilaðir á áttunda áratug síðustu aldar. Í báðum tilfellum var það ÍBK sem tóku á móti erlendum félagsliðum. Myndasmiðurinn var Heimir Stígsson og eru þessar myndir örfáar úr miklu myndasafni Heimis í Ljósmyndasafni Reykjanesbæjar.

En um leikina. Þann 27. september 1972 spiluðu Keflvíkingar við Real Madrid í Evrópukeppninni. Leikurinn fór 1-0 fyrir Real. Leikmenn Keflavíkur voru: Þorsteinn Ólafsson í markinu, í vörninni voru svo Guðni Kjartansson, Hjörtur Zakaríasson, Einar Gunnarsson, Gísli Torfason og Ástráður Gunnarsson. Miðjumenn voru Grétar Magnússon, Karl Hermannsson og Ólafur Júlíusson og sóknarmenn voru Steinar Jóhansson og Friðrik Ragnarsson.  Þjálfari liðsins var Einar Helgason.  Á myndinni ganga leikmenn liðanna inn á Laugardalsvöllinn. 

Fyrri leikurinn var spilaður á Estadio Santiago Bernabéu í Madrid og hann fór 3-0 fyrir Real.

Hinn leikurinn var einnig í Evrópukeppninni og var spilaður 19. september 1973 og þar áttust við ÍBK og Hibernian frá Skotlandi. Sá leikur fór 1-1 á Laugardalsvelli.

Þar var Þorsteinn Ólafsson í marki og varnarmenn voru Gísli Torfason, Ástráður Gunnarsson, Guðni Kjartansson, Einar Gunnarsson og Hjörtur Zakaríasson. Á miðjunni voru svo Gunnar Jónsson, Jón Ólafur Jónsson og Karl Hermannsson. Sóknina skipuðu svo Steinar Jóhannsson og Ólafur Júlíusson. Varnarmaðurinn Vilhjálmur Ketilsson sat svo á bekknum .

Leikurinn úti var spilaður á Easter Road leikvanginum í Edinborg og fór 2-0.

Helgi Biering tók saman.

Fleiri  myndir

 

25. mars 2020 - Njarðvíkurlíkanið

Á sjöunda áratug síðustu aldar bjó Guðbrandur Magnússon til líkan af Ytri Njarðvík eins og  byggðarlagið var þegar hann kom þangað 17 ára árið 1925. Á 30 ára afmælisdegi Njarðvíkurhrepps árið 1972, afhenti Guðbrandur svo hreppsnefnd Njarðvíkur líkan af Ytri Njarðvík.  Þetta líkan er hið mesta listaverk.

Guðbrandur var með sams konar líkan af Innri-Njarðvík í undirbúningi  en honum  entist ekki aldur til að fullgera það. Í gjafabréfinu sem hann afhenti með líkaninu gat hann þess, að þessi gripur verði geymdur á þeim stað, sem fólk nútímans og komandi tíma eigi þess kost að sjá við hvaða lífsaðstöðu fólk bjó við á þessu tímabili. 

Guðbrandur var fæddur að Emmubergi á Skógaströnd 17. júní 1908, 17 ára fluttist hann svo til Njarðvíkur. Þann 9. des. 1933 kvæntist Guðbrandur Huldu Pétursdóttur frá Hellissandi og áttu Þau þrjú börn. Guðbrandur var trésmiður og bjó að Borgarvegi 10 í Ytri Njarðvík. Hann var sérstakur hagleiksmaður og verklagni einkenndi störf hans öll, þótt trésmíði væri hans aðalstarf.

Líkanið er varðveitt á Byggðasafni Reykjanesbæjar og er reglulega sett á hinar ýmsu sýningar.

Helgi Biering tók saman.